Heimasķša

Leišangursmenn

Dagbók

Greinar

Kort af leišinni

Śtbśnašur

Fjalliš

Gestabók

Bréf til
leišangursins

Żmsar tengingar
um Everest

Styrktarašilar

 
Gengu yfir djúpar sprungur Khumbu

Everest-fararnir eru búnir að koma upp öðrum búðum í 6.100 metra hæð. Áður þurftu þeir að fara yfir hrikalegan Khumbu-skriðjökulinn. Í honum eru sprungur sem eru allt að 10 metrar á breidd og margir tugir metra á dýpt.


„VIÐ lögðum af stað kl. 6 í morgun og var stefnan sett upp Khumbu-ísfallið og upp í búðir 2. Eftir um klukkutíma gang komum við að fyrstu sprungunum sem brúaðar voru með stigum. Við höfðum æft okkur áður í að skríða yfir stigana en ákváðum nú að karlmannlegra væri að reyna að labba yfir þá á mannbroddunum. Við vorum óöruggir yfir fyrstu stigana en eftir því sem stigunum fjölgaði batnaði tækni okkar og á endanum hægðu stigarnir lítið á okkur, þrátt fyrir að sumar sprungurnar væru margir tugir metra á dýpt og allt að þrír til fjórir stigar væru bundnir saman til að ná á milli sprungubarmanna. Leiðin var stórfengleg og þræðir hún fram og aftur um jökulinn og endar í um 25 m slútandi jökulstáli þar sem búið er koma fyrir löngum stiga svo hægt sé að komast upp."
Þetta er lýsing íslensku Everest-faranna á ferðinni yfir Khumbu-skriðjökulinn. „Ísfallið er enn stórkostlegra en við höfðum gert ráð fyrir. Veröldin þarna er mögnuð. Sprungurnar í jöklinum eru allt upp í 10 metra breiðar og algeng breidd er 5-8 metrar," sagði Björn Ólafsson, einn leiðangursmanna, í samtali við Morgunblaðið.
Björn sagði að ferðin upp hefði gengið vel. Hún hefði tekið rúmlega fjóra klukkutíma. Hann sagðist finna það að Íslendingarnir byggju yfir mikilli reynslu af göngu við þessar aðstæður því að aðrir leiðangursmenn hefðu verið að fara þessa ferð á 8-10 tímum.
Leiðangursmenn sendu stærstan hluta farangursins á undan sér til Nepal í fimm tunnum. Tafir urðu á tollafgreiðslu tunnanna og þær fóru því síðar af stað en þeir vonuðust eftir. Fyrstu tvær tunnurnar komu til þeirra í gær og þeir vonast eftir að hinar komi í dag. Poki með orkudufti í annarri tunnunni hafði sprungið og duft dreifst í bækur, fatnað, sólaráburð og fleira. Talsverður tími fór því í að þvo og hreinsa búnaðinn.
Í dag halda sherparnir, sem eru innfæddir aðstoðarmenn leiðangursmanna, trúarhátíð sem vestrænu fjallgöngumennirnir fylgjast með. „Það kemur munkur frá einu klaustri sherpanna og blessar allt og farið verður með bænir. Við tökum þátt í þessu og förum síðan upp í fjallið á föstudagsmorgun. Við reiknum með að sofa í öðrum búðum í þrjár nætur. Það ræðst af veðri og aðstæðum hvað við förum hátt í þessum áfanga. Það hefur snjóað talsvert í fjallinu að undanförnu, en við ætlum okkur að koma upp þriðju búðum í 6.500 metra hæð og förum svo aftur niður í grunnbúðir," sagði Björn.

Lífið í búðunum
Í pistli Everestfaranna, sem finna má á alnetinu į slóšinni http://www.mbl.is/everest fjalla þeir m.a. um lífið í grunnbúðunum.
„Nú er nokkuð um liðið síðan við komum hingað í grunnbúðir og lífið hér er að komast í fastar skorður. Hér eru grunnbúðir kallaðar Base Camp á öllum tungumálum, allt frá indónesísku og japönsku til norsku (og jafnvel íslensku í ógáti). Grunnbúðir eru staðsettar rétt neðan við Khumbu-ísfallið sem steypist úr Vesturdal á milli Everest og Nuptse 1.000 m niður og myndar þar Khumbu-skriðjökulinn sem nær 15-20 km niður eftir dalnum. Búðirnar standa því á jökli. Yfirborðið er óslétt og mikið um hæðir og lægðir en það sem setur fyrst og fremst svip á svæðið er grjótið, stórir og litlir steinar sem þekja búðasvæðið og gera það að verkum að engu er líkara en tjaldað sé í urð. Það er því mikil vinna að gera hér tjaldstæði, bæði þarf að ryðja burt grjóti og líka að höggva stalla í ísinn. Til þess dugir ekkert minna en haki og skófla. Það er mikið álag á lungun að reyna svo mikið á sig þegar aðlögunin er ekki fullkomin. Það er líka vita vonlaust að hreinsa tjaldstæðið alveg af grjóti og egghvassir smásteinar eiga það til að stingast í gegnum botninn á tjaldinu og sprengja loftdýnurnar okkar.
Við höfum verið að bæta aðstöðuna hér undanfarna daga. Hér var risið eldhústjald og lítið matar- og samkomutjald þegar við komum. Við settum svo upp svefntjöldin, sem eru öll tveggja manna vetrartjöld, í hólunum í kring. Hér er risið tjald með frumstæðri sturtu og kamartjald. Hreinlæti er mjög mikilvægt hér sem annars staðar. Það er mikilvægt vegna þess að menn mega helst ekki verða veikir hér. Bæði vegna þess að þá eiga menn minni möguleika á að komast upp og svo hitt að í yfir 5.000 m hæð er líkaminn mun lengur að ná sér eftir veikindi en við sjávarmál.

