ATH.: Upplýsingarnar sem hér koma fram eru úreltar. Skoðið frekar Framúrskarandi fyrirtæki 2020.
732 Nesradíó ehf
Stærðarflokkur Lítið
Röð innan flokks 167
Aðsetur Reykjavík
Landshluti Höfuðborgarsvæði
Atvinnugrein - meginfl. Framleiðsla
Atvinnugrein - ítarfl. Framleiðsla á raf- og rafeindabúnaði í vélknúin ökutæki og hreyfla þeirra
Framkvæmdastjóri Jónína Guðrún Jónsdóttir
Eignir 104.049
Skuldir 43.299
Eigið fé 60.750
Eiginfjárhlutfall 58,39%
Á listanum öll ár? Nei
Fyrri ár á listanum 2017
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Þjónustan skapar samkeppnisforskotið

Jónína Guðrún Jónsdóttir framkvæmdastjóri Nesradíós.
Jónína Guðrún Jónsdóttir framkvæmdastjóri Nesradíós. mbl.is/Hari

Það sést á rekstri Nesradíós hvað Íslendingum er mörgum annt um bílinn sinn, vilja hafa hann vel tækjum búinn og gera að sínum eigin griðastað. „Ástæðan fyrir því að svo margir vilja hafa vandaða hátalara og öflug bassabox í bílunum sínum er að það er á bak við stýrið sem þeir hafa besta tækifærið til að hlusta á sína uppáhaldstónlist í friði, án þess að einhver segi þeim að lækka eða skipta um lag,“ segir Jónína Guðrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækisins.

Nesradíó er fjölskyldufyrirtæki og fagnaði 30 ára afmæli í fyrra. Í dag er fyrirtækið þekktast fyrir að bjóða upp á mikið úrval radarvara og hljómflutningstækja fyrir bíla en reksturinn varð til í kringum þjónustu við leigu- og sendibíla og enn þann dag í dag eru leigubílstjórar mikilvægur viðskiptavinahópur: „Guðmundur Ragnarsson stofnaði fyrirtækið og hann er enn burðarstólpinn í félaginu. Guðmundur vann á sínum tíma hjá Öryrkjabandalaginu sem þá framleiddi íslenska gjaldmæla, og svo fór að Guðmudur keypti af því þann rekstur,“ útskýrir Jónína Guðrún. „Fyrirtækið hefur þróast í gegnum árin, bæði í kringum þjónustu við sendi- og leigubílastöðvarnar og líka í kringum innflutning á raftækjum fyrir bifreiðar. Er nú svo komið að við erum umfangsmikil í innflutningi og flytjum sjálf inn u.þ.b. 80% af þeim vörum sem við seljum.“

Hærri sektir auka sölu

Jónína Guðrún segir einfaldast að lýsa Nesradiói sem „12 volta fyrirtæki“. „Búnaðurinn sem við seljum gengur á 12 eða 24 volta rafkerfum bílanna, frá hljóðkerfum og leiðsögukerfum yfir í talstöðvar og símbúnað,“ útskýrir hún og bendir á ýmsa þætti sem hafa áhrif á það hversu lífleg viðskiptin geta verið: „Það jók t.d. stórlega eftirspurnina eftir radarvörum þegar hraðasektir voru hækkaðar fyrr á árinu. Það sama mátti segja um sölu á blátannar-útvörpum, þegar innleiddar voru háar sektir fyrir að tala í farsíma í akstri. Ef það getur kostað 40.000 kr. að hringja heim til að fá að vita hvort steikin verður með brúnni eða bernaise þá er það heldur betur peninganna virði að fjárfesta í búnaði til að tala í símann handfrjálst.“

mbl.is/Hari

Fólk sem vinnur við akstur þekkir líka vel hvernig það getur stytt vinnudaginn að hlusta á skemmtilega tónlist eða áhugaverða þætti í útvarpinu. Jónína segir íslensk fyrirtæki gæta þess vel að hljómflutningstæki í trukkum og vinnuvélum séu í góðu lagi. „Hvort sem um er að ræða sendibíla eða stóra trukka þá er oft komið með þá til okkar til að koma fyrir öflugum græjum og bassaboxum svo að ökumannsrýmið verði eins og besti hljómleikasalur.“

