Amma er líka á fullu að safna
Ingibjörg og Magnús Geir með nokkrum af krökkunum á heimilinu, frá vinstri Árna Geir, Degi Ara, Örnu Ýr og Andreu Björk. Á myndina vantar Stefán Daða. Kristinn Ingvarsson

Amma er líka á fullu að safna

Vitundarvakning er að eiga sér stað um endurvinnslu á áli. Með 540 sprittkertum má klæða eitt stykki MacBook Pro.

Ingibjörg og Magnús Geir með nokkrum af krökkunum á heimilinu, ...
Ingibjörg og Magnús Geir með nokkrum af krökkunum á heimilinu, frá vinstri Árna Geir, Degi Ara, Örnu Ýr og Andreu Björk. Á myndina vantar Stefán Daða. Kristinn Ingvarsson

„Það gengur mjög vel að safna álinu í sprittkertunum,“ segir Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir sviðsstjóri rekstrar hjá Samtökum iðnaðarins. „Það er svo auðvelt í skammdeginu um jólin – þetta er besti tími ársins!“ Hún segist aðeins hafa verið að vandræðast með geymslustað í upphafi. „En svo fann ég fallegt box úr áli, sem er gaman að hafa uppi á bekk. Það skiptir máli, því ef það er vesen að koma þessu fyrir, þá er hætta á að það farist fyrir að flokka.“

Það er ekki bara Ingibjörg sem leggur sitt af mörkum ásamt eiginmanninum Magnúsi Geir Þórðarsyni og fimm börnum, heldur tekur stórfjölskyldan þátt í átakinu. „Amma er líka á fullu að safna,“ segir Ingibjörg. „Hún er auðvitað meira heima en unga fólkið og ætli hún hafi því ekki nógan tíma!“ bætir hún við og hlær. „Að minnsta kosti kom hún til mín með risapoka eftir jólin og bað mig að koma því á réttan stað.“ Það safnast líka þegar saman kemur, eins og dæmin sanna. 540 sprittkerti duga til að klæða eitt stykki MacBook Pro og með 700 sprittkertabikurum má búa til pönnukökupönnu hjá Málmsteypunni Hellu.

Börn læra það sem fyrir þeim er haft

Ingibjörg og Magnús Geir eru með tvö heimili, annarsvegar í Kópavogi og hinsvegar í Eyjafjarðarsveit. „Í Eyjafirði er gengið mun lengra,“ segir hún. „Þar er allt flokkað, meira að segja lífrænn úrgangur, en í Kópavogi er bara pappír og plasti haldið til hliðar. Mér finnst mjög athyglisvert hvað afstaða manns er fljót að breytast til þessara hluta. Ég man þegar flokkunin byrjaði fyrir norðan, þá fannst mörgum það ótrúlega mikil vinna fyrir lítinn ávinning. En svo þegar komið er suður og maður sér hversu lítið er lagt upp úr flokkun, þá vekur það hjá manni samviskubit. Þess vegna held ég að svona átak skipti máli. Hér eftir mun fólk alltaf hugsa sig um áður en það hendir álinu í sprittkertunum – þó að það hafi aldrei velt því fyrir sér áður. Þetta hefur í för með sér að fólk verður meðvitaðra um umhverfi sitt.“

Aðspurð hvort krakkarnir á heimilinu, sem eru á ólíkum aldri, séu meðvitaðir um mikilvægi flokkunar og endurvinnslu segir Ingibjörg að það velti mikið á þjónustu og áherslum sveitarfélagana. „Þau læra það sem fyrir þeim er haft,“ segir hún. „Ef sorpflokkun sveitarfélagsins gerir ekki ráð fyrir nema lítilli flokkun, þá leggja íbúarnir ekki mikið upp úr flokkun og börnin tileinka sér það viðhorf. En í skólum þar sem allt er flokkað, eins og ég hef reynslu af fyrir norðan, þá alast þau upp við þann veruleika, þekkja ekki annað og myndu aldrei umgangast umhverfi sitt með öðrum hætti.“

Birgir Ásgeir Kristjánsson hjá Íslenska gámafélaginu segir umræðuna mikla og ...
Birgir Ásgeir Kristjánsson hjá Íslenska gámafélaginu segir umræðuna mikla og jákvæða um endurvinnsluátakið á áli í sprittkertum. Birgir Ísleifur

