Haraldur Örn - haus
Þú ert hér: Haraldur Örn > Grímannsfell
5. mars 2010

Grímannsfell

GrímannsfellFjöllin og fellin í nágrenni höfuðborgarinnar eru mörg. Eitt þeirra er Grímannsfell við Mosfellsdal. Gangan á þetta lítt þekkta fell er mjög skemmtileg og góð tilbreyting við Esjugöngurnar sem margir stunda. Hér er stutt lýsing á fjallgöngunni:

Ökuferðin: Frá Reykjavík er ekið upp Mosfellsdal. Rétt áður en komið er að Gljúfrasteini er beygt til hægri inn Helgadal. Ekið er eftir þeim afleggjara um 700 metra og hefst þar gangan.

Gangan: Gengið er yfir móa og upp vinstra megin við grýttan hól. Þá er gengið upp lítið klettabelti og minnkar brattinn fljótlega eftir það. Nú er haldið beint af augum eftir aflíðandi ásum þar til komið er á vestari tindinn er nefnist Flatafell 436m. Til að fara á hæstu hæð fjallsins er haldið áfram í sömu átt á Stórhól 482m.

Heildargöngutími: Ganga á Flatafell tekur um 2 tíma (upp og niður aftur) en ef gengið er á Stórhól má búast við um 3ja tíma göngu.

Fleiri tillögur að fjallgöngum má finna á heimasíðu Fjallafélagsins: http://www.fjallafelagid.is/leidarlysingar