Hjartað í miðju alls

Eftir Þröst Helgason

Halldór Laxness kvaddi sér fyrst hljóðs sem rithöfundur árið 1919 með skáldsögunni Barni náttúrunnar. Halldór var aðeins sautján ára þegar bókin kom út en það mátti samt ekki tæpara standa því, eins og hann sagði sjálfur frá, fékk hann vitrun fyrir dyrum úti þegar hann var sjö ára um að hann myndi deyja á sautjánda ári.

Vorið 1918 var ég semsé orðinn sextán vetra og lítill tími til stefnu. Ekki var ég fyrr kominn heim af gagnfræðaprófi þetta vor en ég tók til óspiltra mála að skrifa þá bók sem á reið að eftir mig lægi þegar liði upp af mér, vonandi í leiftri af himni, næsta vor. Bókina ætlaði ég að grundvalla á sýn merkilegrar stúlku sem einusinni hafði horft á mig án þess að mæla orð, einsog á myndinni af Dante þegar hann mætti Beatrice á brúarsporðinum við Arnó-fljót og hvorugt mælti orð. Eftir það hafði ég gert því skóna að öll viska heimsins mundi búa í svona stúlku; amk birtast gegnum hana; þó er það von mín að slíkrar stúlku hafi beðið skemmtilegri ævi en sú sem boðuð er stúlkunni í Barni náttúrunnar. Kanski skiptir það ekki máli; nema þatta var skáldsagan sem ég hafði heitstrengt að skrifa áður en ég yrði sautján ára; deya síðan glaður.

Bókin hlaut góðar viðtökur hjá gagnrýnendum. Jakob Jóhannesson Smári sagði í grein í Skírni að engum þyrfti að dyljast að höfundur Barns náttúrunnar væri efni í skáld þótt verkið hefði nokkra galla; „... grunar mig, að hann eigi eftir að auðga íslenskar bókmenntir með góðum skáldskap, ef honum endist aldur og heilsa.“ Í Alþýðublaðinu birtist einnig ítarlegur ritdómur eftir Arnfinn Jónsson sem, eins og Jakob, gerir smávægilegar athugasemdir við bókina, en segist telja að vænta megi hins besta frá höfundinum „þegar honum vex aldur og viska“. Arnfinnur bætir svo þessum orðum við: „Og hver veit nema að Halldór frá Laxnesi eigi eftir að verða óskabarn íslensku þjóðarinnar.“

Æskuár ­ þreifað fyrir sér
Halldór Laxness fæddist í steinbæ á Laugavegi 32 í Reykjavík 23. apríl 1902. Á þessum árum var Reykjavík aðeins þorp sem um 10% þjóðarinnar bjuggu í, jafnmargir bjuggu í smábæjum víða um landið en 80% í sveitum. En Reykjavík stækkaði ört næstu áratugina. Þar bjó þriðjungur þjóðarinnar árið 1940, annar þriðjungur bjó þá í öðrum bæjum en aðeins um 40% í sveitum. Upp úr aldamótunum var Reykjavík í óða önn að verða miðstöð íslensks þjóðlífs, hún varð miðpunktur viðskipta, stjórnmála og menningar. Halldór staldraði hins vegar stutt við í verðandi höfuðstað landsins. Þegar hann var þriggja ára flutti hann ásamt foreldrum sínum upp í Mosfellsdal þar sem þau hófu búskap í Laxnesi.

Halldór var sonur Guðjóns Helga Helgasonar, bónda og vegaverkstjóra, og Sigríðar Halldórsdóttur húsfreyju. Bæði voru þau listhneigð. Guðjón lék á fiðlu og var söngmaður góður eins og Sigríður. Halldóri var ungum haldið að tónlistariðkun, lærði hann meðal annars á píanó en einnig naut hann tilsagnar í dráttlist hjá ekki ómerkari listmálara en Þórarni B. Þorlákssyni. En skáldhneigðin varð öllu öðru yfirsterkari og á þrettánda ári hafði Halldór skrifað sexhundruð blaðsíðna reyfara, sem hann kallaði svo, „reyfara á móti Endurlausnarkenningunni og frú Torfhildi Hólm“. Sagan hét Afturelding og hefur ekkert varðveist af handriti hennar; sagði Halldór að hann hefði gefið hana upp á bátinn er hann fermdist enda hefði sumt í henni ekki samræmst þankagangi kristinna manna.

