Heimasíða

Leiðangursmenn

Dagbók

Greinar

Kort af leiðinni

Útbúnaður

Fjallið

Gestabók

Bréf til
leiðangursins

Ýmsar tengingar
um Everest

Styrktaraðilar

 
Veðrið getur gert
okkur skráveifu


Jonathan Tinker er Breti og rekur ásamt nokkrum félögum sínum fyrirtæki í London er annast leiðangursstjórn í fjallgöngum víða um heim. Hann stjórnar hópnum sem Björn Ólafsson, Einar K. Stefánsson og Hallgrímur Magnússon eru í þegar þeir reyna að klífa hæsta fjall heims, Everest. Kristján Jónsson ræddi við Tinker sem hefur tvisvar klifið Everest

TAKIST okkur ekki öllum að komast upp verða það auðvitað mikil vonbrigði en ég yrði ekki neitt sérstaklega undrandi, svo margt getur komið upp á. Það sem helst getur stöðvað okkur er annaðhvort slæmt veður eða óheppni af einhverju tagi," segir Tinker. Hann flutti fyrirlestur og sýndi skuggamyndir á nær 300 manna fundi í húsakynnum Ferðafélags Íslands fyrr á árinu en Tinker hefur klifið fjöll í Himalajafjöllum, Andesfjöllum og víðar. Á níunda áratugnum starfaði hann m.a. fyrir breska hjálparstofnun í Afganistan en þá börðust Rússar enn við uppreisnarmenn þar í landi.

 

Hvað er svona
skemmtilegt við
að klífa fjöll?

"Það er fjölmargt og mikilvægast er að njóta alls. Ég get nefnt útsýnið, auk þess er gaman að vinna með Sherpunum, sömu mönnum ár eftir ár. Það er ánægjulegt að vinna að verkefni í hóp þar sem menn líta á sig sem vini. Þetta skiptir máli vegna þess að allir geta orðið fyrir því að vera illa upplagðir, finnast að nú sé ekki mikið eftir af þrekinu, þá verður að ríkja gagnkvæmur skilningur.

Það er líka gaman að koma heim og finna hvaða áhrif ferðin hefur haft, hvernig viðhorf til lífsins og daglegra starfa breytast. Manni finnst að hversdagslegar þrætur á skrifstofunni skipti minna máli en áður."

­ Nú farast margir í fjallgöngum. Þeir sem ekki eru innvígðir spyrja stundum hvers vegna menn séu eiginlega að þessu . . ?

"Auðvitað en það veit enginn svarið fyrr en hann er búinn að prófa þetta! Um 2% þeirra sem klífa fjöll í Nepal farast en þess ber að geta að dauðaslys eru sjaldgæf í hópum þar sem atvinnumenn eru við stjórn.

"Hundleiðinlegasta fólk í heimi"
Ég man eftir ágætu svari sem kom fram í hugleiðingu hjá Jackie Stewart sem var frægur kappakstursmaður á áttunda áratugnum. Hann sagðist hafa legið andvaka eina nóttina og talið upp í huganum alla vinina sem höfðu dáið í kappakstursslysum, 40 eða 50 manns. Fólk hafði verið spyrja hann hvort þetta væri þess virði, hvort það væri ekki betra að lifa öruggara lífi. Niðurstaða hans var að fólk sem spyrði svona væri hundleiðinlegasta fólk í heimi!

Þetta fannst nú Stewart. Hvað sem því líður þá er það auðvitað ljóst að fjallaklifur er fyrst og fremst skemmtileg íþrótt þar sem menn taka vissa áhættu og útilokað að réttlæta það sem íþrótt þegar eitthvað slæmt gerist. Ég ætla ekki að reyna það en hver hefði fundið Ísland ef enginn hefði lagt upp í langferð yfir hafið?"

­ Hvers konar þjálfun er nauðsynleg?
"Þetta er þrátt fyrir allt nokkuð sem venjulegt fólk getur gert. Það verður hins vegar að vera vel á sig komið, hafa reynslu, þarf að vera heppið og svo frv. en alls ekki gætt neinum ofurmannlegum eiginleikum.Undirbúningurinn þarf að vera góður. Heilsan þarf að vera í grundvallaratriðum góð og huga þarf að öllu, láta skoða tennurnar og þess háttar en besti líkamlegi undirbúningurinn er auðvitað að stunda gönguferðir með bakpoka á fjallasvæðum og klífa fjöll.
 

Það er margt sem þarf að vera fyrir hendi en ákefðin er ekki minnsta málið. Fólk verður að hafa gaman af þessu og sennilega þarf líka vænan skammt af forvitni. Fjallgöngumenn langar til að vita hvað er handan við hornið.

