Guðrún Bergmann - haus
10. október 2014

Nánast hálfnuð

Fyrsta sem ég mundi eftir þegar ég vaknaði í morgun var að á þessum degi árið 2001, nákvæmlega kl. 10:00 fyrir hádegi opnaði sonur minn Guðjón jógastúdíóið sitt. Við foreldrar hans vorum að sjálfsögðu viðstödd. Skömmu síðar setti ég jógadiskinn hans í spilarann og gerði æfingar með honum, eins og ég geri reglulega þrátt fyrir fjarlægðina á milli okkar.

Síðar um morguninn uppgötvaði ég svo að ég er með óþol fyrir kókosolíu. Ég matreiddi bæði í gær og í fyrradag rétt með kókosolíu, sem var mjög bragðgóður. Síðar hluta dags báða dagana fékk ég hins vegar verk neðst við rifbeinin, þar sem lifur og gallblaðra eru og leið frekar illa í nokkra tíma. Í dag hef ég ekki notað kókosolíu og líður bara ljómandi vel. Máli mínu til stuðnings fletti ég upp í bókunum um Blóðflokkamataræðið, sem hafa gjarnan verið leiðarljós mitt í matarmálum allt frá því þær komu út - og viti menn, þar stóð að A-blóðflokkur ætti að forðast kókosolíu. Stefnan er að fylgja því héðan í frá.

Annars gengur afeitrunarferlið vel. Ég hef verið að glugga meira í CLEAN bókina eftir Dr. Alejandro Junger og sé í umsögnum fólks af reynslu þess að margir hafa verið lengur en 21 dag á HREIN detox-kúrnum, sem er spennandi. Ég met það þegar þar að kemur hvort ég held áfram í kúrnum eða fylgi bara því mataræði sem hann ráðleggur að kúr loknum. Mér finnst svo dásamlegt að finna hvernig líkaminn er að gera við og endurnýja sig á þessu fæði. Ég sé það á húð og hári og finn það á líðaninni í líkamanum. Það besta er að það er svo auðvelt að fylgja honum.