Guðrún Bergmann - haus
Þú ert hér: Guðrún Bergmann > Ekki smart
10. desember 2013

Ekki smart

Það er kannski ekki smart að ræða um meltingu og hægðir í Smartlandinu, en ég held nú samt áfram að gera það. Held að það sé aldurinn sem leyfir mér það, því þegar vinkona mín spurði okkur stelpurnar eitt sinn fyrir svona þrjátíu árum: „Stelpur, hvernig eru hægðirnar?" fórum við allar í flækju og vildum ekki ræða þau mál. Því held ég að það sé aldurinn og sú reynsla að meltingin sé mikilvæg, sem gerir það að verkum að á námskeiðum mínum eru meltingar(vanda)málin reglulega rædd, því skortur á góðri starfsemi í meltingarveginum getur leitt til ótrúlegustu heilsufarsvandamála.

Ástæðan fyrir því að ég tek enn á ný upp þetta umræðuefni, sem fæstum þykir smart að ræða, er tvíþætt. Annars vegar sú staðreynd að við erum í mánuði þar sem flestir breyta mataræði sínu verulega með jólahlaðborðum og jólamat. Hins vegar sú að ég hef komist að því að meltingar- og hægðavandamál eru afar algeng hjá fólki á öllum aldri, jafnvel svo algeng að læknar eru farnir að ráðleggja hægðalosandi lyf, sem ætluð eru gömlu fólki, fyrir börn sem enn eru undir tíu ára aldri. Það er eiginlega ógnvænlegt.

Ég hvet eindregið til þess að fólk breyti sem minnst út af t.d. morgunverðinum sínum í þessum mánuði og gæti þess að taka allaf inn bætiefni og olíur, jafnvel yfir jólin. Þá er helst hætta á að fólk sofi lengur frameftir og komi óreglu á tímaklukku líkamans. Þá er líka hætta á að sú einfalda regla að taka alltaf inn bætiefni með morgunmatnum fara út í veður og vind.

Þegar farið er í jólahlaðborð, í heimahúsi eða á veitingastað eða í matarboð um jólin er líka góð hugmynd að hjálpa líkamanum aðeins og taka inn meltingarhvata, eins og til dæmis Super Digestaway frá Solaray. Best er að taka 1 hylki með mat, en í því eru ensím, sem eru nauðsynleg fyrir meltingu og samþættingu prótína, fitu og kolvetna.

Til að tryggja svo að líkaminn sé með nægilegar trefjar á þessum árstíma er gott að taka inn Triphala, annað hvort í hylkjum eða duftformi fyrir svefninn og drekka fullt glas af vatni með.

Neytendaupplýsingar: Meltingarensím og trefjaefni er hægt að fá í heilsuvöruverslunum og lyfjabúðum.