Guðrún Bergmann - haus
13. mars 2016

Svangur, reiður, einmana, þreyttur

Það er magnað hvað þessar tilfinningar geta haft mikil áhrif á efnaval okkar. Ég segi efnaval, því sumir velja sukkfæði, aðrir sælgæti og enn aðrir velja áfengi, lyfseðilsskyld lyf eða eiturlyf. Allt efni, sem ætlað er að deyfa tilfinningarnar og búa til einhverja vellíðan, sem yfirleitt endist ekki nema skamman tíma – og þá hefst ferlið á ný. Eilífur vítahringur, sem þarf að rjúfa með einum eða öðrum hætti til að geta gert breytingar á eigin lífi.

Þegar valið er að gera breytingar, eitthvað sem tekur huggunarefnið í burtu, koma tilfinningarnar upp á yfirborðið og þá þarf að takast á við þær, svo og vanann, því vaninn er sterkur. Vani eins og að borða alltaf eitthvað meðan horft er á sjónvarpið. Í því felst smá blekking, því meðan þú ert að gera eitthvað annað um leið og þú borðar, fylgistu ekki með því sem þú ert að borða og fyrr en varir er snakkpokinn, súkkulaðipakkinn eða ostabakkinn tómur.

Efnin sem við notum í óhófi eru huggunarefni okkar. Þau veita okkur skammtíma vellíðan, en afleiðingar neyslunnar geta verið skelfilegar fyrir líkamann. Höfuðverkir, liðvekir, stirð liðamót, bakverkir, slím og stíflur í nefi og ennis- og kinnholum, auk skaðlegra áhrifa á líffæri líkamans. Á stuðningsnámskeiðum mínum við HREINT MATARÆÐI hef ég fylgst með fjölda fólks verða undrandi yfir þeim breytingum, sem geta orðið á líkamlegri líðan þeirra á jafn skömmum tíma og tveimur vikum, um leið og efnavalið breytist og verður hollara og betra fyrir líkama og sál og tekið er á vana og tilfinningum.