Tákn vefjar

Uppsetning

Sálumessan

Lífshlaup

 

EIginhandaráritun Mozarts

Lífshlaup snillings

Wolfgang Amadeus Mozart fæddist í Salzburg í Austurríki árið 1756 og lést í Vín 1791 rétt tæpra 36 ára gamall. Mozart var sennilegast einn náttúrugáfaðasti tónlistarmaður mannkyns. Þegar í bernsku var til þess tekið hve næmt tóneyra hann hafði og minni hans á tónlist var engu líkt. Tónlistarsérfræðingar hafa margir haldið því fram að engin tónlist komist í hálkvisti við verk Mozarts hvað tærleika snertir, hvað sem öllum hugrenningatengslum og menningarlegum áhrifum líður. Tónlist hans hafi verið samin af íþrótt og andagift og tæknilega sé ekkert út á að setja. Það segir enda sína sögu, að þegar notast er við skilgreininguna "klassík" um tónlist, er fyrst og fremst átt við Mozart.

Faðir Mozarts, Leopold, var sjálfur hæfileikaríkur tónlistarmaður og var aukinheldur góður kennari og skynsamur faðir. Hann áttaði sig snemma á snilli sonarins og tryggði að hann fengi þá undirstöðu í hljóðfæraleik og tónlist, sem þurfti til þess að nýta gáfur Mozarts til fullnustu. Þegar snáðinn var sex ára fór faðir hans með hann og tíu ára gamla systur hans í fyrstu tónleikaförina um Evrópu og þessi undrabörn vöktu eftirtekt og aðdáun við allar helstu hirðir Evrópu, en á þeim tíma var tónlistarlíf meira og minna allt í skjóli aðalsins. Orðstír Mozarts jókst jafnt og þétt, sem sést ágætlega á því, að hann var aðeins 14 ára gamall þegar páfi sló hann til riddara.

Þegar á leið unglingsárin minnkuðu vinsældir hans nokkuð, þar sem síbetri tónsmíðar hans náðu ekki að fanga sömu athygli og undrabarnið við píanóið hafði áður gert. Hann var ráðinn til hirðar erkibiskupsins af Salzburg þar sem komið var fram við hann, sem hvert annað þý. Menn geta gert sér í hugarlund hvort sú auma vist hafi ekki fengið á unga manninn, sem í æsku lék sér við Maríu Antoinette og þáði barnagull úr hendi þjóðhöfðingja vítt og breitt um álfuna. Ósætti við erkibiskupinn bætti ekki úr skák og að lokum var honum kastað á dyr. Þá hélt hann til Vínarborgar þar sem hann átti allmarga vini, sem reyndust honum vel. Ýmsir aðalsmenn greiddu götu hans að ógleymdum keisaranum sjálfum, en ekki skipti minnstu að almenningur fór að gera sér grein fyrir snilli Mozarts vegna margra vinsælla ópera, sem hann samdi nánast án þess að taka eftir því.

Þegar hér er komið við sögu er Mozart orðinn 25 ára gamall og átti ekki nema um tíu ár eftir ólifuð. Hann kvæntist Konstönzu og lifði fremur fábrotnu lífi þó hann nyti mikillar hylli og velgengni öðru hverju. Á þessum tíma samdi hann bestu óperur sínar, Fígaró þegar hann stóð á þrítugasta ári, Don Giovanni þegar hann var 32 og Töfraflautuna þegar hann var 35, en þá var stutt eftir. Þá er rétt að geta þess að Töfraflautan var merkileg fyrir fleiri hluta sakir en frábæra tónlist. Í henni var einnig talað mál og hún var á þýsku, sem var vægast sagt óvenjulegt og hafa sumir lesið úr því þjóðernislega tilburði.

Seinna meir þótti Ludwig van Beethoven komast Mozart næst að snilli, en það ber að hafa í huga að Beethoven þurfti að hafa mikið fyrir því að semja, svo sérhver tónn gat verið honum raun. Um Mozart gegndi allt öðru máli. Honum veittist svo létt að semja, að hans aðalvandi var að koma öllu niður á blað nógu skjótt. Þrátt fyrir allt of skamman feril dældi hann frá sér tæplega 50 sinfóníum, tæplega 20 óperum og óperettum, meira en 20 píanókonsertum, 27 strengjakvartettum, um 40 fiðlusónötum og ógrynni af annarri tónlist.

Requiem

Síðasta verk Mozarts var Sálumessan -- Requiem. Þrátt fyrir að verulega væri af honum dregið, hamaðist hann við að semja hana og það þótt hann þættist hafa séð í illan fyrirboða í verkbeiðninni. Sú varð enda raunin. Mozart endist ekki aldur til þess að ljúka henni.

Það var dularfullur gráklæddur maður, sem hafði óskað eftir Sálumessunni, en til þessa dags hefur ekki verið upplýst hver hann var, eða fyrir hvern messan skyldi sungin. Ýmsar sögur gengu þó um það og í kvikmyndinni Amadeus var spunnin stórkostleg samsæriskennig um að hirðtónskáldið Antonio Salieri hafi verið dularfulli maðurinn og í þokkabót hafi hann eitrað fyrir Mozart í því skyni að skreyta Sálumessuna með eigin nafni. Ekkert bendir til þess að nokkur fótur sé fyrir þessu og í raun virðist Salieri ekkert hafa til saka unnið annað en að vera samtímamaður Mozarts og reyndar mikill aðdáandi hans.

Þegar Mozart lést óttaðist Konstanza að hún fengi ekki greitt fyrir verkið og því bað hún Josef Eybler, vin Mozarts, um að ljúka því. Hann annaðist útsetningu og frágang þess hluta verksins, sem fyrir lá, en vildi ekki semja afganginn. Til þess fékk hún Franz Süssmayr, en hann hafði aðstoðað Mozart við allnokkrar óperur hans og hafði verið honum mjög innan handar við samningu Töfraflautuna. Süssmayr var tvímælaust hæfasti maðurinn til starfans, enda skýrði systir Konstönzu seinna frá því að hann hafi verið við sjúkrabeð Mozarts og fengið útskýringar og fyrirmæli um hvernig afgangurinn skyldi vera.


Morgunblaðið

                                                                                                  Mozart-verkefnið

Mozart í Austurríki

MIDI-tóndæmi

Aðdáandavefur

Ritgerð um Sálumessuna