Heimasíða

Leiðangursmenn

Dagbók

Greinar

Kort af leiðinni

Útbúnaður

Fjallið

Gestabók

Styrktaraðilar

 
Dagbók leiðangursmanna
Pistill 7. apríl
Við lögðum af stað kl. 6 í morgun og var stefnan sett upp Khumbu ísfallið og upp í búðir 2. Eftir um klukkutíma gang komum við að fyrstu sprungunum sem brúaðar voru með stigum. Við höfðum æft okkur áður í að skríða yfir stigana en ákváðum nú að karlmannlegra væri að reyna að labba yfir þá í mannbroddunum. Við vorum óöruggir yfir fyrstu stigana en eftir því sem stigunum fjölgaði batnaði tækni okkar og á endanum hægðu stigarnir lítið á okkur, þrátt fyrir að sumar sprungurnar væru fleiri tugir metra á dýpt og allt að þrír til fjórir stigar væru bundnir saman til að ná á milli sprungubarmanna. Leiðin var stórfengleg. Þræðir hún fram og aftur um jökulinn og endar í um 25 m slúttandi jökulstáli þar sem búið er koma fyrir löngum stiga svo hægt sé að komast upp. Frá síðasta stiganum tekur það um 40 mín að komast að búðunum upp í dalnum, en þær eru í um 6.100 m hæð. Það tók okkur um 4 tíma að komast upp í búðirnar frá grunnbúðum og vorum við býsna ánægðir með þann árangur okkar. Við stoppuðum ekki lengi við, tókum nokkrar myndir og virtum fyrir okkur nágranna Everest, Lhotse sem gnæfir yfir sunnanverðum dalnum. Að lokum var það bakandi sólin sem rak okkur niður í grunnbúðir, enda var það ekki tilgangurinn að dvelja lengi í þessari hæð, heldur að kynnast leiðinni og aðlagast hæðinni. Samt er nú mikill áfangi að baki, við höfum nú farið upp allt Khumbu ísfallið og er ljóst að þessi fyrsta torfæra verður okkur ekki farartálmi á meðan aðstæður breytast ekki.

Þegar við komum niður vonuðumst við eftir að búnaðurinn okkar yrði kominn en sú varð ekki raunin. Ef hann kemur ekki á morgun fer það að tefja fyrir aðlöguninni hjá okkur því við getum ekki sofið ofar en í grunnbúðum í léttu sumarpokunum okkar.

Efst

6. apríl í grunnbúðum

Í dag var hvíldardagur hjá okkur. Við eyddum deginum í að höggva út palla í ísinn fyrir tjöldin okkar sem við vonuðumst eftir að kæmu í dag, en það varð ekki raunin. Í nótt var um 20 gráðu frost og biðin eftir vetrarbúnaðinum er orðin köld og löng. Við settum upp sólarorkuspjöldin og erum farnir að hlaða allan tækjabúnað með þeim þar sem straumbreytarnir sem við vorum með brunnu upp í gær. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að litla Hondan er að skila 370 voltum sem er heldur meira en okkar tækjabúnaður þoldi.

Efst

Grunnbúðir 5. apríl
Morguninn var bjartur og fagur þegar Einar, Hallgrímur og Björn fóru í könnunar- og aðlögunarferð upp í Khumbu ísfallið. Leiðin hefur verið undirbúin að nokkru leyti af sherpum sem hingað voru komnir og búið að finna illskárstu leiðina og setja stiga yfir stærstu sprungurnar.
Ekki var hægt að komast upp allt ísfallið þar sem hluti leiðarinnar hrundi saman í fyrradag og ekki búið að brúa sprungurnar aftur. Ekkert kom stórlega á óvart í ísfallinu en stigarnir voru það grannir að eina leiðin til komast yfir þá var að skríða á fjórum fótum. Um hádegisbil dró yfir og seinnipartinn fór að snjóa og snjóar nú grimmt. Það er ljóst að þessa dagana þarf að leggja snemma af stað ef dagarnir eiga að nýtast.

Efst

Grunnbúðum á Everest 4. apríl
Dagurinn hefur liðið í rólegheitum hér hjá okkur í grunnbúðunum. Hallgrímur, Björn og Einar fóru í göngu upp eftir hrygg rétt ofan við búðirnar í aðlögunarskyni en Jón og Hörður notuðu daginn m.a. til að bæta aðstöðuna hér í búðunum. Klifurbúnaðurinn hefur ekki enn borist okkur en það er stefnt að því að deila þeim búnaði sem til er á morgun og fara að fikra sig upp Khumbu ísfallið, fyrstu torfæruna á leiðinni upp Everest. Hingað eru þegar komnir nokkrir leiðangrar sem hafa slegið upp tjöldum hér allt í kring. Við erum ekki búnir að átta okkur á þeim öllum en það skýrist allt á næstu dögum. Veðrið er ekki gott, snjómugga í allan dag.

