ATH.: Upplýsingarnar sem hér koma fram eru úreltar. Skoðið frekar Framúrskarandi fyrirtæki 2020.
363 Hreyfing ehf.
Stærðarflokkur Meðalstórt
Röð innan flokks 142
Aðsetur Reykjavík
Landshluti Höfuðborgarsvæði
Atvinnugrein - meginfl. Menningar-, íþrótta- og tómstundastarfsemi
Atvinnugrein - ítarfl. Heilsu- og líkamsræktarstöðvar
Framkvæmdastjóri Ágústa Þóra Johnson
Eignir 438.320
Skuldir 81.508
Eigið fé 356.812
Eiginfjárhlutfall 81,4%
Á listanum öll ár? Nei
Fyrri ár á listanum 2017
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Ræktin sé þinn þriðji staður

„Tölurnar sýna að við Íslendingar stundum líkamsræktarstöðvarnar meira en nágrannaþjóðir …
„Tölurnar sýna að við Íslendingar stundum líkamsræktarstöðvarnar meira en nágrannaþjóðir okkar," segir Ágústa. Eggert Jóhannesson

Hreyfing heilsulind fagnar 20 ára starfsmæli sínu í ár og hefur tvö ár í röð verið á lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki. Ágústa Johnson, framkvæmdastjóri Hreyfingar, hefur upplifað ólíka tíma í faginu. Hún stofnaði Eróbikk-Stúdíó árið 1986 þar sem starfsemin einkenndist af hoppi og hamagangi í litlum 200 fermetra sal. Árið 1998 sameinaðist stúdíóið heilsuræktarstöðinni Mætti undir merkjum Hreyfingar sem fluttist í nýtt húsnæði í Glæsibæ árið 2008 og hóf þá einnig rekstur heilsulindar í samstarfi við Bláa lónið.

Ágústa segir aðspurð að það sé mikil viðurkenning fyrir fyrirtækið að vera á lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki og það sé ánægjulegt fyrir starfsfólkið.

„En fyrst og fremst erum við stolt af því að vera í þessum hópi traustra og góðra fyrirtækja á Íslandi,“ segir Ágústa.

Viðurkenningin er fyrir rekstrarárið 2017 sem gekk vel að sögn Ágústu. „Það gekk bara mjög vel og er besta ár félagsins frá upphafi. Það hefur verið stöðugur vöxtur á fyrirtækinu síðastliðin ár og gengur alltaf betur og betur með hverju ári,“ segir Ágústa en rekstrartekjur fyrirtæksins í fyrra námu tæpum 750 milljónum króna.

Bylting átt sér stað

Ágústa hefur verið í heilsuræktargeiranum í 32 ár og segir að gríðarleg þróun hafi átt sér stað frá því að hún stofnaði Eróbikk-Stúdíó árið 1986. „Það hefur orðið gríðarleg þróun síðan þá. Á þeim tíma voru líkamsræktarstöðvar í rauninni bara litlir salir með hóptímum og litlum tækjasölum. Það hefur náttúrlega átt sér stað algjör bylting. Það sem er ánægjulegast er hvað ástundun líkamsræktar er orðin almenn á Íslandi,“ segir Ágústa og heldur áfram:

„Tölurnar sýna að við Íslendingar stundum líkamsræktarstöðvarnar meira en nágrannaþjóðir okkar. Það er kannski fyrst og fremst út af veðráttunni að við sækjum meira í að æfa inni stóran hluta ársins en það snýr líka að því hvernig Íslendingar eru. Það hefur lengi verið hér ákveðinn samfélagsþrýstingur á að stunda ræktina. Það þekkja allir alla og þetta verður kannski viðtekið,“ segir Ágústa.

Úr móttöku Hreyfingar.
Úr móttöku Hreyfingar. mbl.is/Ragnar Axelsson

Hún segir að brottfall sé minna um þessar mundir, sér í lagi á sumrin en áður fyrr mætti varla neinn á þeim tíma að hennar sögn. Kunnug stef um nokkurra vikna átök fólks eru þó enn þekkt.

„Það er alltaf brottfall en það hefur minnkað gríðarlega. Þegar ég var í þessum bransa á árum áður var til dæmis eiginlega ekkert að gera yfir sumarmánuðina. Núna er þetta gjörbreytt. Hins vegar er ennþá svolítið um það að fólk líti á heilsurækt sem einhverja skammtímalausn, rjúki í ræktina í nokkrar vikur, hætti og byrji aftur, og endurtaki svo sama mynstrið. En fólk lærir af þessu og sér að þetta skilar afskaplega litlu. Heilsurækt er lífsstíll og langtímaverkefni,“ segir Ágústa.

Stöðugar nýjungar

Hún segir að nokkur þróun hafi orðið á æfingunum sjálfum frá því að hún hóf störf og töluvert meira sé í boði en eróbikk og hoppið og hamagangurinn sem því fylgdi.

„Þróunin snýr aðallega að því að fjölbreytileikinn verður æ meiri. Hér áður var heilsuræktin frekar einhæf með fáum valmöguleikum; tækjasalur eða hóptímar með miklu hoppi og hamagangi. Í dag er allt milli himins og jarðar í boði þannig að það er eitthvað fyrir alla. Það er það sem þessi bransi hefur gengið út á síðastliðna áratugi; að bjóða sífellt upp á fjölbreytta valmöguleika til þess að fá fleiri til að stunda heilsurækt og hreyfa sig,“ segir Ágústa og nefnir að fjölbreyttir valmöguleikar séu lykillinn að því að halda viðskiptavinunum ánægðum og stuðla að því að þeir nái markmiðum sínum.

Úr Hreyfingu í Glæsibæ.
Úr Hreyfingu í Glæsibæ. Haraldur Jónasson/Hari

„Það sem við höfum lagt áherslu á í Hreyfingu er fyrst og fremst að bjóða upp á framúrskarandi gæði í þjónustunni og vera stöðugt með nýjungar. Við bjóðum upp á gríðarlega mikið af námskeiðum sem eru feikilega vinsæl hjá okkur og hafa verið síðastliðin 20 ár. Það eru alls kyns mismunandi áherslur og samsetningar á æfingum og hvert námskeið hefur sérstakt markmið. Þá finnur fólk eitthvað sem hentar því,“ segir Ágústa en nefnir þó einnig mikilvægi félagslega þáttarins í Hreyfingu.

Félagsleg upplifun

„Áherslan í Hreyfingu er kannski eilítið önnur en á öðrum líkamsræktarstöðvum að því leytinu til að við leggjum áherslu á að þetta sé þinn þriðji staður; heimilið þitt, vinnustaðurinn og heilsuræktarstöðin þín. Við reynum að stuðla að því að gestir okkar hugsi heildrænt um heilsuna, mæti ekki eingöngu til að lyfta lóðum heldur líka til að fara í pottana, nýta aðstöðuna í heilsulindinni og hitta félagana. Við leggjum upp úr því að vera með notalega klúbbstemningu, ekki bara sal til að lyfta lóðum. Þetta er félagsleg upplifun sem á að vera ánægjuleg og notaleg,“ segir Ágústa.

„Það eru alltaf fleiri og fleiri sem setja heilsuna í forgang. Fólk sér ekki eftir því að fjárfesta í líkamanum þar sem það vinnur markvisst í ræktinni, er með þjálfara, markmið og gerir þetta af skynsemi. Sem er afar ánægjulegt,“ segir Ágústa.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Fleiri greinar og viðtöl