Guðrún Bergmann - haus
31. október 2014

Á réttri leið - fyrir mig

Ég hef lært að búa til marga nýja rétti undanfarinn mánuð en nú fer 31. degi mínum í afeitrunarferlinu senn að ljúka. Fyrst voru það 24 dagar í HREIN detox-kúrnum og svo tóku við 7 dagar á mataræði þar sem ég borða svipað og í HREIN, 3 máltíðir á dag, en þarf að sleppa öllum ávöxtum nema eplum. Það hefur gengið vel og ég stefni á að halda áfram að vera á þessu mataræði í 30 daga í viðbót.

Eitt af því sem ég hef lært að gera er að hella safa úr hálfri límónu (meira ef það er stærri skammtur af grjónum) yfir soðin hrísgrjón og saxa svo annað hvort niður steinselju eða ferskt kóríander og blanda saman við grjónin. Þetta gefur grjónunum sérlega frískandi bragð. Með því að hita svo upp aduki baunir (fást niðursoðnar lífrænar frá Biona) er kominn frábær réttur, sem jafnar blóðsykurinn og er einstaklega hollur - og að auki fljótlegt að útbúa.

Í gær var ég í nuddtíma og nuddkonan mín var alveg undrandi yfir þeim breytingum sem hafa orðið á líkama mínum á þetta stuttum tíma og því hvað allir vöðvar eru mjúkir. Hnútar í axlarvöðvum eru nánast alveg horfnir og vöðvarnir í mjöðmunum hafa mýkst til muna, þótt enn sé einn og einn viðkvæmur blettur þar. Þegar hún nuddaði á mér kviðinn, eins og hún hefur oft áður gert, var gaman að fylgjast með undrunarsvipnum sem færðist yfir andlit hennar, því bólgur og eymsli í ristilinum eru nánast horfin nema á einum stað. Batinn er sem sagt á fullu um allan líkamann og því um að gera að halda bara áfram á sömu leið.