Guðrún Bergmann - haus
9. apríl 2014

Á grænu vaktinni

jockel-umhverfisvaent-taeki-isl.pngNú í GRÆNUM APRÍL er ég aðeins meira á grænu vaktinni en vanalega, þótt ég telji mig reyndar alltaf vera með augun opin fyrir því sem er grænt og umhverfisvænt. Ég er þegar komin með langan lista yfir ýmsar vörur sem ég hef rekist á hér og þar, sem mér finnst frábærar og merkilegar og vil deila upplýsingum um, en ég byrja á þremur í þetta sinn, sem allar geta bætt líf okkar og umhverfi.

Merkilegast finnst mér að til sé umhverfisvænt léttvatnsslökkvitæki. Nýja tækið frá Jockel inniheldur til dæmis hvorki perflúoroktansýru (PFOA) né perflúoroktýlsúlfónat (PFOS), en þessi efni brotna illa niður í náttúrunni og eru í flestum hefðbundnum léttvatnstækjum. Í framleiðsluferli tækisins er líka lögð áhersla á orkusparnað, auk þess sem notuð eru C6 lífræn vetniskolefni í léttvatnsformúluna í stað tilbúnu efnanna PFT og polyFT.

Bambus eða bambustrefjar hafa rutt sér til rúms bæði í fataframleiðslu og eins í framleiðslu ýmissa hluta eins og til dæmis tannbursta. Bambustannburstar eru mjúkir og fara vel með tennurnar og þegar þeir enda lífdaga sína brotna þeir niður í náttúrunni gagnstætt plasttannburstunum sem eiga eilíft líf. Ef við hugsum grænt og umhverfisvænt ætti bambusburstinn því að verða fyrir valinu.

Snyrtivörumerkið Lavera er nýbúið að setja á markað endurbætta línu í hárvörum og hefur ýmislegt nýtt bæst í hana. Má þar meðal annars nefna Repair and Care hárnæringu sem sett er í rakt eða þurrt hár og látin vera í. Á litlum miða á umbúðunum stendur að efnið sé án silíkóns. Ég hafði ekki gert mér gein fyrir að slíkt efni væri almennt í hárvörum. Það besta er þó að Lavera vörurnar virka vel og eru bæði góðar fyrir líkamann og umhverfið.

Og svo eru það neytendaupplýsingarnar. Umhverfisvæna léttvatnstækið má kaupa í BYKO. Bambustannburstar fást á www.bambus.is og í heilsuvöruverslunum. Lavara snyrtivörur er að finna í heilsuvöruverslunum, lyfjabúðum og snyrtivöruverslunum.