Áhrif gamalla kvenna á skáld hafa orðið eins konar leiðarminni í íslenskum bókmenntum frá því að Halldór Laxness hélt því fram að móðuramma sín, Guðný Klængsdóttir, hefði haft mest áhrif á skáldskap sinn en ekki einhver bókmenntapáfinn, stórskáld eða hugsuður. Halldór gerði íslenskar ömmur að bókmenntalegri stærð sem yngri höfundar hafa svo oft vísað í. Hann sagði að amma sín hefði ekki aðeins kennt honum að segja sögu heldur hefði hann einnig numið íslensku af hennar vörum, þá kjarnmiklu íslensku sem ömmur í gegnum aldirnar hafa varðveitt og borið frá kynslóð til kynslóðar. Það var þessi alþýðlega menntun úr ríkulegum sjóði amma allra kynslóða sem Halldór vildi halda fram að hefði mótað hans skáldskap. Og svo mikið er víst að það var ekki hinn hefðbundni skólavegur sem skóp Halldór Laxness.

Halldór sótti nám við Menntaskólann í Reykjavík en undi sér illa; þótti honum lítið gagn vera af þeim fróðleik sem nemendur þar áttu að innbyrða en sagðist þó hafa lært miklu meira þar en hann gerði sér grein fyrir í fyrstu, og það „með því einu að sitja þarna geispandi af utanviðsigheitum, og sjá alt í þoku kringum sig.“ Halldór hafði aðeins setið í liðlega hálfan vetur í skólanum þegar hann þoldi ekki lengur við; hann tók þá ákvörðun að leita sér frekar þekkingar með því að skoða heiminn með eigin augum. Snemmsumars árið 1919 hélt hann því til Kaupmannahafnar eins og svo margir landar hans höfðu gert. Næstu ár var Halldór lengst af á eirðarlausu flakki um Evrópu sem var í sárum eftir heimsstyrjöldina. En árið 1922 fann hann sér athvarf í þessum sundraða heimi hjá Benediktsmunkum í Clervaux-klaustri í Lúxemborg. Þar skírðist hann til kaþólskrar trúar árið eftir og tók sér dýrlingsnafnið Kiljan eftir írskum píslarvotti.

Þótt guðsorð og nám í tungumálum og bókmenntum tæki sinn tíma hélt Halldór áfram að skrifa. Hann hafði skrifað handrit að Rauða kverinu veturinn 1921 til 1922 og ári síðar kom út smásagnasafnið, Nokkrar sögur. Í klaustrinu skrifaði hann svo sína aðra skáldsögu, mikla að vöxtum sem nefnist Undir Helgahnúk. Þetta er bernskusaga og lýsir þroskaferli drengs frá fæðingu til fermingar. Trúarlegar vangaveltur eru áberandi í verkinu og á það raunar einnig við um næstu bækur Halldórs. Árið 1925 sendir hann frá sér ritið Kaþólsk viðhorf þar sem hann svarar árásum vinar síns og skáldbróður, Þórbergs Þórðarsonar, á kaþólska trú í Bréfi til Láru sem komið hafði út árið áður. Á sama tíma og hann vann að varnarritinu um kaþólskuna skrifaði Halldór bók sem kom ekki út fyrr en um aldarfjórðungi síðar, Heiman eg fór, og var „sjálfsmynd æskumanns“, eins og hann lýsti henni sjálfur. Árið 1927 kom svo út sú bók sem telst fyrsta stórvirki Halldórs, sú bók sem margir hafa talið marka upphaf nútímans í íslenskum bókmenntum, Vefarinn mikli frá Kasmír.

Vefarinn mikli kom eins og vindsveipur inn í lognmollu íslenskra bókmennta á þriðja áratugnum. Það varð uppi fótur og fit og ein frægustu orð íslenskra bókmenntaskrifa féllu: „Loksins, loksins tilkomumikið skáldverk, sem rís eins og hamraborg upp úr flatneskju íslenskrar ljóða- og sagnagerðar síðustu ára! Ísland hefur eignast nýtt stórskáld ­ og það er blátt áfram skylda vor að viðurkenna það með fögnuði.“ Það var Kristján Albertsson sem taldi rétt að hringja þannig inn nýja tíma í íslenskum bókmenntum við útkomu þessarar „ógurlegu bókar“, eins og Jóhannes S. Kjarval kallaði Vefarann mikla í ritdómi.

