Guðrún Bergmann - haus
13. desember 2013

Kílómetragjald á jólakortin

jolasveinn.jpgÉg brá mér á pósthúsið í vikunni. Var að senda bók sem hafði verið keypt í vefverslun hjá fyrirtæki mínu. Ég fer nokkuð oft á pósthúsið og hef því fylgst með því  hvernig Pósturinn hefur fundið leiðir til að auka tekjur sínar við það eitt að bera út pakka eða bréf. "Viltu A eða B póst?" "Hver er munurinn?" A póstur er afhentur daginn eftir, B eftir "dúk og disk" - eða eftir 2 virka daga. Svo skiptir auðvitað máli hversu langt þú ert að senda pakkann. Það er ekki lengur eitt gjald fyrir allt landið. En semsagt - í þessari ákveðnu ferð á pósthúsið spurði ég svona af forvitni, hvað kostaði undir jólakort þetta árið - hálfpartinn teljandi sjálfri mér trú um að væntanlega væri það bara eitt gjald.

Svarið var einfalt. "Fer eftir því hvert þú ert að senda það (sem sagt kílómetragjald) og svo hvort þú vilt A eða B póst." Ég varð dálítið undrandi, en svo rann allt í einu upp fyrir mér af hverju þetta er. Pósturinn er búin að ráða einhvern aragrúa af fólki til að "bera" alla pakka og póst heim til okkar. Engin furða þótt póstburðargjöldin þurfi að hækka. Allt þetta burðarfólk þarf auðvitað að fá laun. Svo hefur Pósturinn látið gera sjónvarpsauglýsingu til að sýna okkur hvernig einokunarfyrirtæki í almennri póstdreifingu kemur póstinum okkar til skila - með þessari löngu röð fólks sem ber pakka og bréf heim til okkar - bara svo við vitum fyrir hvers konar "póstburð" við erum að greiða.

Á sama tíma og allt þetta "burðarfólk" er í fullri vinnu við að bera út póst og pakka til okkar hefur Pósturinn fækkað afgreiðslustöðum um allt land. Ég bý í Grafarholti (frekar fjölmennt hverfi) og eitt sinn tilheyrði það hverfi pósthúsinu í Árbæ (sem líka er frekar fjölmennt hverfi). Svo var pósthús í Grafarvogi (til að þjóna því fjölmenna hverfi). Fyrir tæpum tveimur árum var báðum þessum pósthúsum lokað og eitt pósthús með örfáum bílastæðum sett upp við Höfðabakka til að þjóna þessum þremur hverfum.

En aðeins aftur að jólapóstinum. Ég kíkti á hvað aðrir gera. Hjá Flugfélaginu er hægt að senda pakka sem er 1-10 kg að þyngd hvert á land sem er fyrir 1.300 krónur. Hjá Landflutningum er hægt að senda jólapakka hvert á land sem er fyrir 790 krónur. Engin kílómetragjöld hjá þeim, enda hafa þeir ekki sömu einokunaraðstöðu og Pósturinn. Þessir aðilar hafa hins vegar ekki leyfi til að dreifa jólakortum og því borgum við kílómetragjald fyrir þau.