ATH.: Upplýsingarnar sem hér koma fram eru úreltar. Skoðið frekar Framúrskarandi fyrirtæki 2020.
263 Öldungur hf.
Stærðarflokkur Stórt
Röð innan flokks 186
Aðsetur Reykjavík
Landshluti Höfuðborgarsvæði
Atvinnugrein - meginfl. Heilbrigðis- og félagsþjónusta
Atvinnugrein - ítarfl. Dvalarheimili með hjúkrun
Framkvæmdastjóri Anna Birna Jensdóttir
Eignir 3.592.484
Skuldir 2.275.017
Eigið fé 1.317.467
Eiginfjárhlutfall 36,67%
Á listanum öll ár? Nei
Fyrri ár á listanum 2017
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Sóltúnsmódelið hefur gefið góða raun

„Þeir sem veljast í hjúkrunar- og umönnunarstörf eru fólk sem …
„Þeir sem veljast í hjúkrunar- og umönnunarstörf eru fólk sem vill umfram allt hjálpa öðrum. Gildir um það, eins og fólk í öllum öðrum störfum, að það vill gjarnan sjá árangur verka sinna,“ segir Anna Birna. Eggert Jóhannesson

Hingað til höfum við aðallega verið þekkt fyrir góða þjónustu og starfsemin komið vel út í gæðavísum. Er ánægjulegt að fá líka viðurkenningu fyrir að reksturinn gengur vel fjárhagslega,“ segir Anna Birna Jensdóttir, framkvæmdastjóri Öldungs og framkvæmdastjóri hjúkrunar í Sóltúni

Öldungur, sem rekur hjúkrunarheimilið Sóltún, er núna í annað skipti á lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki. Aðspurð hvers vegna félagið hafi ekki komist fyrr á lista segir Anna Birna að skýringin sé einkum að ráðist var í mikla fjárfestingu í húsnæði og öðrum búnaði við stofnun Öldungs og hafi tekið tímann sinn að komast yfir stærsta hjallinn:

„Félagið var stofnað árið 2000 til að taka þátt í útboði hjá ríkinu um byggingu og rekstur hjúkrunarheimilis í Sóltúni. Var það í fyrsta sinn sem ríkið leitaði eftir bjóðendum til að byggja og reka heilbrigðisþjónustu hér á landi. Útboðið var óvenjulegt að því leyti að ná líka yfir byggingu húsnæðisins en síðan þá hafa öll útboð af svipuðum toga aðeins náð til sjálfs rekstrarins,“ útskýrir Anna Birna.

Í sögu Öldungs hafa tvö stór áföll sett strik í reikninginn: „Þegar við fórum af stað voru engir bankar hér á landi sem veittu lán í verkefni af þessari stærðargráðu og þurfti því að leita að lánsfé erlendis. Þegar framkvæmdir voru hafnar réðust hryðjuverkamenn á Bandaríkin 11. september 2001 og hafði það lamandi áhrif á alla bankastarfsemi í Evrópu. Það var óþægileg staða að lenda í og torveldaði alla fjármögnun.“

Í Sóltúni dveljast 92 sjúklingar hverju sinni og er vel …
Í Sóltúni dveljast 92 sjúklingar hverju sinni og er vel hugsað um allar þarfir þeirra. Eggert Jóhannesson

Næsta áfall kom með fjármálahruninu: „Það hafði í för með sér stóran skell fyrir okkur og ruku bæði vextir og verðbætur upp. En við náðum að vinna okkur ágætlega út úr síðara áfallinu rétt eins og því fyrra.“

Starfsfólk fær að sjá árangur verka sinna

Í Sóltúni eru að staðaldri 92 íbúar og langflestir þeirra eldri borgarar sem koma beint af Landspítalanum, eru töluvert veikir og þurfa á sólarhringshjúkrun að halda. Að jafnaði þarf 114 stöðugildi til að reka hjúkrunarheimilið og eru starfsmenn á bilinu 210 til 240 talsins eftir árstímum. Starfsmannahópurinn er mjög fjölbreyttur og má í Sóltúni t.d. finna lækna og hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða, félagsliða, matartækna, sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa, snyrtifræðing og nuddara, að ógleymdum djákna og starfsfólki í umönnun, eldhúsum og ræstingu.

Anna Birna segir launakostnað langstærsta útgjaldaliðinn og eins og aðrar heilbrigðisstofnanir þurfi að gæta vandlega að því að laða að og halda í gott fólk. Þar hafi reynst vel að fylgja ákveðinni hugmyndafræði sem fengið hefur nafnið Sóltúnsmódelið:

„Þeir sem veljast í hjúkrunar- og umönnunarstörf eru fólk sem vill umfram allt hjálpa öðrum. Gildir um það, eins og fólk í öllum öðrum störfum, að það vill gjarnan sjá árangur verka sinna. Umgjörð starfseminnar tekur mið af þessu og þeir sem hér vinna finna að þeim tekst að skapa vellíðan hjá íbúum okkar. Þýðir þetta að starfsánægja er meiri og leiðir það af sér að reksturinn gengur betur.“

Samningar Öldungs og ríkisins eru m.a. tengdir við þá þróun sem á sér stað á vinnumarkaði og lítið sem ekkert svigrúm til að ætla að greiða hærri laun en gengur og gerist. „Við getum ekki farið í samkeppni um að borga hæstu launin, en sem vinnuveitandi getum við stjórnað því hvaða hæfni fólk þarf að hafa til að bera til að fá hér starf, og höfum við markað þá stefnu að ráða frekar vel hæft fólk með framhaldsmenntun, sérhæfingu og mikla reynslu en að velja ódýrasta starfskraftinn sem hægt er að fá hverju sinni. Það er nefnilega, þegar allt kemur til alls, ekki alltaf hagkvæmast að ráða ódýrasta starfsfókið.“

Umræðan stundum á villigötum

Reglulega blossar upp umræða um kosti og galla einkareksturs í heilbrigðiskerfinu og margir sem hafa sterkar skoðanir á málaflokknum. Anna Birna segir að útbreiddar ranghugmyndir eigi það til að lita umræðuna og skekkja.„Sumir óttast að með því að láta einkaaðila annast tiltekinn rekstur geti orðið til tvískipt heilbrigðiskerfi þar sem þeir efnameiri geta borgað sig fram fyrir biðraðirnar. Þetta hefur þó ekki gerst þrátt fyrir að stór hluti af heilbrigðisþjónustu á Íslandi sé í höndum einkarekinna stofnana og sjálfstætt starfandi sérfræðinga,“ segir Anna Birna og minnir á að t.d. flestir tannlæknar og stór hluti sjúkraþjálfara starfi með þessum hætti.

„Ef við skoðum söguna þá á þjóðin, þvert á móti, heilmikið að þakka einkaframtaki í heilbrigðismálum, og voru mörg stærstu framfaraskrefin stigin af fólki í grasrótinni sem tók höndum saman til að hjálpa þeim sem áttu um sárt að binda.“

Eðlilegt er að rekstur heilbrigðiskerfisins sé ræddur og ýmsar leiðir skoðaðar en Anna Birna myndi óska þess að einkarekstur fengi að njóta sannmælis. „Of algengt er að umræðan snúist upp í að það sé eitthvað ljótt við einkarekstur heilbrigðisþjónustu. Sendir það núverandi og verðandi starfsfólki óskemmtileg skilaboð og talar niður mjög mikilvæga og hagkvæma hlið heilbrigðiskerfisins.“

mbl.is

Fleiri greinar og viðtöl