Guðrún Bergmann - haus
27. október 2014

Vatnið gleymdist

903467_454357747980149_1322159533_o_1248488.jpgÉg gleymdi að taka með mér vatnsflösku þegar ég var að flakka á milli funda og verslana síðdegis sem leiddi til þess að ég var gersamlega að skrælna af vatnsskorti um sexleytið. Þegar bæði er verið að borða sérstakt fæði og taka bætiefni og jurtablöndur sem eiga að afeitra líkamann, er fátt mikilvægara en að hjálpa líkamanum að skola því út með því að drekka nóg af vatni. Tveir til þrír lítrar á dag er eiginlega lágmark.

Annars er gaman að velta fyrir sér hvernig hægt er að sjá eða nema að líkaminn sé í þörf fyrir afeitrun. Hallgrímur Magnússon læknir sagði mér fyrir margt löngu að merkja mætti á nöglunum hversu hreinn líkaminn er. Ef holdið undir nöglunum er mjög rautt, þá er mikið af eiturefnum í honum, en rauði liturinn færist nær fingurgómunum eftir því sem líkaminn hreinsast. Eins og nærri má geta er ég alltaf ónaglalökkuð þessa dagana til að fylgjast með þessu ferli. Rauða röndin er orðin mjó og alla vega 4/5 hlutar naglarinnar eru ljósir.

Svo má finna ýmis merki um að líkaminn þurfi á afeitrun og styrkingu ónæmikerfisins að halda, en þau eru meðal annars síendurtekið kvef og flensur, svo og súrar hægðir, sterk súr svitalykt, húðútbrot og fleira og fleira. Í andlitinu má oft sjá bólur, húðójöfnur og þurra bletti og önnur útbrot sem líka eru merki um að líkaminn sé orðinn ofhlaðinn alls konar efnum sem hann þarf að losna við svo frumur hans geti endurnýjað sig.

Á morgun hitti ég heimilislækninn minn og fæ að vita hvort blóðprufurnar sem teknar voru í síðustu viku sýni einhverjar breytingar - væntanlega til hins betra, en ég bíð spennt að sjá.

Myndina tók Vera Pálsdóttir ljósmyndari fyrir bókina UNG Á ÖLLUM ALDRI