ATH.: Upplýsingarnar sem hér koma fram eru úreltar. Skoðið frekar Framúrskarandi fyrirtæki 2020.
236 Vinnuföt, heildverslun ehf
Stærðarflokkur Meðalstórt
Röð innan flokks 62
Aðsetur Kópavogur
Landshluti Höfuðborgarsvæði
Atvinnugrein - meginfl. Heild- og smásöluverslun, viðgerðir á vélknúnum ökutækjum
Atvinnugrein - ítarfl. Heildverslun með fatnað og skófatnað
Framkvæmdastjóri Árni Arnarson
Eignir 409.758
Skuldir 157.224
Eigið fé 252.534
Eiginfjárhlutfall 61,63%
Á listanum öll ár?
Fyrri ár á listanum 2010–2017
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Höfum lært mikið af álverunum

„Við vorum mjög stór hjá Alcoa í Noregi fram til …
„Við vorum mjög stór hjá Alcoa í Noregi fram til 2016. Þeir sneru sér annað, en ég er ekki búinn að gleyma þeim," segir Árni. mbl.is/Árni Sæberg

Vinnufataverslunin Vinnuföt í Bæjarlind í Kópavogi er eitt 70 fyrirtækja á landinu sem verið hafa framúrskarandi frá upphafi. Hvaða þýðingu hefur það?
„Þetta auðveldar viðskipti við erlenda aðila varðandi lánstraust. Þér er betur treyst í viðskiptum,“ segir Árni Arnarson, framkvæmdastjóri og eigandi fyrirtækisins, í samtali við Morgunblaðið.

Hann segir að Vinnuföt eigi í viðskiptum við birgja vítt og breitt um heiminn. „Sem dæmi um þýðingu þess að vera framúrskarandi er að áður vorum við kannski í staðgreiðslu hjá ákveðnum aðilum en erum í dag komin með 60 daga greiðslufrest. Það skiptir miklu máli þegar vara er til dæmis flutt langa leið, að þurfa ekki að leggja út fyrir henni löngu áður en hún kemur til landsins, þar sem þú ert svo kannski sjálfur að lána þínum viðskiptavinum líka.“

Stærstu viðskiptalönd Vinnufata eru Svíþjóð, sem er langstærst, Danmörk, Ítalía, Kanada og Þýskaland.

„Við leitum til mismunandi landa eftir mismunandi vörum. Kanadamenn eru bestir í skóm fyrir álver til dæmis. Þeir virðast vera þeir einu sem geta gert skó sem virka fyrir þá starfsemi. Við seljum allri stóriðjunni hér á landi sömu tegundina af skóm.“
Vinnuföt láta ekki þar við sitja, heldur selja sömu skóna einnig til Skotlands. „Við erum með skoskt álver í viðskiptum, því það er ekkert annað fyrirtæki með lager af þessum skóm í Evrópu.“

Úr verslun Vinnufata.
Úr verslun Vinnufata. mbl.is/Árni Sæberg

Nota 1,1 skópar á ári

Spurður um endingu á svona skóm segir Árni að meðaltali sé keypt 1,1 skópar á ári á starfsmenn stóriðjunnar. „Sumir endast í 10 mánuði, en aðrir í 14 mánuði,“ útskýrir Árni.

Miklar öryggiskröfur eru gerðar í álverum. Árni segir að Vinnuföt hafi lært mest á öryggismál með því að vinna með álverunum. „Þau gera mestar öryggiskröfur af öllum. Við þjónustum í dag öll íslensku álverin með allan fatnað, og langmest af öryggisbúnaði einnig, eins og öryggisgleraugum og hjálmum. Við höfum verið leiðandi ansi lengi á því sviði.“
Hann segir að sérframleiða þurfi fötin fyrir hvert og eitt álver. „Við látum sauma fyrir okkur í Svíþjóð. Ekkert álveranna hér á landi er með fatnað í sama lit.“

Spurður að því hvort Vinnuföt séu með lagera í álverunum sjálfum segir Árni að lager sé af fatnaði þeirra hjá Alcoa Fjarðaáli og einnig eigi þeir allan lager af fötum hjá Rio Tinto. „Samningar eru svo endurnýjaðir á 2-3 ára fresti. Við erum annars búnir að þjónusta Alcoa Fjarðaál frá stofnun, og Norðurál í öll árin nema eitt. Við höfum einnig haft Ísal í viðskiptum frá því Vinnuföt voru stofnuð.“

