Guðrún Bergmann - haus
12. október 2014

Viðgerð vinstri, hægri

na_769_lastungutaekni.jpgÉg hef í gegnum tíðina prófað ótal matarkúra og farið lengst í fjórtán daga vökvaföstu og leið þá svo vel að ég vildi helst ekki fara að borða aftur. Nokkrum sinnum hef ég farið í lifrarhreinsun og svo ýmsa minniháttar kúra. HREIN detox-kúrinn toppar þetta allt, bæði hvað varðar virkni og eins hversu auðveldur hann er. Ég læri nýja rétti á hverjum degi og stundum þegar ég læt uppskrift af einum og einum fylgja með í pistlunum mínum tekur einhver sem les sig til og eldar eftir henni - sem er líka skemmtilegt.

Nú þegar tólfti dagurinn er að kveldi kominn og ég horfi á rauðlitað tunglið vaða í skýjum held ég, frekar en mengun, er flott að gera smá úttekt. Það er svo gaman að finna hvernig viðgerðarferli líkamans á sér stað. Fyrst var eins og gert væri einungis við vinstri hliðina. Svo þegar viðgerð þar var lokið, fór allt að gerast hægra megin í líkamanum. Um svipað leyti fór ég að fá óþol hér og þar í hand- og fótleggi, aðallega þar sem ég veit að orkurásir líkamans liggja. Ég dró því fram bókina mína NÁLASTUNGUTÆKNI eftir Marinó heitinn Ólafsson, sem ég hef varðveitt dyggilega þrátt fyrir ótal flutninga og meiriháttar gjafir úr bókasafni mínu.

Þar komst ég meðal annars að raun um að hálsrígurinn sem ég vaknaði með einn morguninn getur stafað af því að ójafnvægi sé í "stjórnrás yang", sem stýrir flæðinu í öllum yang rásum líkamans. Ég nuddaði punkta hér og þar á rásinni, meira af handhófi en beinni kunnáttu, og daginn eftir var hálsrígurinn horfinn. Þríhitarásin er svo ein af þeim orkurásum sem verið hefur í ójafnvægi hjá mér ótrúlega lengi. Einkennin eru bjúgur (var með hann en ekki lengur), þaninn og kaldur kviður (nuddarinn minn talaði um að kviðsvæðið væri kalt síðast þegar ég var hjá henni), kulvísi, hálssærindi o.fl., svo auðvitað nuddaði ég eins marga punkta á þeirri rás og ég gat. Verð samt væntanlega að halda því eitthvað áfram til að ná viðvarandi árangri.

Slímlosun hefur verið mikil og ég velti stundum fyrir mér hversu mikið af slími ennis- og kinnholurnar geta geymt. Það virðist alla vega vera heill slatti miðað við hversu mikið ég hef þurft að snýta mér undanfarna daga. Og áfram heldur ferlið...