Guðrún Bergmann - haus
7. júlí 2014

Sólin breytir öllu

Við höfum ekki séð mikið af henni í sumar, en þegar hún loks birtist hér á Reykjavíkursvæðinu eins og hún gerði í dag er eins og allt mannlífið lifni við. Fólk flykkist út á kaffi- og veitingahús eða borðar nestið sitt utandyra, búið að rífa sig úr peysum og jökkum til að ná nú smá D-vítamíni út úr þeim fáu geislum sem hella sér yfir okkur.

Leikskólabörnin geta hent af sér úlpunum sem þau eru búin að vera í allt of lengi og flengst um leikvellina af meiri móð og krafti en þau gera í rigningunni og rokinu. Í görðum við fjölbýlishús róla börnin sér langt fram á kvöld eða leika úti. Hjólandi og gangandi fólk er úti um allt - og þeir sem eiga garða nota tækifærið til að slá löngu ofsprottið gras loks þegar þornar.

Lífið er betra í sólinni, en þó er líka hægt að fá of mikið af henni. Vinnu minnar vegna var ég í rúman mánuð á Tenerife í vor og síðan nánast í beinu framhaldi af því í tæpar þrjár vikur í Marmaris í Tyrklandi. Veðrið var frábært og segja má að það hafi verið sól nánast allan tímann og undir lok dvalar minnar í Marmaris var hitinn orðinn 35-40°. Þá hugsaði ég gleði til þess að vera á leið til Íslands í dálítið rok og rigningu, þótt það hafi í raun verið mun meira af slíku en ég hafði gert ráð fyrir.

Það er gott að hafa ákveðið jafnvægi í veðrinu, þótt slíkt virðist ekki vera mikið í boði þessa dagana og yfir sumartímann aðeins meira af sól en roki og rigningu.