Guðrún Bergmann - haus
3. apríl 2014

Kunnum við að spara?

photo-3.jpgNokkur umræða hefur skapast um umhverfismál hér á landi síðustu daga vegna nýútkominnar skýrslu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál. Ljóst er að um dökka skýrslu er að ræða og þingmenn og ýmsir áhugamenn um náttúruvernd standa upp og ræða um mikilvægi þess að ríkisstjórnin geri eitthvað í málinu.

Eitt er að setja lög og reglur, annað er að fylgja þeim eftir. Eitt er að ríkisstjórnin ákveði eitthvað og annað hvort einstaklingar í samfélaginu fylgi þeim ákvörðunum eftir. Kannski eru einstaklingarnir mikilvægari en lögin og reglurnar. Það er alla vega mat þeirra sem reka t.d. umhverfisvottaða ferðaþjónustu, að mikilvægast sé að kenna starfsfólkinu hvernig það þarf að sinna störfum sínum á nýjan máta til að spara megi í rekstri meðal annars með minni notkun á vatni og rafmagni, sem svo sannarlega eru auðlindir sem þarf að virða hér á landi sem og annars staðar. Ef við spörum rafmagn þarf t.d. færri virkjanir. Og vatn er ekki óþrjótandi auðlind, sem kemur berlega í ljós ár eftir ár þegar vatnsskortur er að sumri til á stórum svæðum eins og Suðurlandi.

Spurningin er hvort við kunnum enn að spara. Eldri sonur minn, sem nú býr í Bandaríkjunum og hefur þurft að aðlaga sig dýru rafmagnsverði og takmörkuðu framboði af vatni, var nýlega í heimsókn hér á landi. Hann settist inn á veitingastað á bensínstöð með einum vina sinna meðan á heimsókninni stóð. Þeir sátu þar í um klukkustund að spjalli. Á meðan horfði sonur minn skelfingu lostinn á starfsmann bensínstöðvarinnar láta heitt vatn renna í meira en 40 mínútur á planið fyrir utan til að bræða ís. Fyrirtækið á bak við bensínstöðina er með umhverfisstefnu, á bensínstöðinni fæst sérstakt efni til að eyða ís - en starfsmaðurinn hafði greinilega ekki verið þjálfaður í að nota það. Hann greip bara til heita vatnsins.

Hversu oft grípum við til einhvers sem virkar auðvelt í stað þess að hugsa málið aðeins og spara? Ágætt er að velta því fyrir sér í GRÆNUM APRÍL og sjá hverju má breyta. Gamlar venjur opna nefnilega ekki nýjar dyr.

Facebook síða GRÆNS APRÍL