Vefarinn mikli er að mörgu leyti ófullkomið verk, byggingin er sundurlaus og persónusköpun ómarkviss. Engu að síður býr það yfir gríðarlegum áhrifamætti og það jafnvel þótt rúm sjötíu ár séu liðin frá því það kom fyrst út árið 1927. Ástæða þessa er ekki aðeins sú að verkið vekur máls á mörgum helstu spurningum mannlegrar tilvistar á tuttugustu öld heldur einnig ­ og kannski umfram allt ­ vegna þess með hvaða hætti það er gert. Frásagnarhátturinn ber nýrri heimsmynd eftirstríðsáranna glöggt vitni; hann er sundurtættur, margbrotinn og ófyrirséður, stundum jafnvel reikandi eins og hann sé óviss um markmið sitt ­ en alltaf ertandi.

Óreiða tímans er ofin inn í verkið. Í því fer Halldór á kostulegt flandur um hugmyndafræðilegt svið samtímans; trúmál eru ofarlega á baugi, átök góðs og ills, sömuleiðis sósíalismi, umræða um stöðu konunnar og kvenhatur, nútímalist og ekki síst tilvistarvandi mannsins í nýjum, grimmari og óskiljanlegri heimi. Sagan segir frá átökum ungs, gáfaðs og listhneigðs manns, Steins Elliða, við þennan heim og tilveru sína í honum. Í eirðarlausri leit sinni að fótfestu hafnar hann að endingu í faðmi kaþólskrar kirkju. Þar finnur hann tilgang lífs síns og þegar konan sem hann elskaði kemur að finna hann og endurheimta vísar hann henni á bug með þeim orðum að guð einn sé sannur: „Veslings barn! sagði hann, og svipur hans var forkláraður svo hún hafði aldrei séð neitt fegra á ævi sinni. Maðurinn er blekking. Farðu og leitaðu guðs skapara þíns því alt er blekking nema hann.“

Sagnagaldur ­ tónninn fundinn
Um svipað leyti og Steinn Elliði fann sannleikann í trúnni fór Halldór að leita annarra leiða við að fóta sig í tilverunni. Árin 1927 til 1929 dvaldist hann vestan hafs og að eigin sögn breytti sú dvöl honum í sósíalista: „Það er athyglisvert að ég varð ekki sósíalisti í Ameríku af lestri sósíalískra fræðirita, heldur af því að virða fyrir mér soltna atvinnuleysíngja í skemtigörðum,“ segir Halldór í formála Alþýðubókarinnar sem hann skrifaði vestra. Viðhorfsbreytingin er augljós af þeirri bók; guð er honum ekki lengur sá brunnur lífssanninda sem áður, heldur fólkið sjálft, maðurinn, líf hans og hugsanir: „Maðurinn er fagnaðarboðskapur hinnar nýju menningar, maðurinn sem hin fullkomnasta líffræðilega tegund, maðurinn sem félagsleg eining, maðurinn sem lífstákn og hugsjón, ­ hinn eini sanni maður, ­ þú.“ Þessi klausa er í hrópandi andstöðu við tilvitnunina úr Vefaranum mikla hér að framan en aðeins liðu tvö ár á milli útkomu þessara bóka.

Halldór fór til Ameríku til að hasla sér völl í kvikmyndaiðnaðinum í Hollywood. Það gekk þó ekki eftir. Þessi ár vann hann að tveimur kvikmyndahandritum undir heitunum Kari Karan og A Woman in Pants sem síðar varð að skáldsögunni Sölku Völku. Einnig vann hann að handriti sem hann kallaði Heiðina og var eins konar undanfari að Sjálfstæðu fólki.

