Guðrún Bergmann - haus
22. mars 2015

Skortur á vítamínum

Ég hef undanfarið bæði heyrt og lesið ýmsar umfjallanir um vítamín og bætiefni í fjölmiðlunum. Nokkuð virðist vera fjallað um að hinn venjulegi maður þurfi ekki að taka inn vítamín og bætiefni, því hann eigi að fá þetta allt úr matnum. Ýmsar rannsóknir hafa þó sýnt fram á að með notkun tilbúins áburðar hafi jarðvegur almennt rýrnað mjög og því skorti mörg steinefni í hann og að þeir sem eru grænmetisætur líði oft af skorti á B12 svo eitthvað sé nefnt. Mikið hefur verið fjallað um skort á D-vítamíni undanfarin ár, þegar loks var hægt að mæla magn þess í líkama fólks almennilega. Hann tengist bæði skorti á sólarljósi á dimmari hluta ársins og því að fólk notar sólarvörn sem gerir það að verkum að húðin getur ekki framleitt þetta nauðsynlega bætiefni. Hér eru nokkur dæmi um hvaða áhrif vítamín- og bætiefnaskortur getur haft á heilsuna.

Marga virðist skorta B-12 sem erfitt er að finna í fæðunni, en það vítamín er nauðsynlegt til myndunar á rauðum blóðfrumum, svo og til þess að taugavefir séu heilbrigðir og starfi rétt. Sé B12 vítamínskortur ekki meðhöndlaður getur það leitt til blóðleysis, svo og til skaða á taugum og heila, sem gæti orðið ólæknanlegur.

Rannsóknir bandaríkjamannsins Dr. Michael Holick sýna að skortur á D-vítamíni er mun algengari en menn hafa áður haldið, bæði meðal barna og fullorðinna. Einkenni um D-vítamínskort tengjast m.a. þunglyndi, þar sem serótónín framleiðsla (gleðihormón) eykst í sólarljósi og birtu. Beinverkir geta líka verið merki um D-vítamínskort, svo og höfuðsviti, jafnvel hjá nýfæddum börnum. Þar sem D-vítamín er fituuppleysanlegt efni, getur líkamsfita safnað því saman og þess vegna þurfa þeir sem eru yfir kjörþyngd meira D-vítamín en þeir sem grennri eru, svo og þeir sem eru með mikinn vöðvamassa.

Líkaminn getur ekki búið til C-vítamín, svo hann þarf að fá það í gegnum fæðuna. Það er nauðsynlegt fyrir heilbrigði og til viðgerðar á ýmsum líkamsvefjum, þar með talið húð, beinum, tönnum og brjóski. Viðvarandi skortur á C-vítamíni getur leitt til skyrbjúgs. Einkenni hans koma meðal annars fram í því að fólk fær auðveldlega mar, fyrirvaralausar blæðingar eða þjáist af liða- og vöðvaverkjum.

Líkamann getur auðvitað skort önnur vítamín og bætiefni, en ég tók þetta aðallega saman til að benda á að skortur á vítamínum og bætiefnum getur leitt til alvarlegra heilsufarsáhrifa.

Heimildir: Medical News TodayMercola.comPatient.co.uk -