Súkkulaðibylting
Nýja kakóbaunin og bleika rúbínsúkkulaðið sem úr henni fæst. Nói-Siríus

Súkkulaðibylting

Súkkulaði er einn af þessum hlutum sem langflestir tengja við vellíðan og hingað til hefur verið nokkuð ljóst hvað átt er við með súkkulaði. Það er til dökkt, með háu kakóinnihaldi, ljóst með meiri mjólk og minna kakói og hvítt með engu kakói. Allar tegundir henta einhverjum, og öll eigum við okkar uppáhalds. Þetta er þó allt saman að breytast því fjórða tegundin af súkkulaði er á leiðinni á markaðinn, og við héldum í rannsóknarleiðangur í súkkulaðiverksmiðju til að kanna málið.

Nýja kakóbaunin og bleika rúbínsúkkulaðið sem úr henni fæst.
Nýja kakóbaunin og bleika rúbínsúkkulaðið sem úr henni fæst. Nói-Siríus

Súkkulaði er einn af þessum hlutum sem langflestir tengja við vellíðan og hingað til hefur verið nokkuð ljóst hvað átt er við með súkkulaði. Það er til dökkt, með háu kakóinnihaldi, ljóst með meiri mjólk og minna kakói og hvítt með engu kakói. Allar tegundir henta einhverjum, og öll eigum við okkar uppáhalds. Þetta er þó allt saman að breytast því fjórða tegundin af súkkulaði er á leiðinni á markaðinn, og við héldum í rannsóknarleiðangur í súkkulaðiverksmiðju til að kanna málið.

Það er afskaplega erfitt að heimsækja súkkulaðiverksmiðju ef maður er óforbetranlegur nammigrís, en suma daga þarf maður bara að láta sig hafa það. Ilmurinn sem myndast við súkkulaðiframleiðslu tekur á móti okkur í anddyrinu og hellingur af fallegum minningum, tengdum akkúrat þessari sömu lykt, hellist yfir mig.

Þessi súkkulaðiverksmiðja heitir Nói-Síríus og er íslenskari en flest annað. Ef það er eitthvað sem hinn týpíski Íslendingur gerir á ári hverju, þá er það kaup á súkkulaðitengdum vörum á borð við páskaegg og jólakonfekt. Þessir litlu og sakleysislegu hlutir eru þó langt því frá léttvægir hjá landsmönnum og menn taka Nóa-konfektið sitt grafalvarlega.

Sem dæmi um slíkt má nefna að fyrir nokkrum árum var kynntur nýr konfektmoli í laginu eins og Ísland og var hann kallaður Íslandsmolinn. Fyllingin var salt-karamella og mikil ánægja var með molann. Engu að síður, sökum plássleysis í konfektkössum, þurfti eðli málsins samkvæmt að fjarlægja einn eldri mola til að Íslandsmolinn kæmist að. Og fyrirspurnunum rigndi yfir Silju Mist Sigurkarlsdóttur, markaðsstjóra og vöruþróunarstjóra hjá Nóa Síríus, segir hún mér hlæjandi. Þær voru allar sama efnis: Hvaða moli var eiginlega fjarlægður? Fólk saknaði einhvers, en vissi bara alls ekki hvers. Sumir voru þó sannfærðir um að uppáhaldsmolinn þeirra hefði verið tekinn út fyrir Íslandsmolann, en mundu bara ekki hvaða moli það var!

Silja Mist Sigurkarlsdóttir, markaðsstjóri Nóa-Síríus.
Silja Mist Sigurkarlsdóttir, markaðsstjóri Nóa-Síríus. Kristinn Magnússon

Silja Mist skilur þó ósköp vel hvernig landinn hugsar, þegar kemur að jafn sterkum hefðum og þeim sem hafa myndast í kringum súkkulaði, enda er vörumerkið Síríus 85 ára í ár en fyrirtækið sjálft verður hins vegar 100 ára árið 2020. Á þessum tíma hefur næstum allt breyst sem breytast getur en ást Íslendinga á súkkulaði er enn til staðar, og sterkari en nokkru sinni fyrr ef marka má sölutölur síðustu ára. Silja vinnur 11-14 mánuði fram í tímann og hefur því nýlokið undirbúningi fyrir páskana 2019 og er byrjuð á jólunum 2019, og þetta þarf hún allt að gera meðfram hinu risastóra ári sem fyrirtækið er að eiga árið 2018.