Vinnuföt eru með verktaka á Reyðarfirði sem sér um utanumhald lagersins á staðnum. „Þeir halda utan um þetta og við gerum svo reikning fyrir notkuninni.“
En Vinnuföt eru með fleiri viðskiptavini en bara álver. Að sögn Árna eru öll slökkvilið landsins í fötum frá Vinnufötum. Þá sér fyrirtækið um allan sjúkraflutningafatnað á landinu, og einnig er fyrirtækið stórt í ferðageiranum. „Við erum með til dæmis öll rútubílafyrirtækin, og höfum vaxið talsvert í byggingargeiranum.“

Þá eru ótalin nánast öll sveitarfélög landsins, þar með talin Reykjavíkurborg og Akureyrarbær. Einnig eru stórfyrirtæki eins og Marel og Össur í viðskiptum. „Viðskiptavinalistinn er ótrúlega góður.“

Árni segir að öll föt séu seld. Leiga er ekki í boði. „Þvottahús hafa stundum verið að velta fyrir sér hvort að hægt væri að leigja út fatnað, eins og tíðkast til dæmis í Svíþjóð. En ég held að markaðurinn hér sé of lítill fyrir slíkt.“

Fleiri egg í körfunni

Frá hruni hefur breiddin aukist í viðskiptavinahópnum. „Fyrst eftir hrun voru álverin alltof stór hluti af heildinni, en nú er mun meiri breidd. Nú eru álverin kannski 20-25% af heildarveltunni samtals, en fljótlega eftir hrun voru þau hátt í 50% af veltunni. Þar með voru eggin of fá í körfunni.“

Tekjur Vinnufata voru rúmar 800 milljónir króna á síðasta ári. Árni segir að fyrirtækið vaxi um 10-15% á ári og hafi gert um nokkra hríð. „Við ætlum okkur að nálgast milljarðinn á þessu ári. Í fyrra var verðhjöðnun, en árið á undan var veltan meiri, eða yfir 900 milljónir króna. Gengið var það hagstætt í fyrra, að þá lækkaði verð verulega. Við vorum með töluverða aukningu í magni, en færri krónur. Nú verðum við með aukningu í krónum aftur miðað við síðasta ár, en höfum kannski minna upp úr því út af flökti krónunnar.“

Árni segir að erfitt sé að átta sig á markaðshlutdeild Vinnufata, því margir séu á markaðnum. „Maður veit ekki hvort maður sé með 30% eða 40%. Það eru fyrirtæki eins og Byko, Húsasmiðjan, Ísfell, Wurth og Sindri Vinnuföt þarna líka.“

Um forsögu fyrirtækisins segir Árni að félagið hafi verið stofnað árið 2000. Sagan sé þó lengri en það. „Við hjónin höfum unnið saman í sölu á vinnufatnaði frá árinu 1986. Ég stofnaði Hexa vinnufatabúð á sínum tíma, en það var eitt stærsta fyrirtækið á þessum markaði. Ég seldi minn hlut þar árið 1996.“

Fjölskyldufyrirtæki

Vinnuföt eru sannkallað fjölskyldufyrirtæki með níu manna starfslið. Flestir starfsmenn tengjast einhverjum fjölskylduböndum. Er það gott rekstrarform?
„Já, það virkar mjög vel. Við vorum til dæmis fyrirtæki ársins hjá VR í mörg ár í röð. Ég legg áherslu á sveigjanlegan vinnutíma, og að leyfa fólkinu að njóta góðs af því þegar vel gengur.“
Árni segir að auk fastra starfsmanna þá sé verkefnum einnig úthýst. „Við úthýsum hlutum eins og merkingum. Ef við gerðum það innanhúss þá þyrftum við fjóra starfsmenn til viðbótar.“

Hvað framtíðina varðar segir Árni að aðalmálið sé að halda núverandi viðskiptavinum og gera vel við þá. „Ég held að allir séu sáttir við u.þ.b. 5% vöxt ár frá ári. Það er eðli manns að reyna að standa sig í samkeppninni, og gefa ekkert eftir og vera á tánum.“

Hann segir að auk þess að selja í Skotlandi séu tækifæri í Noregi. „Við vorum mjög stór hjá Alcoa í Noregi fram til 2016. Þeir sneru sér annað, en ég er ekki búinn að gleyma þeim,“ segir Árni og brosir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Fleiri greinar og viðtöl