Þegar heim kom árið 1930 lagðist Halldór í flakk um landið; tilgangurinn var í raun sá sami og með Evrópuferðinni tíu árum fyrr, það er að afla sér þekkingar um lífið í landinu, um líf fólksins, með því að skoða það með eigin augum, upplifa það. Þessi ferð var hluti af undirbúningi fyrir ritun næstu skáldsagna þar sem raunsæiskrafan var mun þyngri en í fyrri bókum; í þessum miklu epísku raunsæisverkum um íslensku þjóðina kemur Halldór fram sem fullskapaður höfundur, eirðarleysið er farið og tónninn fundinn, hinn hreini tónn.

Sú formbreyting sem varð í skáldskap Halldórs með Sölku Völku, sem kom út í tveimur hlutum á árunum 1931 og 1932 sem hétu Þú vínviður hreini og Fuglinn í fjörunni, er ekki síst merkileg fyrir þær sakir að hún er nokkuð á skjön við það sem var að gerast í bókmenntum úti í hinum stóra heimi á þessum tíma. Á meðan flestir voru að leita að nýjum frásagnarhætti til að lýsa nýjum heimi hverfur Halldór aftur til hinnar fornu sagnahefðar og raunsæis. Þegar við nú lítum aftur til þessa tíma virðist þessi leið hafa verið sú eina rétta hjá íslenskum höfundi en af þeim hræringum og byltum sem við sjáum í Vefaranum mikla má ljóst vera að umbrotin í huga Halldórs hafa verið mikil. Sömuleiðis ber eina ljóðabókin hans, Kvæðakverið, sem kom út árið 1930 og var fyrsta bók Halldórs eftir heimkomuna frá Ameríku, glöggt vitni um togstreituna í huga hans og skáldskap. Í formála hennar segir skáldið að þessi ljóð sín séu „tilraunir í ljóðrænum vinnubrögðum, rannsóknir á þanþoli ljóðstílsins“.

Með Sölku Völku er óhætt að segja að Halldór hafi því skrifað sig í sátt við þjóð sína sem hann hafði tuktað óþyrmilega, bæði beint í skammargreinum sínum um menningarástand og óbeint í byltingarkenndum og framandi skáldskap sínum. Sölku Völku gat öll þjóðin lesið án vandkvæða, þar fékk hún sína sögu í sínum stíl, sögu um sig sjálfa.

Í Sölku Völku kemur hinn sósíalíski lærdómur frá dvöl Halldórs í Ameríku fram. Skáldið lýsir þessari sögu úr íslensku sjávarplássi best sjálft í viðtali í Alþýðublaðinu árið 1931:

Yfirleitt má segja, að bókin gerist öll í slæmu veðri og vondum húsakynnum meðal einstaklinga af yfirstétt og undirstétt, sem báðar eru jafn óbjörgulegar, hvor á sína vísu ... En unga stúlkan í sögunni er, þótt hún sé snemma hart leikin af grimmd mannlífsins, ímynd þeirrar sigurvonar, sem jafnvel hinum fátækustu og lítilmótlegustu í þessu plássi mætti leyfast að bera í brjósti, enda þótt guð og menn kunni oft að virðast jafn óvinveittir einstaklingnum.

Árið 1932 heldur Halldór til Sovétríkjanna og skrifar um þá ferð bókina Í Austurvegi þar sem hann segist lýsa kynnum sínum af Ráðstjórnarríkjunum á sem sannastan og réttastan hátt. Halldór skrifaði á þessum tíma mikið af greinum í sósíalískum anda, meðal annars í Rauða penna, tímarit Félags byltingarsinnaðra rithöfunda sem Halldór var forsprakki fyrir ásamt Þórbergi Þórðarsyni, Kristni E. Andréssyni og fleirum. Hann var og þegar farinn að undirbúa næstu bók og skrifa, Sjálfstætt fólk, sem kom út á árunum 1934 og 1935. Í henni er hinn rammíslenski ­ en jafnframt alþjóðlegi ­ heiðarbóndi til umfjöllunar. Bjartur í Sumarhúsum er táknmynd ósigurs hins sístritandi manns sem á sér þann draum einan að verða sjálfs sín herra, engum háður; allt hans sjálfstæði er innan æpandi gæsalappa. Best er að vitna aftur beint til skáldsins þar sem það leggur út af sögunni af Bjarti í Sjálfstæðu fólki:

