ATH.: Upplýsingarnar sem hér koma fram eru úreltar. Skoðið frekar Framúrskarandi fyrirtæki 2020.
49 Vörður tryggingar hf.
Stærðarflokkur Stórt
Röð innan flokks 49
Aðsetur Reykjavík
Landshluti Höfuðborgarsvæði
Atvinnugrein - meginfl. Fjármála- og vátryggingastarfsemi
Atvinnugrein - ítarfl. Skaðatryggingar
Framkvæmdastjóri Guðmundur Jóhann Jónsson
Eignir 19.997.498
Skuldir 13.790.532
Eigið fé 6.206.966
Eiginfjárhlutfall 31,04%
Á listanum öll ár? Nei
Fyrri ár á listanum 2012–2017
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Viðskiptavinum fjölgað úr 18.000 upp í nærri 70.000

Guðmundur Jóhann Jónsson forstjóri Varðar.
Guðmundur Jóhann Jónsson forstjóri Varðar. mbl.is/Árni Sæberg

Vörður tryggingar hafa verið í hópi framúrskarandi fyrirtækja síðastliðin sex ár og má heyra á Guðmundi Jóhanni Jónssyni, forstjóra félagsins, að honum þykir vænt um viðurkenninguna: „Við stillum viðurkenningarskjölunum upp í móttökunni þar sem viðskiptavinir og starfsmenn geta séð. Það er bæði jákvætt og hvetjandi að tekið sé eftir þeim góða árangri sem félagið hefur náð,“ segir hann.

Vörður er ungt tryggingafélag með langa sögu. Félagið varð til árið 2005 við sameiningu Varðar og Íslandstryggingar en rekja má rætur fyrrnefnda félagsins aftur til ársins 1926 þegar Vélbátasamtrygging Eyjafjarðar var stofnuð. Eftir breytingar á eignarhaldi í lok árs 2006 var nafni félagsins svo breytt í Vörð tryggingar. Í dag er félagið í eigu Arion banka. „Reksturinn er algjörlega sjálfstæður en við höfum þó þegar náð að virkja spennandi samstarfsfleti með eigandanum. Þeirri vegferð er langt í frá lokið,“ segir Guðmundur Jóhann.
Í árslok 2007 var Vörður líftryggingar stofnað en tímamót urðu í ársbyrjun 2017 þegar Vörður keypti Okkar líftryggingar og sameinaði sinni starfsemi. Úr varð Vörður líftryggingar, stærsta líftryggingarfélagið á Íslandi. „Segja má að metnaðarfull uppbygging á Verði hafi nú staðið yfir í tæp 12 ár. Á þessum tíma hefur markaðshlutdeild félagsins vaxið úr 6% í liðlega 16%. Á þessum sama tíma hefur fjöldi viðskiptavina farið úr um 18.000 í nærri 70.000,“ útskýrir Guðmundur Jóhann.

Asinn fjölgar tjónstilvikum

Lesendum kann að þykja það skjóta skökku við en rekstur tryggingafélaga gengur oft betur þegar rólegt er yfir efnahagslífinu. Guðmundur Jóhann segir eftirspurn eftir tryggingum ekki breytast mikið í niður- eða uppsveiflum en tjónatakturinn geti orðið allt annar. „Þegar efnahagslífið glæðist er fólk á meiri þeytingi og hraðari upptaktur er hjá fyrirtækjum og leiða þessar kringumstæður frekar af sér slys og óhöpp. Að því leyti voru „hrunárin“ ekki slæmur tími til að koma styrkari fótum undir félagið.“

Á fyrstu árum uppbyggingarinnar sótti Vörður vöxt sinn mestmegnis á einstaklingsmarkaðinn, með tryggingum fyrir fjölskyldur og heimili. Með því móti hefur félagið fengið góða dreifingu á áhættu og varð hlutdeild Varðar á þessum markaði allgóð. Á seinni árum hefur áhersla verið aukin á fyrirtækjaviðskipti og segir Guðmundur Jóhann að mörg stærri fyrirtæki landsins treysti Verði nú fyrir sínum hagsmunum.

Ökutækjatryggingar vega tiltölulega þungt í rekstri félagsins og skiptir því miklu máli hvernig tíðarfar og akstursskilyrði eru yfir erfiðustu vetrarmánuðina. „Erfitt tíðarfar fyrstu tvo mánuði þessa árs gerði það t.d. að verkum að afkoma ökutækjatrygginga var slæm,“ segir Guðmundur Jóhann. „Þegar hlutfall ökutækjatrygginga er eins hátt og það er í tilviki Varðar hefur afkoma greinarinnar mikil áhrif á heildarafkomu félagsins.“

