Haraldur Örn - haus
Þú ert hér: Haraldur Örn > Hælsæri
10. júní 2010

Hælsæri

sports_tapeÞað er mikilvægt að ganga skó til áður en lagt er í lengri göngur. Þetta þekkja flestir. Það er þó engin trygging í að hafa gengið skóna til. Þegar dagsgangan er lengri en átta tímar fer sviti að segja til sín og þá getur fóturinn farið að nuddast. Fyrirbyggjandi aðgerðir er því það eina sem blífur til að komast hjá hælsærum í gönguferðum. Ég hef lengi talað fyrir því að göngufólk noti íþrótta-tape (sports-tape) til að setja á hæla og tær fyrir göngur. Með þessu minnka líkur á alvarlegum særindum undan skóm. Ég hef sjálfur notað þetta mikið fyrir lengri göngur því að þrátt fyrir að maður hafi notað skó lengi þá geta þeir skyndilega farið að nudda.

Hælsæri geta orðið mjög slæm og gert gönguna að eintómri kvöl og pínu. Það síðasta sem maður vill er að láta slíkt eyðileggja annars góða ferð.

Ef særindi fara að segja til sín er mikilvægt að bregðast fljótt við og setja á sig second-skin. Því fyrr sem eitthvað er gert í málunum því meiri líkur eru á að það takist að koma í veg fyrir meirháttar vandræði. Einnig getur verið gott að skipta um sokka og reima skóna upp á nýtt.