Enn einu sinni höfðu þau brotið bæ fyrir einyrkjanum, þau eru söm við sig öld fram af öld, og það er vegna þess, að einyrkinn heldur áfram að vera samur við sig öld fram af öld. Stríð í útlöndum getur stælt í honum bakfiskinn ár og ár, en það er aðeins sýndarhjálp; blekking; einyrkinn kemst ekki úr kreppunni um aldir, hann heldur áfram að vera í hörmung, eins lengi og maðurinn er ekki mannsins skjól, heldur versti óvinur mannsins. Líf einyrkjans, líf hins sjálfstæða manns er í eðli sínu flótti undan öðrum mönnum, sem ætla að drepa hann. Úr einum næturstað, í annan verri. Ein kotungsfjölskylda flytur búferlum, fjórir ættliðir af þeim þrjátíu sem borið hafa uppi líf og dauða í þessu landi í þúsund ár ­ fyrir hvern? Að minnsta kosti ekki fyrir sig né sína. Þau voru líkust flóttamönnum í herjuðu landi, þar sem geisað hafa langvinn stríð, griðlausir útilegumenn ­ í landi hverra? Að minsta kosti ekki í sínu landi. Það er til í útlendum bókum ein heilög saga, af manni sem varð fullkominn af því að sá í akur óvinar síns eina nótt. Sagan af Bjarti í Sumarhúsum er saga mannsins, sem sáði í akur óvinar síns allt sitt líf, dag og nótt. Slík er saga sjálfstæðasta mannsins í landinu.

Sú aðferð Halldórs að leggja þannig út af sögu sinni sjálfur í bókinni hefur verið umdeild en auðvitað hefur engin gert það á fallegri hátt.

Eftir að hafa skrifað sögu saltfisksins og íslenska bóndans eins og Halldór sagði sjálfur snýr hann sér að skáldinu í næsta verki, Heimsljósi, sögunni af niðursetningnum og skáldinu Ólafi Kárasyni sem kom út í fjórum bindum árin 1937 til 1940 er nefnast Ljós heimsins, Höll sumarlandsins, Hús skáldsins og Fegurð himinsins. Ólafur Kárason á sér ekki viðreisnar von í þessum heimi en þjáning hans og hin skáldlega fegurð sem af henni sprettur eru miklu stærri og gjöfulli en það líf sem heimurinn hefur að bjóða. Sá kraftur sem sprettur af þessum minnsta og aumasta þegn landsins er nánast guðlegur, hann er ljós heimsins, uppspretta fegurðar og góðvildar. Þetta skáldverk, sem margir telja hápunktinn á höfundarferli Halldórs, má ekki aðeins lesa sem upphafningu og minnisvarða íslenskra alþýðuskálda heldur sem táknmynd um stöðu hvers skálds í heiminum, það er utanveltu en samt eins og hjartað í miðju alls: „skáldið er tilfinning heimsins, og það er í skáldinu sem allir aðrir menn eiga bágt“, segir í Heimsljósi.

Halldór hafði á afgerandi hátt skipað sér í flokk með alþýðunni og barðist fyrir bættum kjörum hennar. Ekki þótti öllum það gott hve bækur hans voru litaðar af pólitískum skoðunum og bændur urðu sárlega móðgaðir við lestur á sögunni um hinn íslenska kotbýling. Halldór er því aftur kominn upp á kant. Hann er í uppreisn gegn þjóðlegri bændamenningu og íslensku menntaelítunni sem ólíkt honum hafði afar rómantísk og íhaldssöm viðhorf til tungumálsins og bókmenntasköpunar. Þetta andóf kristallast í mjög umdeildri útgáfu Halldórs á nokkrum fornsögum með nútímastafsetningu, meðal annars Njálu.

