Guðrún Bergmann - haus
15. júlí 2014

Skin og skúrir

img_5031_1241043.jpgÉg var á sunnanverðum Vestfjörðum nokkra síðustu daga í heimsókn hjá vinum og vandamönnum. Ég elska að ferðast innanlands og í hvert sinn sem ég sest inn í bíl til að keyra út úr bænum ómar í huga mér lagið hans Willie Nelson "On the Road Again...", sem í mörg ár var nokkurs konar ferðalag fjölskyldunnar.

Þar sem ég bjó úti á landi í rúm fimmtán ár, þekki ég muninn á sumar- og vetrarumferð og þá er ég ekki bara að tala um hálku. Yfir sumartímann felast helstu hraðahindranirnar í lömbum og kindum á vegunum og svo bílum sem eru með skuldahalana í eftirdragi, það er að segja fellihýsi eða hjólhýsi og svo húsbílar. Ég lenti á eftir einum með fellihýsi í eftirdragi á Klettshálsi í 18 metrum á sekúndu. Hann ók löturhægt á miðjum vegi, þar til við mættum bíl sem hann varð auðvitað að víkja fyrir. Þetta var í beygju og því tók bílstjórinn eftir mér fyrir aftan sig, en það hafði  hann ekki gert áður, þar sem hliðarspeglar náðu ekki útfyrir fellihýsið. Ég komst framúr þakklát fyrir að ekki skyldi skella vindhviða á fellihýsinu rétt á meðan og velta því yfir minn bíl .

Í fyrradag var safnadagurinn og ég fór að Hjóti í Örlygshöfn meðal annars í fylgd tveggja afkomenda björgunarmannanna, sem unnu á sínum tíma þrekvirki við björgun breskra sjómanna við Látrabjarg. Fyrir nokkrum árum var ég þarna á ferð með bandarískri vinkonu minni. Við horfðum á heimildarmyndina um björgunarafrekið og við lok hennar átti hún ekki orð yfir því að allir þessir menn hefðu hætt lífi sínu til að bjarga mönnum sem þeir þekktu ekki neitt.

Á heimleið í dag skiptust svo sannarlega á skin og skúrir, jafnvel hvorttveggja í einu, því stundum skein sól um leið og rigndi. Á heiðum lá þokan yfir,en þegar komið var niður í firðina blasti við sú ægifegurð sem einkennir Barðaströndina. Þar hefur vegakerfið heldur betur batnað á síðari árum og viða er unnið á fullu að frekari endurbótum, eins og þverun Kjálkafjarðar.

Ég hlustaði ýmist á Bylgjuna eða Rás 2, eftir því hvor stöðin náðist betur, því þrátt fyrir ýmsar yfirlýsingar nást þessar stöðvar ekki alls staðar á leiðinni. Bílinn þvoði tvisvar á heimleið, annars vegar í Búðardal því þá var ég hætt að sjá út um afturrúðuna fyrir drullu. Í hitt skiptið í Mosfellsbæ, bæði til að ná af honum nýjum óhreinindum og eins til að þvo helgidagana sem ég hafði skilið eftir við fyrri þvott. Orð föður míns: "Þú átt alltaf að þurrka bílinn eftir þvott," ómuðu í huga mér þegar ég ók heim á leið á blautum bílnum.

Mynd: Minnismerki um afrek björgunarmanna við Látrabjarg sem stendur við Hnjót.