Guðrún Bergmann - haus
11. nóvember 2014

Rauða skrúfjárnið

Hliðarverkanirnar af HREIN detox-kúrnum láta enn á sér kræla þótt ég sé hætt á kúrnum sem slíkum og fylgi bara því mataræði sem ráðlagt er að honum loknum. Orkan og drifkrafturinn er slíkur að ég hef eiginlega tekið allt heimilið í gegn og fátt er orðið eftir á “bíða þar til seinna” listanum nema gömlu myndaalbúmin sem sitja í, að ég held, um sextán kössum í geymslunni í kjallaranum. Þau fá að bíða aðeins ennþá.

Ég hef hins vegar skrúfað saman stóla, borð og kommóður í gríð og erg síðustu vikur, sett upp myndir og ýmislegt annað og breytt og bætt ásýnd heimilins. Eiginlega hentar þetta mér mjög vel, því ég elska að breyta og bæta. Það var þó aðeins þreytandi að skrúfa allt saman, einkum og sér í lagi þar sem ég notaði að mestu handaflið, því öll mín smíðatæki og tól seldi ég með Hótel Hellnum. Tengdadóttir mín bjargaði mér þó þegar aðeins leið á framkvæmdaferlið með því að lána mér litla hleðsluvél sem ég gat notað til að skrúfa flest með. Þegar mér fannst handaflið virka betur dró ég fram rauða stjörnuskrúfjárnið. Það hefur fylgt mér frá því skömmu eftir að ég stofnaði mitt eigið heimili fyrir um 40 árum síðan, ekki vegna þess að ég fjárfesti í því sjálf, heldur vegna þess að einhver iðnaðarmaður sem hafði verið að vinna í íbúðinni sem ég flutti í skildi það eftir. Ég reyndi að koma því til skila, en tókst ekki, svo ég eignaði mér bara rauða stjörnuskrúfjárnið og á það enn.

Nú sit ég bara í spenningskasti og bíð eftir því að geta sett upp jólaskraut hjá mér og gert heimilið aðeins meira “huggó”. Það styttist í það, því ég skreyti alltaf allt fyrsta sunnudag í aðventu.