Með Íslandsklukkunni takast hins vegar eins konar málamyndasættir með skáldinu og þjóðinni. Verkið kom út í þremur bindum á árunum 1943 til 1946 er nefndust Íslandsklukkan, Hið ljósa man og Eldur í Kaupinhafn. Hér sækir Halldór í sjóð íslenskrar frásagnarlistar, sagnahefðarinnar og segir sögu þjáðrar og undirokaðrar þjóðar. Sagan gerist í lok sautjándu aldar og byrjun átjándu aldar þegar Ísland var undir vald Dana sett og mátti auk þess þola hallæri og drepsóttir. Þrjár aðalpersónur eru í sögunni sem bera í sér örlög þjóðarinnar á þessum tíma; Jón Hreggviðsson, Snæfríður Íslandssól og Arnas Arnæus. Í þeim öllum býr frelsisþrá þjóðarinnar undan utanaðkomandi valdi og auðvitað hefur saga þeirra sterka vísun til samtíma höfundarins. Þegar Arnas Arnæus ver þá ákvörðun sína að taka ekki tilboði um að gerast landstjóri fyrir Hamborgara sem hugsa sér að kaupa Ísland af Dönum lýsir hann um leið stöðu þjóðarinnar á ritunartíma sögunnar gagnvart erlendu hervaldi:

Ef varnarlaus smáþjóð hefur mitt í sinni ógæfu borið gæfu til að eignast mátulega sterkan óvin mun tíminn gánga í lið með henni einsog því dýri sem ég tók dæmi af. Ef hún í neyð sinni játast undir tröllsvernd mun hún verða gleypt í einum munnbita. Ég veit þið hamborgarmenn munduð færa oss íslenskum maðklaust korn og ekki telja ómaksvert að svíkja á oss mál og vog. En þegar á Íslandsströnd eru risnir þýskir fiskibæir og þýsk kauptún, hve leingi mun þess að bíða að þar rísi og þýskir kastalar með þýskum kastalaherrum og málaliði. Hver er þá orðinn hlutur þeirrar þjóðar sem skrifaði frægar bækur? Þeir íslensku mundu þá í hæsta lagi verða feitir þjónar þýsks leppríkis. Feitur þjónn er ekki mikill maður. Barður þræll er mikill maður, því í hans brjósti á frelsið heima.

Í Atómstöðinni, sem kom út árið 1948, hélt Halldór áfram þessari umræðu um frelsi þjóðarinnar, um vald og áþján. Keflavíkursamningurinn hafði verið gerður við Bandaríkjamenn árið 1946 og taldi Halldór hann sorgarefni. Atómstöðina má þó ekki síður lesa sem sögu um upplausn og endurmat hefðbundinna gilda í kjölfar stríðs. Sagan varð raunar tilefni til langvinnra og kostulegra deilna Halldórs og Þórbergs Þórðarsonar. Hinn síðarnefndi taldi Halldór hafa falsað myndina af Erlendi í Unuhúsi sem var fyrirmynd Halldórs að organistanum í sögunni, sakaði Þórbergur Halldór um að hafa dregið Erlend upp í skýin með því að gera hann að eins konar Jesúgervingi. Um þessa deilu sem lýsir svo vel skáldunum tveimur skrifaði Halldór smásögu sem heitir Jón í Brauðhúsum og kom út í einu af þremur smásagnasöfnum hans, Sjöstafakverinu (1964).

Með Atómstöðinni lenti Halldór enn upp á kant við þjóðfélagið, einkum þá sem stutt höfðu gerð Keflavíkursamninganna. Næsta verk Halldórs, Gerpla, sem kom út árið 1952, er einnig ritað í skugga stríðsins og hersetunnar en ræðst af öðrum þáttum en fyrri verk. Verkið er sterk ádeila á allan stríðsrekstur en um leið er það að vissu leyti ádeila á hetjuhugsjón Íslendingasagna. Söguefnið sækir Halldór líka í fornsögurnar, einkum Fóstbræðrasögu, en aðalsöguhetjurnar eru þeir víkingar, Þorgeir Hávarsson og Þormóður Kolbrúnarskáld. Stíllinn er sömuleiðis sóttur til fornsagnanna en Halldór hafði það að markmiði við ritun sögunnar að nota aldrei orð sem hægt væri að sanna að ekki hafi verið til í málinu á elleftu öld. Ritun Gerplu er geysilegt afrek en út í það lagði Haldór með þá bjargföstu trú, sem hann lýsti í minnisgreinum sínum um fornsögur, að „íslenzkur rithöfundur getur ekki lifað án þess að vera síhugsandi um hinar gömlu bækur“. Auðvitað olli þessi saga samt miklum deilum, Halldór var sakaður um að skrumskæla fornsögurnar.

