Guðrún Bergmann - haus
24. október 2014

Tími fyrir heilsuna

Ég er vön finnskri saunu og hafði slíkan saunaklefa heima hjá mér í mörg ár. Sá infrarauði er aðeins öðruvísi, en ég hef tekið hann með trompi þrjá undanfarna daga og mætt í Lindina (spaið á Grand Hótel) daglega og svitnað duglega. Ég byrja vanalega á því að þurrbursta húðina, fer svo í baðfötin (nokkuð hrein enn eftir sturtuna heima um morguninn) og síðan beint í klefann, því maður verður að fara inn með húðina þurra svo meðferðin virki. Sit svo og svitna í 30 mínútur í einu, stundum lengur ef klefinn er ekki að fullu heitur þegar ég fer inn. Bíð spennt eftir að fylgjast með árangri af þessu, en finn strax hversu gott þetta er fyrir húðina.

Ráðlagði tveimur konum sem ég hitti í spainu í dag þessa aðferð, en þær sögðust  ekki að hafa tíma til að sitja svona lengi. Kannski engin þörf hjá þeim, en eftir að ég skildi við þær rifjuðust upp spakmæli sem Hallgrímur Magnússon læknir var alltaf með á læknastofunni sinni: "Ef þú hefur ekki tíma fyrir heilsuna í dag, hefurðu ekki heilsu fyrir tímann á morgun."

Annars gengur HREIN detox-kúrinn vel og enginn leiði í mér þótt ég sé kominn á fjórðu viku. Ég er mjög sátt við mataræðið og geri ráð fyrir að ég eigi áfram eftir að elda mikið af þessum uppskriftum þegar kúrnum lýkur. Í uppáhaldi er Mangó-kjúklingur með villtum hrísgrjónum en margir aðrir réttir eru ofarlega á blaði. Ég eldaði Mangó-kjúklinginn í gær og tók með mér í saumaklúbb. Engin ástæða til að detta úr prógramminu, þótt maður hitti vinkonurnar.

Hef verið að taka mjólkurþistil (Milk Thistle) til að styrkja lifrina samhliða afeitruninni, því hún er jú ein stærsta afeiturnarverksmiðja líkamans, en ætla næstu 2-3 vikurnar að taka nýja blöndu frá TERRANOVA sem byggð er meðal annars á jurtaefnum úr fíflarót og þistilhjörtum, en þessar jurtir eiga að hafa góð áhrif á lifrina.