Vitundarvakning meðal almennings

„Það hefur verið mikil og jákvæð umræða í kringum endurvinnsluátakið á álinu í sprittkertunum og til þess er leikurinn auðvitað gerður,“ segir Birgir Ásgeir Kristjánsson, framkvæmdastjóri umhverfissviðs hjá Íslenska Gámafélaginu, en það stendur að endurvinnsluátakinu ásamt Endurvinnslunni, Furu, Gámaþjónustunnu, Grænum skátum, Málmsteypunni Hellu, Plastiðjunni Bjargi – iðjuþjálfun, Sorpu, Samáli og Samtökum iðnaðarins. Birgir segist finna fyrir almennri vitundarvakningu fyrir flokkun og endurvinnslu. „Það má segja að þetta hafi verið stigvaxandi undanfarin ár. Fólk verður jákvæðara og jákvæðara. Það er orðið sjálfsagt að reyna að koma því til endurvinnslu sem við losum okkur við. Enda gerir almenningur sér grein fyrir því að við þurfum að endurvinna og nýta hráefni betur. Það gengur ekki til lengdar að urða allt sem við þurfum að losa okkur við – við erum farin að ganga það mikið á auðlindir jarðar.“

Fullur poki af sprittkertum eftir jólin

Boðið er upp á að skila álinu í sprittkertunum á hátt í 90 móttöku- og endurvinnslustöðvar Endurvinnslunnar, Gámaþjónustunnar, Íslenska gámafélagsins og Sorpu um allt land. Þá býðst fólki að skila álbikurunum í söfnunargáma Grænna skáta á höfuðborgarsvæðinu og loks getur fólk sett álið í endurvinnslutunnu Gámaþjónustunnar og græna tunnu Íslenska gámafélagsins (ekki þó grænar tunnar Reykjavíkurborgar). Endurvinnslan tekur svo á móti vaxi úr sprittkertum og öðrum kertaleifum, en þaðan fer það Plastiðjunnar Bjargs sem endurnýtir það í útikerti. „Ég get alveg sagt þér að við notum talsvert magn af sprittkertum heima,“ segir Birgir. „Ég er einmitt með poka fullan af áli undan sprittkertum á borðinu hjá mér sem ég kom með að heiman. Venjulega hef ég sett það í grænu tunnuna með öðrum málmum, en nú ákvað ég að halda því til hliðar og athuga hvað við notuðum mikið. Ég er sem sagt með fullan poka eftir jólin!“ Hann segir að fólki sé samt alveg óhætt að setja álið beint í grænu tunnuna. „Segullinn tekur frá málma sem seglast og svo er álið tínt frá.“

Er með moltutunnu úti í garði

Birgir hefur ekki aðeins flokkun að atvinnu, heldur leggur hann mikið upp úr því að flokka heima fyrir. „Ég flokka allan pappír og plastumbúðir og svo er ég sjálfur með moltutunnu úti í garði þar sem ég jarðgeri stóran hluta af matarleifum heimilisins, þ.e.a.s. fyrir utan kjöt og fisk.“ Hann segir ekki mikla fyrirhöfn fylgja því. „En maður þarf að hugsa um þetta. Það þarf að lofta um þetta í hvert skipti sem losað er út í tunnu, sem er kannski vikulega, og svo þarf að ummoka þessu á vorin. Þetta er því smávinna, en alveg þess virði, því það kemur fín molta úr þessu sem ég get þá sett í garðinn.“

Hráefnið sé tiltölulega hreint

Íslenska gámafélagið býður upp á Grænu tunnuna í áskrift fyrir heimili. „Það má setja í hana endurvinnanleg hráefni eins og allan pappír og pappa, hvaða nafni sem það nefnist, hvort sem það er bylgjupappír, dagblöð, tímarit eða annað. Einnig plastumbúðir og minni málmhluti eins og sprittkertakoppana, lok af krukkum, niðursuðudósir og annað slíkt. Það eina sem fólk þarf að hafa í huga er að ætlast er til að hráefni sem fer í tunnuna sé tiltölulega hreint – það þarf að skola fernur og annað sem er með matarleifum.“ Birgir segir að fólk þurfi einnig að hreinsa álið undan sprittkertunum. „Það er um að gera að hafa sem minnst af vaxi í því – að hafa álkoppana sem hreinasta. Það er einfalt að kroppa vaxið af. Það molnar gjarnan úr þegar kopparnir eru rétt aðeins beyglaðir. Svo er æskilegt að losa um plötuna fyrir kveikinn.“

Nán­ar um end­ur­vinnslu­átakið:

http://www.samal.is/is/end­ur­vinn­um-alid

Spurt & svarað:

http://www.samal.is/is/frett­ir/spurt-svarad-um-end­ur­vinnslua­tak-spritt­kerta

End­ur­vinn­um álið á face­book:

htt­ps://www.face­book.com/end­ur­vinnu­malid/

mbl.is