Vörumerkið „Síríus“ fagnar stórafmæli í ár, en súkkulaðið er eitthvað sem öll heimili kaupa til að hafa með í bakstur, dekur eða með í ferðalagið, en það er þó ekki, þótt ótrúlegt megi virðast, stærsti viðburður fyrirtækisins í ár. Á markaðinn er komin ný kakóbaun og er Nói-Síríus fyrsta framleiðslufyrirtækið sem fær að vinna með hana á Íslandi, og þriðja framleiðslufyrirtækið í heiminum.

Aðrir framleiðendur fá ekki að vinna með kakóbaunina fyrr en árið 2019 og það má því segja að þetta sé um nokkurs konar frumkvöðlastarf að ræða. Og kakóbaunin? Jú, hún er bleik, og súkkulaðið sem úr henni vinnst hefur fengið nafnið Rúbín. Núna er því hægt að vinna fjórar tegundir af súkkulaði: Mjólkur, hvítt, dökkt og Rúbín.

Fyrstu tveir framleiðendurnir eru breskt fyrirtæki sem er að senda frá sér sína vöru í sumar og svo Nestlé, sem meðal annars sér um framleiðslu á Kit-Kat-súkkulaðinu og það var einmitt fyrsta vara sem hægt var að kaupa úr bleiku kakóbauninni, en einungis er hægt að nálgast bleikt Kit-Kat í Asíu og Bretlandi sem stendur.

Dæmi um pakkningar fyrir nýja rúbínsúkkulaðið frá Nóa-Siríus.
Dæmi um pakkningar fyrir nýja rúbínsúkkulaðið frá Nóa-Siríus. Nói-Siríus

Barry Callebaut, einn stærsti kakóframleiðandi í heiminum, hefur verið að reyna að rækta nýja kakóbaun í rúman áratug. Fyrirtækið varð til í núverandi mynd árið 1996 en þá runnu saman franska fyrirtækið Cacao Barry sem hefur verið starfrækt síðan 1842 og belgíska fyrirtækið Callebaut sem Eugenius Callebaut stofnaði árið 1850. Hingað til hefur einungis verið til ein tegund kakóbauna í heiminum, og litur súkkulaðis, hvítur, ljós og dökkur, ráðist af því hve mikill kakómassi er í blöndunni. Í nýju kakóbauninni eru séreinkenni í bragði og lit sem ráðast einfaldlega af bauninni sjálfri, og er 100% náttúrulegt. Það er sem sagt ekki verið að bæta jarðarberjasósu í hvítt súkkulaði eða neitt svoleiðis svindl. Silja Mist, sem er búin að smakka, segir bragðið vera ferskt og erfitt að lýsa því. Henni finnst hún greina örlítinn sítruskeim í bland við einhvers konar berjabragð, en segir að allir sem smakki lýsi bragðinu á mismunandi hátt.

Þótt framleiðslutæknin hafi breyst leggur Nói Siríus enn sömu alúð …
Þótt framleiðslutæknin hafi breyst leggur Nói Siríus enn sömu alúð og umhyggju í vörur sínar og fyrir 60 árum þegar þessi mynd var tekin. Nói-Siríus

Verið er að skipuleggja viðburð 16. ágúst næstkomandi í Björtu loftum í Hörpu og þar gefast nokkrum útvöldum tækifæri á að vera fyrst til að smakka á nýju afurð Nóa-Siríus, sjálfu Rúbín-súkkulaðinu, en það kemur svo í búðir 18. ágúst næstkomandi. Kakóbaunin sjálf er mun dýrari en þessi hefðbundna og einnig þarf verksmiðja Nóa-Síríus að uppfylla ströng skilyrði um að Rúbín-súkkulaðið blandist hinu ekki í framleiðsluferlinu, og verðið mun því endurspegla það.