Góður matur
Við borðum þrisvar á dag, morgunverður er kl. 7-8, hádegisverður er kl. 12 og kvöldverður er kl. 18.30. Þessir tímar breytast fyrir þá sem eru að fara upp í fjall en þeir leggja af stað á tímabilinu 4-6. Maturinn er góður. Áður en evrópski maturinn fór að koma hingað í smáskömmtum, því hann lenti í tollavandræðum eins og dótið okkar, náðu snillingarnir í eldhústjaldinu samt að galdra fram frábæran mat úr fábreyttu hráefni. Núna er hins vegar allt til alls hér og varla til sú matartegund sem ekki er hægt að fá nema sælgæti sem ekki á fulltrúa hér. Mikilvægt er að drekka mikið, því mikill vökvi tapast við aukna öndun. Því eru hér alltaf sneisafullir brúsar af heitu tei, bæði hvítu og svörtu, heitt sítrónuvatn með sykri, orkusafi og kaffi.
Hér í búðunum er lítil rafstöð, sem notuð er til lýsingar og hleðslu á hinum ýmsu rafeindatækjum svo sem talstöðvum, símum og tölvum og öðrum búnaði sem þarf til að koma pistli af þessu tagi heim á Frón. Ekki má þar gleyma ferðahljómflutningstækjunum í matartjaldinu en það er sífellt umræðuefni hvaða diskur eigi að fara í þau næst. Reyndar komumst við að því eftir að við vorum búnir að steikja tvo straumbreyta að litla Hondan okkar sem ekki lætur mikið yfir sér framleiddi 370 V en ekki 220 V eins og lög gera ráð fyrir. Sem betur fer getum við snúið okkur að sólarorkunni.

Þægindin nauðsynleg
Menn undrast kannski hversu mikið er á sig lagt að hafa þægindin svona mikil. Á því eru tvær skýringar. Sú fyrri er að menn eru lengi að heiman og varla hægt að ætlast til að búið sé við frumstæðustu útileguskilyrði allan tímann. Hin skýringin og sú mikilvægari er að fjallgöngumennirnir leggja mikið á sig hér ofar í fjallinu og koma oft örmagna niður, lystarlitlir og hvíldarþurfi. Það tekur langan tíma að ná upp þreki aftur í þessari hæð og þá skiptir öllu máli að allar aðstæður og matur séu þannig að menn hressist fljótlega, bæði líkamlega og ekki síður andlega. Það er líka hætt við að ef ekki er hægt að hlakka til þess í kulda, roki og súrefnisleysi ofar í fjallinu að komast í eitthvað betra í grunnbúðum, að menn hreinlega gefist upp og fari heim.

Skjálfa í svefnpokunum
Veðrið hefur verið heldur leiðinlegt síðan við komum. Hér er oft bjart fram eftir morgni en svo fer að þykkna upp og svo snjóar gjarnan seinni partinn. Veturinn er ekki búinn, en vorið nálgast og þá vænkast okkar hagur. Hitastigið skríður ekki upp fyrir frostmarkið á daginn og fer niður í 15-20 stiga frost á nóttunni. Við erum því orðnir langeygir eftir fjallabúnaðinum okkar, vetrarsvefnpokunum, dúnúlpum og dúnbuxum. Þangað til það kemur látum við okkur hafa það að sofa í dúnsumarpokunum, sem gefnir eru upp fyrir 10 stiga frost. Það er ekkert annað en að skjálfa sér til hita.
Við förum snemma í háttinn, um 20 og vöknum kl. 7 nema þegar farið er upp í fjall. Þegar klifrarar eru hér í grunnbúðum líður dagurinn við lestur, stúss í kringum búnað og aðstöðu, skriftir og ófáir tímar fara í að horfa upp í ísfallið hér rétt fyrir ofan. Þar er mannskepnan lítil og öfluga sjónauka þarf til að eygja hvað þar er að gerast. Því miður sést hátindur Everest ekki héðan úr búðunum. Hann er hulinn sjónum af vesturöxl Everest sjálfs. Hér er hins vegar mjög gott útsýni yfir Nuptse, ísfallið eins og áður segir auk ótal annarra tinda hér í kring. Hér er líka fjölskrúðugt mannlíf, því hér á svæðinu eru a.m.k. 8 leiðangrar á Everest auk 2ja?3ja á Lhotse. Það væri auðvitað skemmtilegast að hafa fjallið alveg fyrir okkur en um það er ekki að ræða því hæsta fjall heims er takmark sem margir, bæði einstaklingar og þjóðir, hafa sett sér og því margir um hituna. En við hugsum ekki um það. Öll einbeitingin beinist að því að leysa þau verkefni og erfiðleika sem upp koma í okkar leiðangri og komast, ef guð og gæfan lofar, á toppinn."

 

Efst

 

© 1997 Morgunblašiš
Allur réttur įskilinn