Kalla má hinar miklu epísku skáldsögur Halldórs kjölfestuna í höfundarverki hans en í lok þessa skeiðs, þremur árum eftir útkomu Gerplu árið 1955, hlaut Halldór eina mestu viðurkenningu sem rithöfundi getur hlotnast, Bókmenntaverðlaun Nóbels.

Enn inn á nýjar lendur
Eftir að hafa kannað hinn sósíalíska sannleika á fjórða og fimmta áratugnum tók við tímabil á ferli Halldórs sem einkenndist kannski af leit og tilraunum. Halldór var 53 ára þegar hann hlaut Nóbelsverðlaunin en það er til merkis um ótrúlegan endurnýjunarmátt hans sem höfundar að þá hefur hann nýja sókn inn á ný svið bókmenntanna og um leið má segja að honum takist að vinna íslenskum bókmenntum nýjar lendur. Bæði skáldsögur hans og leikrit á sjötta og sjöunda áratugnum bera þessari endurnýjun glögg merki, tilraunir hans með það sem við gætum ­ með örlítilli einföldun ­ kallað módernísk form og efni sýna hversu vel hann fylgdist með hræringum í heimsbókmenntunum.

Taoismi var Halldóri hugstæður á þessum árum. Eftir að hafa tekið við Nóbelsverðlaununum hélt hann í mikið ferðalag, meðal annars til Kína þar sem hann leitaði uppi Taomunka. Lesa má taoísk þemu úr flestum verka hans frá og með Brekkukotsannál til Guðsgjafaþulu (og jafnvel nokkrum eldri verkanna). Þær skáldsögur sem hér um ræðir einkennast raunar af togstreitu á milli þessarar leitar að eða rannsóknar á þessari lífspeki nægjusemi og hugarhægðar og leitar að nýju frásagnarformi. Í sumum þessara verka má raunar finna beina tengingu aftur til frásagnarháttar epíska raunsæisskeiðsins, eins og í Kristnihaldi undir Jökli og Innansveitarkroniku. Leikritin eru svo yfirleitt hreinar tilraunir með form og efni absúrdismans, en þar má helst nefna Strompleikarann (1961), Prjónastofuna sólina (1962) og Dúfnaveisluna (1966). Ein athyglisverðasta bók Halldórs á þessum tíma er svo ritgerðasafnið eða minningabókin, Skáldatími, sem kom út árið 1963, þar sem hann gerir upp við sósíalismann og Sovétríkin.

Brekkukotsannáll var fyrsta bók Halldórs eftir að hann fékk Nóbelsverðlaunin en í henni fjallar hann um samband skálds og þjóðar. Frægðin er til umfjöllunar og leitin að hinum hreina tón sem er óháður öllum vegtyllum. Niðurstaða aðalsöguhetjunnar, Garðars Hólm, af leit sinni er í taoískum anda eftir að hafa þegið fé af Gúðmúnsen kaupmanni: „Sá maður sem er einhvers virði eignast aldrei gimstein.“

Næsta skáldsaga Halldórs var Paradísarheimt sem kom út árið 1960 en þar er sögð saga bláfátæks íslensks bónda, Steins Steinssonar í Hlíðum undir Steinahlíðum, sem yfirgefur fjölskyldu sína og fósturland og flytur til sæluríkis mormóna í Ameríku. Ætlun hans og von er að finna þar Paradís á jörð en áður en yfir lýkur snýr hann aftur heim til Íslands. Bókin lýsir ekki síst hinni eilífu hamingjuleit mannsins sem virðist stangast á við alla heilbrigða skynsemi.

Kristnihald undir Jökli kom út árið 1968 og er af mörgum talin ein af bestu bókum Halldórs. Í henni má kannski finna róttækustu tilraunir Halldórs í átt að módernisma í skáldsagnaritun en bókin rífur hvað eftir annað af sér bönd skipulegrar frásagnar og byggingar. Sagan segir frá Umba, umboðsmanni biskups sem sendur er undir Jökul að kanna kristnihald þar. Úr þeiri ferð snýr hann ekki samur, ekki frekar en lesandi sögunnar.

