Guðrún Bergmann - haus
20. desember 2013

Sætt, sætara, sætast

Það er svo ótrúlega margt sem er sætt fyrir jólin. Sætt jólaskraut, sætar jólaskreytingar, sætar vörur í öllum verslunum, sætir jólasveinar, sæt jólalög og sætur fatnaður. Allt þetta er svo sætt og það áður en við komum að sætu kökunum, sætu eftirréttunum og sæta sælgætinu, sem okkur finnst svo sjálfsagt að neyta í ríflegu magni, eins og þetta sé eini mánuðurinn sem slíkt sé í boði.

Þegar flett er í gegnum jólablöð dagblaðanna, tímarit og rennt yfir matreiðslubækurnar í jólabókaflóðinu, er víða að finna mikið af sykri í uppskriftunum. Með hliðsjón af því er auðvelt að skilja af hverju neysla landsmanna á sykri er að meðaltali 60 kg á ári. 

Enn eiga ýmsir eftir að útbúa eftirrétti jólanna. Því er ekki úr vegi að skipta úr hvítum sykri og nota í staðinn annað sætuefni eins og til dæmis Xylo Sweet, sem má nota nákvæmlega eins og sykur. Svo er líka hægt að fletta upp í einni af nýjustu matreiðslubókunum á markaðnum, Brauð og eftirréttum KRISTU, en þar er að finna uppskriftir sem eru sykur-, ger- og glútenlausar, en smakkast samt ótrúlega vel.

Við eigum öll að geta notið þess að hafa það sætt, sætara eða sætast um jólin, án þess að skaða heilsuna með of mikilli sykurneyslu.