Guðrún Bergmann - haus
24. júlí 2014

Bit, kláði og bólgur

Þótt sólin hafi ekki hellt geislum sínum í miklu mæli yfir höfuðborgina hefur fólk víða um land og í sólarfríum erlendis væntanlega notið hennar. En sól og sumri fylgja oft skordýrabit og þótt hægt sé að bera á sig krem eða vökva, sem eiga að halda þeim í burtu, eru þau oft full af innihaldsefnum sem eru ekki sérlega góð fyrir líkamann. Flestum hefur reynst vel að taka inn B-vítamín til að halda skordýrum sem skilja eftir bit í fjarlægð. Dugi það ekki, eru til margar náttúrulegar leiðir til að takast á við bitin og bólgurnar og kláðann sem oft fylgir.

Ilmkjarnaolíur eins og tea tree, lavender og kókosolía búa allar yfir eiginleikum sem draga úr kláða, sársauka og bólgum. Tea tree olían býr líka yfir sótthreinsandi eiginleikum, en þeir geta komið í veg fyrir sýkingar ef fólk klórar sig til blóðs.

Villimeyjar-kremin eru unnin úr íslenskum jurtum. Eitt þeirra, Vöðva- og liða Galdur er sérlega gott á skordýrabit og dregur ótrúlega fljótt úr kláða. Sára-Galdurinn er hins vegar frábær á sólbruna og hvers kyns skeinur sem börn eða fullorðnir kunna að fá.

Hunang hefur bólgueyðandi eiginleika og dregur úr kláða, svo það má bera á bit, ef þér er sama um svolítið klístur.

Sítrónu- eða límónusafi getur dregið verulega úr kláða og hefur einnig bakteríudrepandi áhrif. Gættu þess samt að ef þú berð safana á húðina, máttu alls ekki láta sól skína á hana, því það getur valdið sólbruna.

Tannkrem, því í flestum tegundum tannkrema er eitthvað af mintu eða piparmintu og mentólefnin virka kælandi á húðina. Heilinn nemur þá tilfinningu fyrr en kláðatilfinninguna. Herpandi áhrif tannkremsins draga líka úr bólgum.

Kaldir tepokar draga vökvann út úr bitum og draga úr kláða og bólgum. Það má líka leggja einn ísmola á bit, því hann þrengir að blóðflæðinu og dregur úr kláða.

Edik eða eplaedik hefur lengi verið notað á bit og bruna í suðrænum löndum. Setja má smá á hvert bit. Ef um mörg bit er að ræða má setja tvo eða þrjá bolla af því út í baðvatn og liggja í því 10-15 mínútur.

Heimildir: Women's Health og Villimey