Guðrún Bergmann - haus
21. ágúst 2013

Fljúgandi gegnum lífið

fuglar.jpgMér finnst gaman að fylgjast með fólki. Fylgjast með hvað það velur að gera við líf sitt. Sjá hvernig við „fljúgum" svolítið í gegnum lífið líkt og hópar af fuglum, án þess að gera okkur almennilega grein fyrir því. Við erum hópsálir og höfum lært að komast af með því að vinna saman í hópum, allt frá örófi alda. Hóphegðun okkur kemur öðruvísi fram í dag en hún gerði á öldum áður, en hún er samt til staðar.

Tískan er eitt merki um hóphegðun okkar. Þótt flestir vilji sýna einstaklingseðli sitt og vera öðruvísi, myndi enginn almennilegur tískugúrú láta sjá sig í einhverju sem ekki er í „tísku" það og það árið, eins og til dæmis að mæta í buxum með útvíðum skálmum, þegar þær þröngu eru í tísku. Við þurfum ekki annað en fylgjast með fólki á götunni til að sjá að fleiri en einn og fleiri en tveir vilja tilheyra tískuhópnum.

Líkt og með tískuna sveiflumst við í gegnum árstíðirnar á sama hátt, sem nokkurs konar hópsálir. Yfir sumartímann grilla „allir". Það er tíminn sem þú grillar alltaf um helgar og oft í miðri viku líka, hvort sem þú ert heima eða á ferðalagi. Ef þú býður heim þá er það  í grillboð. Um Verslunarmannahelgina þurfa helst allir að fara út bænum, helst á útihátíð. Þegar kemur að Menningarnótt þurfa helst „allir" að ganga í bæinn, því annars ertu ekki viðræðuhæfur á vinnustað eða í samkvæmum í framhaldi af henni.

Nú þegar haustar og börnin fara í skólann breytist hegðunarmynstrið enn einu sinni. Við förum að huga að heilsunni, mæta aftur í ræktina eða skrá okkur í jóga, dans, zumba eða hvað annað sem við ætlum að gera til að halda líkamanum liðugum og sterkum. Við breytum mataræðinu, tökum inn meiri bætiefni til að bæta upp fyrir slaka umhirðu heilsunnar yfir sumartímann. Við förum að sinna ýmsum vetraráhugamálum eins og að föndra, prjóna, sauma og smíða.

Við erum komin inn í nýtt vanatímabil og svo höldum við áfram að „fljúga" í gegnum lífið í misstórum hópum. Ég með mínum hópi og þú með þínum.