Efst

Grunnbúðum á Everest 3. apríl
Jæja, hingað erum við loksins komnir eftir 10 daga göngu og 13 daga ferðalag. Nú er fyrsta áfanga leiðangursins lokið og við tekur glíman við fjallið. Það er ákveðinn léttir að vera komnir hingað og geta tekist á við verkefni sem hefur verið svo lengi í undirbúningi. Annars hefur gangan hingað verið mjög ánægjuleg, stórkostlegt landslag og framandi en skemmtileg menning.

Dagleiðin var stutt í dag, aðeins nokkrir kílómetrar og hækkunin var innan við 200 m. Samt var ekki laust við að orð Tómasar kæmu upp í hugann: Urð og grjót, upp í mót, ekkert nema urð og grjót. Jökulruðningarnir hingað síðustu kílómetrana voru vægast sagt stórgrýttir og erfiðir yfirferðar. Nú höfum við kvatt síðustu mosatægjurnar og umhverfis okkur er heimur íss og kulda. Sherparnir voru komnir hingað á undan okkur og voru búnir að setja upp nokkur tjöld, eldhústjald, matar- og samkomutjald, kamar og nokkur svefntjöld. Okkar beið heitur matur og te og hlýlegt viðmót sherpanna. Ekki veitti af því það var ekki laust við að við fyndum fyrir höfuðverk enda komnir vel yfir 5.000 m. Hér hittum við loks síðasta leiðangursmanninn, Mexíkana Hugo að nafni. Við eigum von á því að klifurbúnaðurinn komi til okkar eftir nokkra daga og þá getur glíman við Kumbu-ísfallið hafist. Það hefur snjóað allan seinni partinn og við vonum að veðrið fari að skána.

Efst

Gorakshep, 2. apríl, 5.170 metrar
Það var stutt ganga hjá okkur í dag, aðeins 2-3 tímar. Það var bjart í morgun og ægifagurt. Snarbrattar hlíðar Nuptse, 7.861 metri, blöstu við hinum megin dalsins, auk ótal 6.000 metra hárra tinda út um allt. Eftir nokkra göngu birtist Pumori, 7.165 metrar, á vinstri hönd, en það er hrikalegt þríhyrningslaga fjall sem freistað hefur margs fjallamannsins. Það var því nóg að skoða, spá og spekúlera. Stærðin á öllu hér er slík að erfitt er að lýsa því. Maðurinn verður lítill á milli fjallarisanna. Það er líka erfitt að festa stærðina á filmu því það næst bara eitt fjall í einu.
Skyndilega sást í klettóttan toppinn á takmarkinu yfir hrygginn á Nuptse. Sjálft Everest lét loksins sjá sig. Þangað er hins vegar langur vegur enn og margra vikna strit.
Í nótt gistum við á stað sem kallast Gorakshep. Hér eru aðeins fjögur hús og hér er dýrustu matvöru í Nepal að finna. 650 ml. flaska af bjór kostar 300 kr. og þykir stjarnfræðilega dýrt. Kókið er á 200 kr., en góður kvöldverður fæst á 100-200 kr. og frumstæð gistingin er á 35 kr. Þetta er síðasti gististaðurinn áður en við komum í grunnbúðir, þaðan sem klifrið loksins hefst og birgðum er safnað saman. Það er því að ljúka þessari göngu okkar upp fjalladalinn Nepal og alvaran er að hefjast.

Efst

Lobuche, 1. apríl, 4.930 metrar
Í dag gengum við allir fimm á Everest, en fyrst yfirgáfum við notalegan Sherpaskálann í Dingboche og héldum áfram ferð okkar ofar í fjöllin. Við gengum næst upp eftir Khumbu skriðjöklinum og nafnið minnti okkur á að nú fer að styttast. Nuptse blasir við fyrir ofan okkur, næsti nágranni Everest. Lobuche er örsmátt og óhrjálegt þorp og aðstaðan orðin allfrumstæð. Við erum farnir að hlakka til að komast í Base Camp þar sem okkar eigin Sherpar elda ofan í okkur og við sofum í eigin tjöldum. Hallgrímur er orðinn miklu skárri af niðurgangnum eftir holl ráð gærdagsins og Jón „lík" sýndi af sér mikla hörku og lét sig hafa það að koma upp í hæð sem er 100 metrum ofar en Mt Blanc þrátt fyrir veikindi.

Efst

 

© 1997 Morgunblaðið
Allur réttur áskilinn