Tákn vefjar

Sagan
Aðdragandinn
Merkið frá Reykjavík
Farsæl saga
Hið nýja NATO
Dean Acheson
Bjarni Benediktsson
Stiklað á stóru

Ísland
Aðildin og varnarsáttmálinn
Hlutleysið kvatt
Árásin á Alþingi
Átök á Austurvelli
Varið land
Starf NATO hér

Viðtöl
Davíð Oddsson
Guðmundur H. Garðarsson
Halldór Ásgrímsson
Jón Hákon Magnússon
Ragnar Arnalds
Vladislav Zubok
Vojtech Mastny

Með eigin orðum
Bjarni Benediktsson 1949
Ólafur Thors 1949
Bjarni Benediktsson 1968
Emil Jónsson 1968

Samstarfið
Vísindasamstarf
Umhverfismál
Jarðvísindi
Tölvutækni
Styrkþegar NATO

 

Svik Jósefs Stalíns og útþenslustefna sovéskra kommúnista eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar leiddu til þess að lýðræðisríkin í vestri sameinuðust í Atlantshafsbandalaginu. Þessi einstaka mynd sýnir Stalín ásamt helstu valdamönnum einræðisstjórnar sinnar. Frá vinstri:Anastas Míkoían, Níkíta Khrústjov, Jósef Stalín, Georgíj Malenkov, Lavrentíj Bería og Vjatsjeslav Molotov.

Aðdragandinn að stofnun NATO

Eftir VAL INGIMUNDARSON

Ernest Bevin, utanríkisráðherra Bretlands, var höfundur hugmyndarinnar um að tryggja bæri varnir Vestur-Evrópu með þátttöku Bandaríkjanna. Á myndinni er Bevin (t.v) ásamt George Marshall, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Molotov utanríkisráðherra Sovétríkjanna og Georges Bidault, utanríkisráðherra Frakklands. Myndin var tekin á fundi þeirra í Moskvu 1947.

STOFNUN Atlantshafsbandalagsins endurspeglaði þann vilja evrópskra ráðamanna að tryggja öryggi Vestur-Evrópu með beinni þátttöku Bandaríkjanna eftir seinni heimsstyrjöld. Frumkvöðullinn var Ernest Bevin, utanríkisráðherra Bretlands og einn helsti leiðtogi breska Verkamannaflokksins. Hann átti ekki aðeins hugmyndina, heldur einnig mestan þátt í að afla henni fylgis meðal bandarískra og evrópskra ráðamanna. Það samrýmdist þjóðarhagsmunum Bandaríkjamanna, að Evrópuríkin tækju upp samvinnu í öryggismálum. Með Truman-kenningunni árið 1947 höfðu Bandaríkjamenn markað þá stefnu að berjast kerfisbundið gegn kommúnismanum í heiminum og skuldbundið sig til að veita andstæðingum kommúnista í Tyrklandi og Grikklandi fjárhags- og hernaðaraðstoð. Sama ár höfðu þeir boðið Vestur-Evrópuríkjunum Marshall-aðstoðina, sem var efnahagslegt tæki til að ná þessu pólitíska markmiði. Valdarán kommúnista í Tékkóslóvakíu árið 1948 átti eftir að auka þrýsting Evrópuríkjanna á þátttöku Bandaríkjanna í vörnum Evrópu. En þrátt fyrir stjórnmála- og efnahagsstuðning Bandaríkjanna við Evrópu var alls ekki sjálfgefið, að Bandaríkjamenn tengdust hernaðarböndum við Evrópuríki á árunum 1948-1949. Það var engin hefð fyrir því í bandarískri utanríkisstefnu, enda höfðu Bandaríkjamenn oft verið gagnrýnir á þá valdajafnvægis- og raunsæissjónarmið sem kennd voru við Evrópu. En Bandaríkjastjórn ákvað að lokum að stíga skrefið til fulls vegna þess, að það mundi þjappa Vestur-Evrópuríkjunum betur saman í endurreisnarstarfinu og baráttunni gegn kommúnismanum. NATO var því liður í mun stærri áætlun um að koma á pólitískum og efnahagslegum stöðugleika í Vestur-Evrópu.

