Guðrún Bergmann - haus
24. desember 2013

Jólin eru æði

tre_1224470.jpgÉg get ekki að því gert. Ég elska þennan árstíma. Hef gert það frá því ég var lítið barn og upplifði þá töfra sem þeim fylgdi sem eitthvað einstakt ævintýri, þökk sé móður minni. Kannski fylgdi jólunum öðruvísi eftirvænting þá en nú, því var ekki skreytt jafn snemma og nú. Þegar við systkinin fórum að sofa á Þorláksmessukvöld var ekki enn búið að skreyta jólatréð. Það var skreytt eftir að við sofnuðum og svo fengum við  að kíkja inn í stofu á alla dýrðina í stutta stund á aðfangadagsmorgun, áður en stofunni var aftur lokað fram á kvöld. 

Þegar ég fór sjálf að halda heimili bjó ég til mínar eigin hefðir og skreytti allt heimilið, fyrir utan jólatréð, fyrsta sunnudag í aðventu til að njóta jólaskrautsins lengur. Það er nefnilega ekkert sem freistar mín jafn mikið og fallegt jólaskraut og ég á það til að kaupa það á öllum árstímum, sama hvar ég er stödd í heiminum, auk þess sem ég hef oft búið skrautið til sjálf. 

En það er meira en bara jólaundirbúningur heima sem gerir það að verkum að mér finnst jólin vera æði. Á engum öðrum árstíma er jafnmikið af fallegum varningi í öllum verslunum og það er unun, þó ekki sé nema að horfa á alla fallegu hlutina. Þegar ég var barn var kveikt á ljósaskreytingum utanhúss á Þorláksmessu, en nú lýsa flottar ljósaskreytingar upp skammdegið frá því snemma í desember.  Á ferð um bæinn rekst maður á vini og vandamenn og upp úr miðjum mánuði hljóma alls staða kveðjur um gleðilega hátíð. Og þegar jólin renna upp er yndislegt að eiga samverustundir með fjölskyldu og vinum.

Minningar mínar um liðin jól geru bæði blandaðar gleði og sorg. Mest var gleðin þegar ég fæddi frumburð minn á aðfaranótt aðfangadags. Sorgin lagðist hins vegar þungt á mig þegar maðurinn minn heitnn lést á jólum. En þrátt fyrir áföll held ég áfram að gleðjast og hlakka til jólanna, því JÓLIN ERU ÆÐI!

Óska þess að þú finnir ævintýrið sem jólunum felst og eigir gleðileg jól.