Guðrún Bergmann - haus
Þú ert hér: Guðrún Bergmann > Eins og HULK
17. desember 2013

Eins og HULK

photo_5.jpgÉg velti því einn morguninn fyrir mér hvort ég myndi á næsta augnabliki breytast í HULK. Kannski var það græni liturinn á morgunbústinu sem kom þessu hugsanaferli af stað, en það stafar af því að ég hef undanfarið verið að bæta Spirulina-dufti út í það. Hef notað ýmislegt gult (Maca og Baobab) upp á síðkastið og svo bara tekið inn Chlorella eða blágræna þörunga. Heyrði svo að vaxtaræktarstöðvarnar settu Spirulina-duft alltaf út í orkudrykkina sem þeir selja fólki eftir æfingar - og þar sem ég er mikið að lyfta kössum þessa dagana fannst mér tilvalið að gera smá tilraun með það.

Ég gerði mér þó kannski ekki alveg grein fyrir að þegar ég er komin upp í 2 teskeiðar af Spirulina, yfirtekur græni liturinn allt. Bæði bláa litinn frá bláberjunum og eins brúna litinn frá Spiru-tein prótínduftinu með kakóbragðinu. Um áhrifin er þó ekki að villast. Ég er í alvörunni að verða eins og HULK - það er að segja græn.

Hér er uppskriftin að bústinu ef þú vilt prófa:

Svona lófafylli af frosnum bláberjum (áætlað)
2-2 ½ dl ískalt vatn
smávegis af fínu Himalaya salti (til að fá öll steinefnin)
skvetta af hörfræsolíu (ca 1 matsk - þessi nýja frá Heilsu er mjög góð)
2 skeiðar af Spiru-tein prótíndufti
2 teskeiðar af Spirulina (ath ráðlagt er að byrja á 1 tesk í viku og svo auka í 2)

Öllu blandað vel saman og drukkið í rólegheitum. HULK áhrifin láta ekki á sér standa, því þú munt að öllum líkindum fá blágrænar varir og hugsanlega þurfa að bursta tennurnar til að losna við græna slikju af þeim.