Karen Axelsdóttir - haus
22. júní 2010

Stuðningur frá maka

Ofurkonan mætti því miður ekki samkvæmt pöntun á laugardaginn og ég þurfti að bíta í það súra epli að sleppa úrtökumótinu þar sem ég var ennþá hálf slöpp á keppnisdag. Ágætt að maður sé aðeins farinn að læra af reynslunni en það að keppa í rúmar 2 klst á nánast 100% álagi allan tímann kostar eins og segir marga daga í rúminu ef heilsan er ekki í lagi. 

  

 Í dag eigum við hjónin brúðkaupsafmæli og er planið að halda uppá að það í dag. Það er svolítið skondið en meðal margra breskra íþróttavina minna virðist viðhorfið vera það að um leið og þú giftir þig eða eignast börn þá er íþróttaferillinn búinn. Ég fæ líka oft komment um hvort þetta reyni nú ekki mikið á sambandið og hvort eiginmaðurinn sé ekki orðinn pirraður á þessu brölti í mér, en því miður eru mjög margir félgar mínir í endalausu stríði við makann varðandi að komast á æfingar ofl. Ég veit ekki hvernig ég get verið svona heppin en það eina sem ég hef skynjað hingað til er endalaus stuðningur frá manninum mínum. Fyrir það er ég afar þakklát og það spilar stórt hlutverk í velgengninni. Það sem ég met mest er að ég fæ alltaf jákvætt viðhorf hvort sem ég er að mæta á æfingar eða keppa en ef ég fengi reglulega leiðindatón þar sem maður les á milli línanna að maður sé ekki vinsæll eða setningar eins "nú þarftu endilega að fara á æfingu" þá er á hreinu að heimilslífið væri frekar súrt.  En þetta er ekki einhliða og ég legg held ég mitt að mörkum. Við okkar sem eigum tímafrek áhugamál eða vinnum utan hefðbundins vinnutíma þurfum að vera meðvituð um að taka tillit til makans, vera ofur skipulögð varðandi tíma og gera makanum kleift að rækta sinn líkama og sína drauma. Sumt fólk lifir í metingi og telur opinskátt golfklukkutímana hjá makanum sem "inneign" á eigin frítíma. Oft er ástæða fyrir því en ég veit um marga sem finnst ekkert sjálfsagðara að blokka báða helgardaga og flest kvöld með golfspili, æfingum eða fjallaklifri og spá ekkert í hvað myndi gerast ef makanum dytti í hug að gera það sama. Ég veit ég líka um suma maka gera allt sem hægt er til að vera á móti því að makinn fari á ákveðna æfingu og gera í því að skipuleggja tíma í ræktinni eða hárgreiðslu akkurat á sama tíma! Svona eins konar stríð sem enginn vinnur og allir eru óánægðir. Munið að gleðjast fyrir hönd  hins ef hann eða hún er að gera eitthvað sem veitir þeim hamingju í lífinu. Líka ekki hugsa um þetta sem tíma sem þú ert að "missa" eða makinn vilji ekki eyða tíma með þér. Ég er ekki að segja að fólk eigi að draga upp reglustriku og deila niður öllum frítíma. Meira að opna augun fyrir því að það  þarf að vera jafnvægi og  að það er alltaf pláss fyrir að báðir aðilar fái sitt svigrúm. Þetta gerist ekki á einnu nóttu  en ef fólk talar saman, skipuleggur og er  sveigjanlegt þá geta allir grætt og þið sparið ykkur óþarfa pirring um ókomin ár.