Smæð markaðarins skapar áskoranir

Má heyra á Guðmundi að hjá Verði hefur þess verið gætt að fara í engu óðslega og félagið hefur haldið sig við þær tegundir trygginga sem það þekkir best. Hefur Vörður t.d. ekki reynt að nýta sér uppgang í ferðaþjónustugeiranum til að auka umsvif sín: „Við höfum þvert á móti haldið okkur að mestu frá ferðaþjónustunni, staðið fyrir utan tryggingar á bílaleigu-, rútu- og afþreyingarfyrirtækjum því okkur hefur fundist áhættan og þekking á verðlagningu á markaðinum takmörkuð. Frekar en að geta verðlagt tryggingar okkar með góðri vissu ákváðum við að bíða átekta. Afstaða til greinarinnar er þó ekki meitluð í stein og við getum hugsað okkur að vinna með traustum vel reknum ferðaþjónustufyrirtækjum.“
Þessu tengt, þá segir Guðmundur Jóhann að það geri rekstur tryggingafélags á margan hátt snúnari að starfa á jafnsmáum markaði og þeim íslenska. Tryggingafélög um allan heim leggi stöðugt meiri áherslu á gagnadrifinn rekstur, en íslenski markaðurinn sé smár og Vörður einungis með hluta hans hjá sér og úr takmörkuðu magni gagna að moða. „Tryggingastærðfræðingur félagsins hefur gjarnan haft það á orði að félagið sé smátt og með svo stutta sögu að það sé ekki mikið að marka gagnasöfnin okkar. Með hverju árinu batnar samt geta okkar til að starfa af meiri þekkingu og á traustari sögulegum grunni.“

Vanda sig við áhættumatið

Að mati Guðmundar Jóhanns mættu íslensk tryggingafélög einmitt gera enn betur á þessu sviði og stunda faglegra áhættumat og verðlagningu á áhættu. „Á árum áður var meira gert af því að setja netið út og taka inn allt sem í það kom. Í dag leggjum við áherslu á að vandað sé til verka, að í hverju tilviki taki iðgjald mið af metinni áhættu. Til lengri tíma mun þróun þessa verklags gera okkur kleift að umbuna betur þeim sem eru lítið í tjónum,“ segir hann. „Að sjálfsögu eru tjón hluti af okkar daglegu starfsemi og þjónusta okkar gengur út á að bæta tjón viðskiptavina, en ég orða það t.d. þannig við fólk úr fjármálageiranum að við séum að reyna að tileinka okkur hugsun útlánasérfræðinga bankanna: það fá ekki allir lán sem til bankanna leita og áhættuálagið eða vextirnir eru misháir.“

Tæknin býður upp á spennandi möguleika

Ýmsar breytingar hafa átt sér stað á tryggingamarkaði og ljóst að enn frekari breytinga er von. Nefnir Guðmundur Jóhann sem dæmi að á seinni árum hafi orðið til skilvirk starfsemi sérfræðinga sem taka að sér að sækja bætur fyrir hönd slasaðra til tryggingafélaganna. „Það er að sjálfsögðu ekki ástæða til að amast við þessari þjónustu en mikilvægt er að löggjafinn búi þannig um hnútana að uppgjörsferlin séu skýr og eins óumdeild og verið getur,“ segir hann og bætir við að væri til mikils að vinna að styrkja umgjörðina í kringum meðferð og uppgjör slysatjóna enn frekar þannig að þeim iðgjöldum sem safnað er saman af tryggingafélögum sé útdeilt til þeirra sem sannarlega verða fyrir fjárhagslegum skaða eða lífsgæðaskerðingu.

Flestir vænta þess að fjártækni muni umbylta tryggingaheiminum og erlendis má nú þegar finna ótal sprotafyritæki sem nota nýjustu tækni til að bjóða upp á frumlegar og sniðugar tryggingalausnir. Guðmundur Jóhann segir Vörð fylgjast vel með þróuninni og félagið sé af fullum krafti að leita leiða til að tengja saman nýjustu lausnir sem stafræn tækni býður upp á í bland við persónulega þjónustu sem aldrei mun fara úr tísku. Ímyndar hann sér að meðal næstu skrefa gæti verið að selja sveigjanlegri tryggingapakka sem viðskiptavinurinn gæti, jafnvel frá degi til dags, breytt í samræmi við þarfir sínar og aðstæður hverju sinni. „Rétt eins og fólk getur í dag keypt sér flugfarseðil yfir netið og valið aukaþjónustu sem hentar eigin þörfum gætu viðskiptavinir okkar klæðskerasniðið eigin tryggingar. Ef viðskiptavinur t.d. eignast nýtt og fullkomið reiðhjól gæti hann einfaldlega skoðað tryggingastöðuna í símanum sínum og bætt þar við tryggingu fyrir hjólið. Ef hann hefur svo selt sama hjól mánuði síðar smellir hann í reit og fjarlægir reiðhjólstrygginguna jafn auðveldlega.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Fleiri greinar og viðtöl