Guðrún Bergmann - haus
28. mars 2015

Sykurlausir páskar

img_6400_1257125.jpgNú þegar allar verslanir eru fullar af páskaeggjum í öllum stærðum og gerðum eru margir sem fyllast löngun við sykurlyktina eina sem af þeim leggur, jafnvel þótt þeir vilji gjarnan vera sykurlausir. En áður en fallið er í freistni er allt í lagi að renna í gegnum þennan pistil og skoða að hægt er að lifa páskana af án páskaeggja. Sjálfri hefur mér tekist það í fjölda ára.

Konfektkúlur eða hrákaka
Ég nota sama deig til að gera konfektkúlur og ég nota til að gera hráköku. Þegar ég geri köku úr deiginu sleppi ég kakónibbunum. Að öðru leyti er uppskriftin eins.

2/3 bollar valhnetukjarnar, malaðir í matvinnsluvél
2/3 bollar pecanhnetukjarnar, malaðir í matvinnsluvél
½ bolli hreint kakó
2 matskeiðar af kakónibbum (raw cacao nibs)
1 bolli döðlur, brytja þær í 3-4 bita hverja, set í skál, helli sjóðandi vatni yfir og læt standa í svona 20 mínútur
¾ teskeið fínt himalaya-salt
2 ½ teskeið vanilludropar eða malað vanilluduft frá Sonnentor
2 kúfaðar teskeiðar af lífrænni kókosolíu
2 matskeiðar kókosnektar, sem er nýtt sætuefni á markaði með lágan sykurstuðul

Malið hnetukjarnana í smáum skömmtum og setjið í skál. Bætið kakói, kakónibbum og salti við. Setjið kókosolíu, vanilludropa og stevíu í skál og blandið létt saman. Sigtið vatnið af döðlunum og maukið þær í matvinnsluvél eða með töfrasprota. Bætið döðlum og kókosolíublöndunni út í þurrefnin og hnoðið vel saman. Mótið kúlur og veltið upp úr kókosmjöli, eða fletjið deigið út í kökuform, setjið í frysti. Takið svo kúlurnar eða kökuna út og njótið svo meðan aðrir maula á páskaeggjum.

Ef málsháttur er mikið mál um páskana, má fletta upp á þessum vef og velja sér einn.

Snakkið
Í leit minni að einhverju góðu til að hafa í boði sem ég var nýlega með, rakst ég á alveg frábært snakk í einni af heilsuvöruverlsunum borgarinnar. Þetta eru flögur (líkar kartöfluflögum) sem gerðar eru úr lífrænt ræktuðum rauðrófum og öðru grænmeti. Einu viðbættu efnin eru sólblómaolía og sjávarsalt. Frábær valkostur að mínu mati og mun betri fyrir heilsuna en til dæmis maísflögur, þar sem maís er talinn vera einn mesti bólguhvatinn í fæðunni okkar í dag.