Endurnýja ekki útvörpin svo glatt hjá umboðunum

Það getur glætt viðskiptin hjá Nesradíói þegar hægir á bílamarkaði, en hjálpar líka ef sala á nýjum bílum er lífleg. „Þegar Íslendingar kaupa bíla hafa þeir sjaldan þolinmæðina til að bíða í allt að 3-6 mánuði eftir því að fá bílinn sérpantaðan eftir eigin óskum. Þeir taka því þann bíl sem er fáanlegur hjá bílaumboðinu en koma til okkar til að fá hljómtækin sem þá dreymir um. Við erum með lausnir frá framleiðendum eins og Alpine sem þeir kalla „Car by Car“ þar sem búið er að hanna afþreyingar- og leiðsögukerfið gagngert fyrir hverja tegund af bíl. Þá er oftast auðvelt að koma nýjum tækjum og hátölurum fyrir í algengustu gerðum eldri bíla.“
Þeir sem eru á eldri bílum vilja oft ekki gefa ökutækið upp á bátinn bara vegna þess að það vantar leiðsögukerfi eða útvarpið er farið að gefa sig. „Bílaútvörp geta bilað eins og allt annað en ekki endilega víst að umboðið geti útvegað útvarpið í 10 eða 15 ára gamlan bíl, og má allt eins reikna með að tækið sé óhóflega dýrt miðað við aldur bílsins,“ segir Jónína Guðrún. „Þá kemur fólk frekar til okkar, við björgum því yfirleitt á hálftíma með fullkomið afþreyingar- og leiðsögukerfi. Viðskiptavinurinn getur ekið af stað með Iron Maiden á fullum styrk, brosandi allan hringinn – þá er björninn unninn.“

Keppa við erlendar verslanir

Nesradíó rataði tiltölulega nýlega á lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki og upplýsir Jónína Guðrún að árin eftir hrun hafi reksturinn alls ekki verið neinn dans á rósum. Samkeppnin er hörð og því þurfa stjórnendur og starfsmenn að hafa sig alla við: „Það má ekki gleyma hversu afskaplega erfitt það var að fást við afleiðingar fjármálahrunsins. Á einni nóttu hækkaði allt um 100% og veltan dróst saman um 30-50% hjá flestum fyrirtækjum,“ segir hún og bætir við að sem betur fer hafi Nesradíó ekki verið skuldsett og haft straumlínulagðan rekstur þegar höggið kom.

mbl.is/Hari

Tollaumhverfið hefur farið batnandi en samhliða uppgangi í efnahagslífinu segir Jónína að samkeppnin við erlendar verslanir fari harðnandi. „Þó tollar hafi verið lækkaðir töluvert þá situr eftir hár virðisaukaskattur og sumir nota tækifærið í utanlandsferðum til að fara í næstu raftækjaverslun, kaupa hljómtæki í bílinn og koma með heim í handfarangrinum. Kemur jafnvel fyrir að fólk sé svo kræft að hringja til okkar að spyrja hvaða tæki væri sniðugast að kaupa í útlandinu.“

Í þessu umhverfi segir Jónína að góð þjónusta sé það sem gefi Nesradíói samkeppnisforskot: „Uppsetning er innifalin í verði þeirra útvarpstækja sem við seljum og hefur alltaf verið, auk þess sem tæki frá Alpine eru með þriggja ára ábyrgð. Starfsmenn á verkstæði okkar eru líka vel menntaðir og veitir ekki af: Tæknin í bílunum verður æ flóknari og mikilvægt að menn kunni til verka.“

Enn beðin um að gefa samband við báta

Það blasir ekki endilega við hvers vegna fyrirtækinu var gefið nafnið Nesradíó. Eldri lesendur ættu að kannast við loftskeytastöð með sama nafni sem starfrækt var á Austfjörðum út 9. áratuginn en Jónína segir nafnið ekki hafa verið fengið að láni þaðan.
„Enn þann dag í dag gerist það að fólk hringir og biður okkur að gefa þeim samband við bát á miðunum,“ segir Jónína glettin.

„Guðmundur vildi síður stofna fyrirtæki sem bæri nafnið hans en í staðinn varð úr, eftir að hafa flett í símaskránni heima við eldhúsborðið á Nesbala, að velja einfaldlega nafnið Nesradíó.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Fleiri greinar og viðtöl