Guðrún Bergmann - haus
8. september 2013

Stígum fram, konur og karlar

bl0025-gr_-lean_in-kapa-04.jpgÍ sumar þegar allir voru að býsnast yfir því að veðrið væri svo leiðinlegt, var ég eiginleg frekar sátt við það. Ég hafði nefnilega tekið að mér það verkefni að þýða og gefa út bók og eins og vanalega setti mér frekar þröng tímatakmörk til að þrýsta verkefninu áfram. Ég sat því sveitt við innandyra meðan aðrir pirruðust yfir því að úti rigndi og setti rigninguna ekki fyrir mig þegar ég skrapp út í gönguferðir til að ná mér í súrefni.

Bókin sem um ræðir heitir STÍGUM FRAM og er eftir Sheryl Sandberg aðalframkvæmdastjóra Facebook, en enska heitið á henni er Lean In. Í bókinni hvetur Sheryl konur meðal annars til að stíga fram og yfirvinna aldagamlar innrætingar og leita eftir leiðtogahlutverkum innan fyrirtækja, stofnana og í stjórnmálum. Hún er ekki að beita einhverri tilfinningasemi þegar hún fjallar um þessi mál, því hún rökstyður framsetningu sína með niðurstöðum úr ótal rannsóknum alls staðar að úr heiminum. Hún bendir jafnframt á að um tíma hafi konur náð nokkuð miklum árangri og komist í stjórnunarstöður innan fyrirtækja í Bandaríkjunum, en svo syrt í álinn og um stöðnun sé að ræða og hafi verið í nokkur ár.

Í upphafi velti ég því fyrir mér hvort þessi bók væri of amerísk fyrir okkar samfélag, en þegar ég skoðaði tölfræðina hér heima, sem kemur fram í bókinni og sá launamismuninn, sem enn er ríkjandi, hversu fáar konur stjórna stórfyrirtækjum hér á landi og hversu erfitt það getur verið fyrir konur með ungbörn að fá dagheimilispláss eða gæslu fyrir börnin sín svo þær geti nýtt menntun sína og haldið áfram á vinnumarkaði, gerði ég mér grein fyrir að allt það sem Sheryl fjallar um í STÍGUM FRAM á ekki bara við hér á landi, heldur í flestum öðrum löndum.

Meðan konur eru ekki æðstu yfirmenn þjóða, sitja til jafns við karla á þjóðþingum eða ráða fyrirtækjum og stofnunum til jafns við þá, er rödd kvenna ekki að heyrast. Til að þetta megi breytast þurfum við konur að gera breytingar og leita eftir því að karlar geri það sama, því flestir þeirra eiga jú konur á vinnumarkaði eða dætur, sem eiga leið þangað í náinni framtíð. Vinnum saman að jöfnum rétti og launum fyrir bæði kynin. STÍGUM FRAM!

Sjá nánar á Facebook síðu og heimasíðu Lean In samtakanna.