Guðrún Bergmann - haus
28. apríl 2014

Rafmagn má spara um 50%

image001.pngÍ mörg ár hef ég hamrað á mikilvægi þess að spara rafmagn í pistlum, greinum, fyrirlestrum og í bók minni KONUR GETA BREYTT HEIMINUM með grænni lífsstíl. Eftir að bókin kom út tók ein vinkona mín sig til og ákvað að fylgja ráðum hennar út í ystu æsar. Hún tók málin skrefi lengra en ég og les mánaðarlega sjálf af rafmagnsmælinum sínum, hringir inn tölurnar og borgar að meðaltali 40-50% minna í rafmagn en íbúar í samsvarandi íbúðarstærð á höfuðborgarsvæðinu gera.

Máltækið segir: "Græddur er geymdur eyrir!" og það á reyndar líka við um þann sem ekki er eytt. Vinkona mín segist njóta þess að nota þá peninga sem ekki fara í rafmagn til að fara í leikhús eða á kaffihús - en hvað gerir hún til að spara rafmagnið hjá sér?

1.     Hún slekkur alltaf á tölvunni þegar hún er ekki í notkun.

2.     Hún tekur sjónvarpið og myndlykilinn úr sambandi þegar hún er ekki að horfa á sjónvarp.

3.     Hún tekur þvottavél og þurrkara úr sambandi þegar þessi tæki eru ekki í notkun, svo og örbylgjuofn, kaffivél, brauðrist og hraðsuðuketil.

4.     Hún tekur alla lampa úr sambandi þegar hún er ekki með kveikt á þeim - og yfir sumartímann sleppur hún alveg við að setja þá í samband á kvöldin því það er svo bjart úti.

5.     Hún tekur öll hleðslutæki úr sambandi um leið og raftæki eða sími hefur verið hlaðinn. Ágætt er að benda á hér að margir hlaða símana sína á nóttunni, en það tekur yfirleitt ekki meira en klukkustund að hlaða síma - og ef hann er í sambandi í 6-8 tíma tekur hann rafmagn inn sem ekki er þörf á í 5-7 tíma.

Vinkona mín er almennt bara meðvituð um að rafmagnsnotkun kostar peninga og hefur valið að eyða eins litlu í þann kostnaðarlið og mögulegt er. Á meðfylgjandi mynd er yfirlit yfir rafmagnsnotkun hennar frá 2011-2014. Notkun hækkar aðeins í kringum jólin og svo hefur hún upp á síðkastið verð að hjálpa syni sínum og tengdadóttur með því að þvo fyrir þau svona 3-6 vélar á viku af fatnaði af tvíburadætrunum þeirra og við það hefur eyðslan aukist aðeins.

Hún hefur sýnt að þetta er hægt og ef fleiri fara að hennar fordæmi  gætum við kannski sparað okkur eins og eina virkjun - og notað peningana til að gera eitthvað annað eins og að ferðast, fara út að borða, á kaffihús, í bíó eða leikhús.

Þórdís Guðrún er gott fordæmi í GRÆNUM APRÍL.