Búið er að taka ákvörðun um hvaða vara verður á boðstólum fyrst um sinn, en það verða konfektmolar, sex saman í öskju, og um lúxusvöru er að ræða. Mikill spenningur ríkir í herbúðum Nóa-Síríus, enda er ekki hægt að segja annað að þetta sé stór viðburður. Silja Mist segir að í raun sé þetta miklu stærra en bara að þau hafi landað nýjum samningi. Það sé óneitanlega heiður fyrir Íslendinga að vera valinn af þessum risa-framleiðanda, sem þriðja þjóðin í heiminum til að fá að smakka á þessari nýju baun, og tæknilega séu þetta líka alveg nýjar lendur sem verið sé að kanna í allri súkkulaðigerð í heiminum.

Kakómassi og kakósmjör eru vel þekkt grunnstig í framleiðslunni. Þótt …
Kakómassi og kakósmjör eru vel þekkt grunnstig í framleiðslunni. Þótt litur og bragð breytist nokkuð með nýju kakóbauninni haldast slík grundvallaratriði óbreytt, enda er enn um súkkulaði að ræða. Nói-Siríus

„Það var alltaf bara til ein baun og nú er búin að bætast við önnur. Að einhverju leyti er þetta því bara súkkulaðibylting og við erum svona smám saman að átta okkur á þessu,” segir Silja. „Þetta er risaskref fyrir Barry Callebaut og bara heimsbyggðina alla. Þetta gerðist líka allt svo hratt. Við fengum Barry Callebaut í heimsókn hér í apríl og byrjuðum fundinn á að smakka nýja súkkulaðið og svo var okkur bara tilkynnt að við gætum fengið það til að hefja framleiðslu eftir tvo mánuði, ef við værum tilbúin.”

Og þau voru tilbúin og allt hefur verið á fullu síðan á fundinum sögulega í apríl og bráðum fær landinn að smakka á rúbínrauða súkkulaðinu, og það er ekki laust við að súkkulaðigrísinn í mér taki kipp af tilhlökkun. Rúbínrauða súkkulaðið er ein óvenjulegasta og nýstárlegasta vara sem Nói-Siríus hefur sent frá sér, en sökum smæðar Íslands er langoftast legið yfir ákvörðunum um nýjungar, áður en þær enda á hillum búðanna. Silja segir Suðræna Kroppið, sumarútgáfuna af Nóa-Kroppi, vera eina óvenjulegustu vöru Nóa-Siríus til þessa, en hingað til hafi þau orðið að halda sig við hinar þekktari karamellu-, piparmyntu- og lakkrísútgáfur af vörum sínum, því Íslendingar eru flestir hrifnari af hefðbundari brögðum. Þó sé þetta örlítið að breytast og Suðræna Kroppið er búið að seljast vel og það gerði Piparkroppið líka, reyndar það vel að það var sett í almenna framleiðslu, en átti fyrst að vera sumarvara. Uppáhaldsmoli Íslendinga er því að verða meira spennandi þótt Íslendingar hætti að sama skapi ekki að vera venjufastir og haldi í hefðir.

Að lokum ef þú ert jafnforvitin/n og ég, ertu væntanlega að velta því fyrir þér hvaða moli var fjarlægður úr konfektkössunum til að koma Íslandsmola fyrir. Það upplýsist hér með að það var moli með kiwi-fyllingu. Þeir sem sakna hans enn geta smakkað Suðræna Kroppið í sumar og Rúbínsúkkulaði í lok sumars, en þar eru spennandi bragðblöndur fyrir ævintýragjarna bragðlauka.

mbl.is