Guðrún Bergmann - haus
19. október 2014

Ekki á morgun, heldur hinn

fd_1.jpgSamkvæmt upprunalegri áætlun minni ætti síðasti dagur á HREIN detox-kúrnum hjá mér að vera ekki á morgun, heldur hinn. Ég er nú samt enn að meta hvort ég haldi ekki bara áfram í tíu daga enn eða til loka mánaðarins. Hugsa það næstu 48 tíma.

Í millitíðinni ætla ég að segja ykkur frá því hvað gerist í lok HREIN detox-kúrsins. Þá ráðleggur hjartalæknirinn Alejandro Junger manni að taka sjö daga og nota þá til að prófa hvort maður hafi óþol fyrir ákveðnum fæðutegundum og byrjar á að nefna glúten og mjólkurvörur. Á fyrsta og öðrum degi eftir að HREIN detox-kúrnum lýkur héldi maður sig áfram við mataræðið að mestu leyti, en bætti inn smá glúteni. Ég veit reyndar að ég er með óþol fyrir glúteni, enda engin furða eftir áralangt ástarsamband mitt við brauð af öllum tegundum og gerðum. Hins vegar er athyglisvert að vita hvaða einkennum má búast við ef um óþol er að ræða, en það eru þreyta, uppþemba og höfuðverkur Sé til dæmis borðað pasta í kvöldverð verður maður oft þreyttur strax á eftir eða vaknar þreyttur næsta morgun. Glútenóþol getur líka leitt til hægðatregðu, svefntruflana og pirrings.

Eftir tvo daga af tilraunum með glúten fylgir maður svo alveg HREIN mataræðinu í tvo daga og kannar svo í tvo daga hvort maður sé með óþol fyrir mjólkurvörum. Ég veit ég er með það, svo ég þarf ekki að prófa, en hins vegar finnst mér þau einkenni sem sýna að svo sé vera athyglisverð. Ef maður er með óþol fyrir mjólkurvörum getur maður fengið nefrennsli fljótlega eftir neyslu þeirra eða þá mikið slím í kokið eða hálsinn. Þreytueinkenni fylgja líka mjólkuróþoli svo og heilaþoka, svo nokkur atriði séu nefnd. Stundum hef ég freistast til að fá mér hreina jógúrt, þar sem hún er ráðlögð fyrir mig (A-blóðflokk) samkvæmt blóðflokkamataræðinu, en fæ strax slím í hálsinn. Hvað með þig?