Innansveitarkronika kom út árið 1970 og er ein sérkennilegasta skáldsaga Halldórs. Hún segir frá kirkjustríði í heimasveit skáldsins, Mosfellssveit, og er vafalaust ein þeirra sagna Halldórs sem á eftir að valda mönnum hvað mestum heilabrotum vegna sérstöðu sinnar.

Síðust eiginlegra skáldsagna Halldórs var Guðsgjafaþula sem kom út árið 1972. Sagan er aldarspegill og tekur til umfjöllunar atburði úr atvinnulífi og stjórnmálum samtíma Halldórs, í brennidepli er þó saga síldarinnar.

Ekki hægt að hugsa sér öldina án hans
Á árunum 1975 til 1980 skrifaði Halldór Laxness æskuminningar sínar í fjórum bindum er heita Í túninu heima, Ungur eg var, Sjömeistarasagan og Grikklandsárið. Í þessum bókum rifjar Halldór upp atburði og menn sem hann kynntist á fyrstu tuttugu árum ævinnar. Sjálfur kaus hann að kalla þessar bækur „essayroman“ en hvorki skáldsögu né æviminningar og bjó þar til nýtt bókmenntahugtak. Bækurnar segja tilurðarsögu skáldsins, og það á sannan hátt þótt ef til vill sé ekki alltaf farið kórrétt með staðreyndir; það er umfram allt í hugarfari og stíl orðanna, sem skáldið ritar um sjálft sig í þessum bókum, að tilurð þess verður ljós.

Eins og þessir „essayromanar“ eru hin fjölmörgu ritgerða- og greinasöfn sem Halldór sendi frá sér nokkurs konar hliðartextar eða hliðsjónartextar við skáldverk hans. Það er engan veginn hægt að ná utan um öll þau málefni sem Halldór lét sig varða í greinasöfnum sínum en segja má að þar sé fjallað í víðum skilningi um bókmenntir, heimspeki, stjórnmál og sögu. Síðasta bók Halldórs var einmitt greinasafnið Dagar hjá múnkum sem kom út árið 1987 og var að meginuppistöðu dagbók sem Halldór hélt á meðan hann dvaldist í klaustrinu í Clervaux 65 árum fyrr.

Þegar þetta víðfeðmi höfundarverks Halldórs er haft í huga er kannski hægt að gera sér grein fyrir þeim áhrifum sem hann hefur haft á íslenskt þjóðfélag bróðurpartinn úr öldinni. Og raunar er vart hægt að hugsa sér öldina án hans, og þá á það ekki aðeins við um bókmenntalegt líf aldarinnar. Það er raunar varla hægt að hugsa sér hver sjálfsmynd þjóðarinnar væri ef þessa manns hefði ekki notið við. Kannski við skynjum mikilvægi hans best í gegnum orð sænska fræðimannsins, Peters Hallbergs, sem gerst hefur ritað um Halldór Laxness og verk hans:

Halldór Laxness er ekki einungis fremsta skáld íslensku þjóðarinnar á þessari öld. Hann er jafnframt löngu orðinn einn helsti frömuður íslenskrar menningar yfirleitt. Ísland nútímans, eins og það hefur þróast frá lokum fyrri heimsstyrjaldar, endurspeglast óvenjuskýrt í margháttuðum ritverkum hans. Oft hefur staðið styr um hann. Sjaldnast hefur löndum hans staðið á sama um hann; margir hafa dáð hann, aðrir óttast hann.

Fá skáld önnur hafa lifað svo heils hugar örlög þjóðar sinnar og túlkað þau sjálf, og jafnframt reynt að hafa bein áhrif á framvindu þeirra. Án hans hefðu síðastliðin fimmtíu ár í sögu Íslands orðið allt önnur.

Kannski væri réttast að nota orð Halldórs sjálfs og segja að hann hafi verið tilfinning heimsins, að hjá þessari þjóð hafi hann verið hjartað í miðju alls.





© Morgunblaðið 1998.

Ritaskrá

Leiksýningar

Skáldskapurinn

Persónusköpun

Heimildir og sögusvið

Fleyg orð

Umsagnir vestra

Umsagnir í Þýskalandi

Umsögn í NY Review of Books