Guðrún Bergmann - haus
29. mars 2014

60 mínútur jarðar

earth_hour_logo2.jpgSkiptir umhverfisátak sem stendur yfir í einungis 60 mínútur einhverju máli? Margir kunna að velta því fyrir sér hvort Earth Hour eða Jarðarstund sem er frá 20:30-21:30 í kvöld, verkefni sem World Wildlife Fund hrinti af stað árið 2007 í Sydney í Ástralíu, skipti einhverju máli. Svarið verður að vera játandi, því frá árinu 2007 hafa fleiri og fleiri borgi heims tekið þátt í viðburðinum með því að slökkva ljósin í kringum stórbyggingar og minna þannig íbúa sína á orkusparnað.

Átakið hefur ekki einungis verið notað til að minna á orkusparnað, því fólk hefur notað Jarðarstund til að sameinast um ákveðin umhverfisverkefni í sínu heimalandi, annað hvort með undirskriftasöfnun eða beinum aðgerðum. Í ár nær verkefnið til 7000 borga í meira en 150 löndum. Reykjavíkurborg er þátttakandi 3ja árið í röð og verður ekki kveikt á götuljósum fyrr en 21:30 og slökkt verður á flóðljósum við Háskóla Íslands og Perluna á meðan á Jarðarstund stendur, svo dæmi séu nefnd. Reykjavíkurborg hefur reyndar sent út hvatningu til fyrirtækja um að slökkva ljósin í kringum sín húsnæði frá 20:30-21:30, en við bíðum kvöldsins til að sjá hver viðbrögðin verða.

Áhugasamtök í kringum Jarðarstund á Íslandi standa fyrir kertaljósakonsert á Háskólatorgi HÍ á Jarðarstund. Þar kemur fram karlakórinn Bartónar og Ragnheiður Gröndal og Pálmi Gunnarsson taka nokkur lög saman. Allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Nýja Sjáland er fyrst til að slökkva ljósin hjá sér en svo rúllar verkefnið áfram kringum hnöttinn. Í ár er samhliða þessum viðburði rekið söfnunarátakið Earth Hour Blue, þar sem hægt er að leggja alþjóðaverkefninu lið með fjárframlagi. Leikarar úr Spider-Man myndinni The Amazing Spider-Man 2, verða í höfuðstöðvum WWF Earth Hour verkefnisins í Singapore, en Spider-Man er fyrsti ofurhetju sendiherra Earth Hour  verkefnisins. Hér að neðan er hlekkur inn á vefsíðu verkefnisins og inn á kynningarmyndband Jarðastundar 2014.

Vefsíða verkefnisins www.earthour.org

Myndband verkefnisins er HÉR