Guðrún Bergmann - haus
15. október 2014

HREIN kemur út á íslensku

clean-book-cover.pngÉg átti í dag fund með Hildi Hermóðsdóttur hjá bókaforlaginu Sölku, sem er nýkomin heim af Bókamessunni í Frankfurt. Hún sagði mér að hún væri búin að fá útgáfuréttinn á HREIN og stefndi á að koma bókinni út á íslensku í janúar, en það þykja mér afar spennandi fréttir. Jafnframt spurði hún hvort ég myndi geta tekið að mér að þýða bókina, þar sem ég væri greinilega búin að pæla mikið í henni. Ég sé nú ekki að ég hafi tíma til að sjá ein um það verk, svo líklega verðum við tvær sem skiptum því á milli okkar. Nú þarf ég sem sagt að bretta upp ermum og byrja að þýða eftir einhverju skipulagi, ekki bara það sem mér dettur í hug hverju sinni.

Líkaminn heldur áfram að vinna sína viðgerðarvinnu. Í gær fékk ég skyndilega sáran verk í hluta af bæði gall- og lifrarrás. Því viðgerðarferli fylgdi vottur af höfuðverk þegar ég vaknaði í morgun. Nú síðdegis fann ég að ég var komin með vægan hita, sem Hallgrímur Magnússon læknir segir alltaf að sé gott merki. Þá sé líkaminn að "bræða" eitthvað upp sem hann vill losa sig við. Treysti því að svo sé og tek því rólega.

Ég fór í ristilskolun í dag. Alejandro Junger höfundur HREIN ráðleggur hana sem stuðning við afeitrunarferlið, til að hjálpa líkamanum til að losa sig við sem mest af uppsöfnuðum úrgangi. Þarmalosunin hefur verið fín hjá mér, en þegar þarmarnir fara að tæmast í svona ferli er gott að veita þeim aukahjálp. Junger ráðleggur líka að fólk noti innfrarauða saunu til að auka útskilun í gegnum húðina, því hún er auðvitað stærsta líffæri líkamans. Hef hingað til látið húðburstun duga, en þarf að koma mér í infrarauða saunu næstu daga.