Ferð á Everest er einnig þess eðlis að jafnvel þeir sem ekki klífa fjöll geta skilið hvað rekur okkur áfram, þetta er eina fjallið sem veitir þá innsýn. Allir geta reynt að ímynda sér hvernig það er að standa á hæsta tindi jarðar."

­ Hvernig leysið þið ýmsa jarðbundna erfiðleika í svona svaðilferðum, t.d. salernismálin?

"Góð spurning, þessu velta margir fyrir sér. Karlar hafa með sér þvagflösku, eins og notuð er á sjúkrahúsum, þá þurfa þeir ekki að fara út úr tjaldinu. Séu menn dálítið lagnir geta þeir pissað án þess að fara úr svefnpokanum. Konur geta fengið flöskur sem eru sérstaklega hannaðar fyrir þær. Þurfi fólk hins vegar að gera stórt er eina ráðið að flýta sér eins og framast er unnt, vera eins stutt utan tjaldsins og hægt er.

Við fikrum okkur smám saman upp fjallið til að venjast aðstæðum, súrefnisskortinum og kuldanum, förum aftur niður í tjaldbúðirnar til að hvíla okkur, síðan aftur upp og niður á ný. Þegar okkur finnst að menn séu reiðubúnir og veðrið leyfir förum við alla leið á tindinn, þetta er lengsta ferðin og mesta átakið. Súrefniskútana notuð við aðeins í þeirri ferð, þeir eru yfirleitt nauðsynlegir í 7.500 metra hæð og ofar. Við erum ekki lengur uppi á sjálfum tindinum en í mesta lagi klukkustund.

Það er ekki til neinn undirbúningur sem tryggir að allt gangi upp en það sem mestu skiptir er andlega hliðin, viljaþrekið.

Stjórn á sjálfelskunni
Ganga á Everest sýnir hvernig menn eru innréttaðir, bestu og verstu eiginleikarnir koma í ljós, það er engu hægt að leyna. Það er ekki gott að menn séu afbrýðisamir eða hafi ekki stjórn á sjálfselskunni. Jafnframt þessu koma góðir eiginleikar vel í ljós.

 

Menn verða að geta þolað mikil andleg og líkamleg áföll sem geta dunið yfir á tíu vikum. Þeir geta lent í því að vera veikir í nokkra daga, þeir geta farið að sakna ákaft konunnar, stundum líkar manni illa við einhvern í hópnum. Svona vanda verða menn að vera færir um að takast skynsamlega á við.

Orðfærið sem notað er í bækistöðvum er oft óheflað, sumir segja að þetta sé eins og að vera á ferðalagi með ruðningsliði en það gengur ekki að fólk taki hlutina of nærri sér. Það verður að kunna að slaka á við erfiðar aðstæður. Líklega er það grundvallaratriðið.

Ég hef kynnst mörgu merkilegu fólki í þessum leiðöngrum. Einn þeirra er Norman, Breti sem nú er á sextugsaldri og kleif fyrir nokkrum árum Cho Oyu þótt hann sé með gervifætur. Hann hefur ritað nokkrar bækur, er vel þekktur í Bretlandi og hefur góðar tekjur af fyrirlestrahaldi. Hann er geysilega sterkur maður en þjáist oft af verkjum í fótastúfunum. Viljaþrek hans er með fádæmum. Norman á erfitt með að klífa sumar tegundir af ís og snjó, samt er það ekki svo að hann þurfi aðstoð við að klífa. Hann er mjög snjall."

­ Nú getur verið erfitt að meta hvort aðstæður séu þannig að hægt sé að fara alla leið upp. Tekur þú ákvörðunina?

"Ég tek ákvörðunina en best er að ræða við alla og spyrja þá álits, einnig Sherpana, sem eru mjög snjallir í að meta veðurfarið, og taka síðan ákvörðun. Ég get fengið upplýsingar um gervihnött um veðrið en það er margt í þeim efnum sem byggist á staðháttaþekkingu. Í síðasta leiðangri vorum við heppnir, þá voru fimm dagar svo góðir að hægt var að fara alla leið upp."  

­ Eru væntingarnar of miklar hér?
"Veðrið er óútreiknanlegt og getur gert okkur skráveifu en Björn, Einar og Hallgrímur hafa nú þegar klifið mjög hátt fjall og allt gekk vandræðalaust, það hefur aukið sjálfstraustið hjá þeim. Þeir jafnast á við þá bestu sem ég hef gengið með. Everest er ekki nema rúmum 600 metrum hærra en Cho Oyu og þeir vita að þeir geta þetta, þess vegna hafa þeir miklu meiri möguleika en ella."

Efst

 

© 1997 Morgunblaðið
Allur réttur áskilinn