Guðrún Bergmann - haus
Þú ert hér: Guðrún Bergmann > Prinsessulíf
16. mars 2014

Prinsessulíf

Þegar litla sonardóttir mín var spurð að því um daginn hvað hún ætlaði að verða þegar hún yrði stór, kom svarið fljótt og afdráttarlaust: "Prinsessa!" Hún var alveg með'etta á hreinu. Enda kom ekki annað til greina en að vera Anna prinsessa úr Frozen síðastliðinn Öskudag svo þessi litla dama fylgir draumum sínum vel eftir. Hún er reyndar bara rúmlega þriggja og hálfs og því væntanlega ekki búin að gera sér grein fyrir að prinessur er ekki heiti á almennri starfsstétt, en þangað til slíkt gerist nýtur hún þess að leika þær.

Svar hennar varð hins vegar til þess að ég fór aðeins að velta fyrir mér "prinsessulífi" lítilla stúlkna. Ég man ekki eftir því sem barn að litlar stúlkur hafi almennt verið kallaðar prinsessur af foreldrum sínum. Við lékum stundum kóng og drottningu og notuðum þá teppi yfir axlirnar til að búa til skikkju, en það var allt og sumt. Eftir að prinsessumyndir Disney urðu að helsta myndefni barna hefur hins vegar orðið breyting á og samhliða myndunum hafa komið á markaðinn kjólar, skór og kórónur fyrir litlar stúlkur og heill hellingur af prinsessum í leikfangahillurnar.

Í fyrstu prinsessumyndunum voru prinsessurnar óöruggar og varnarlausar og treystu á aðra til að bjarga sér. Þessir aðrir voru oftast prinsar sem síðan enduðu á að giftast þeim. En svo breyttist ímyndin og við tóku prinsessurnar eins og í myndinni Brave, sem eru sjálfstæðar, hugaðar og duglegar og vilja ekki fylgja gömlum hefðum.

Spurningin er: "Hvor ímyndin situr eftir í hugum lítlilla stúlkna þegar þær verða eldri?" Sú hjálparlausa eða sú hugrakka. Við mótum mynd okkar af heiminum meira og minna á aldrinum frá fæðingu og fram að sex til átta ára aldri, hvort sem þær hugmyndir eru réttar eða ekki - og bregðumst svo við því sem gerist í lífi okkar þegar við verðum eldri út frá þessum hugmyndum.

Verða litlar stúlkur fyrir vonbrigðum þegar þær komast að raun um að þær geta ekki orðið prinsessur þegar þær verða stórar? Hver verða áhrifin á væntingarnar, þegar þær uppgjötva að það prinsessulíf sem bíður flestra kvenna er bara hið almenna líf sem snýst um menntun, störf, afkomu, uppeldi á börnum og samskipti við hitt kynið sem ganga upp of ofan? Eða verða þær kannski eins og ein vinkona mín, sem er í kringum fimmtugt og er enn að bíða eftir prinsinum á hvíta hestinum?