Evrópu- eða Atlantshafsbandalag?
Þegar í mars 1947 höfðu Bretar og Frakkar gert hinn svokallaða Dunkirk-samning um gagnkvæma öryggissamvinnu. Þessum samningi var ekki beint gegn Sovétríkjunum, heldur tók mið af þeirri framtíðarhættu, sem stjórnvöld í Frakklandi og Bretlandi töldu, að stafaði af Þjóðverjum eftir reynsluna af nasismanum. Bevin gerði sér fulla grein fyrir því, að þetta bandalag væri mjög veikt vegna þess, að Bandaríkin stóðu fyrir utan það. Í lok árs 1947 fór hann því að þrýsta á um beina hernaðarsamvinnu við Bandaríkjamenn. Í sögulegri þingræðu 22. janúar 1948 mæltist Bevin til þess, að Bretar, Frakkar, Hollendingar, Belgar og Lúxemborgarar mynduðu með sér varnarbandalag. Hann minntist ekki á Bandaríkjamenn, en hugmyndin var sú, að þeir tengdust bandalaginu síðar með einum eða öðrum hætti. Á þessum tíma höfðu Frakkar ekki gert það upp við sig, hvort þeir vildu fremur evrópskt öryggisbandalag eða Atlantshafsbandalag með þátttöku Bandaríkjanna. Það breytti því ekki, að þeir lögðu mikla áherslu á að fá bandaríska hernaðaraðstoð, enda höfðu þeir sjálfir ekkert bolmagn til þess að efla varnir sínar eftir seinni heimsstyrjöld. Afstaða norrænna ríkisstjórna til ræðu Bevins er ekki síður athyglisverð. Sænsk og dönsk stjórnvöld lýstu yfir því, að engin áform væru uppi um að tengjast öryggisbandalagi Evrópuríkja. Svíar vildu halda fast við þá stefnu að taka ekki þátt í ríkjabandalögum á friðartímum til að gera hlutleysisstefnu sína á ófriðartímum trúverðugri. Danir höfðu komist að því á stríðsárunum að í hlutleysinu fælist engin vörn, en þeir vildu ekki gera neitt, sem styggði Sovétmenn eða drægi þá sjálfa inn í alþjóðavaldapólitík. Norðmenn skáru sig úr: Þeir kusu fremur að þegja en taka neikvæða afstöðu til hugmynda Bevins. Þeir höfðu glatað trúnni á hlutleysisstefnuna eftir hernám Þjóðverja á stríðsárunum og áttu samleið með Vesturveldunum, en vildu komast hjá hernaðarskuldbindingum og eiga góð samskipti við Sovétríkin. Helst hefði norska stjórnin viljað ná samkomulagi við Breta um varnir án of náinna tengsla við Bandaríkin í því skyni að halda Sovétmönnum góðum.

George Kennan mótaði svonefnda containment-kenningu Bandaríkjastjórnar sem fólst í viðspyrnu gagnvart pólitískri framrás Sovétríkjanna. Hér er Kennan (annar frá hægri) ásamt þeim Harry Truman Bandaríkjaforseta (lengst t.v.), Robert Lowett, aðstoðarutanríkisráðherra, og Charles Bohlen, helsta sovétsérfræðingi bandaríska utanríkisráðuneytisins en þeir þrír áttu mikinn þátt í mótun stefnu Bandaríkjamanna gagnvart stofnun varnarbandalags með ríkjum Vestur-Evrópu.

En hvernig leit málið við Bandaríkjamönnum, sem voru þeir einu, sem gátu séð Evrópuþjóðunum fyrir hernaðaraðstoð? Innan Bandaríkjastjórnar voru skiptar skoðanir um það hvort eða hvernig Bandaríkin ættu að tengjast hugsanlegu bandalagi Vestur-Evrópuríkjanna. Yfirmaður Evrópudeildar bandaríska utanríkisráðuneytisins, John Hickerson, studdi tillögu Bevins á þeim forsendum, að hún væri besta lausnin á öryggisvanda Evrópuríkjanna. Hann taldi, að Bandaríkjamenn yrðu að vera stofnaðilar að bandalaginu vegna hernaðarmáttar síns, svo framarlega sem tryggt yrði, að markmið þess samrýmdust sáttmála Sameinuðu þjóðanna. George Kennan, yfirmaður stefnumótunardeildar utanríkisráðuneytisins og Charles Bohlen, helsti sovétsérfræðingur Bandaríkjastjórnar, töldu hins vegar, að Bevin og George Bidault, utanríkisráðherra Frakklands, legðu of mikla áherslu á hernaðarsamstarf Evrópuríkjanna. Að þeirra dómi gerði einokun Bandaríkjamanna á kjarnorkusprengjunni það að verkum, að Sovétmenn mundu ekki hætta á að ráðast inn í Vestur-Evrópu. Kennan var höfundur containment-stefnu Bandaríkjastjórnar, sem mörkuð var á árunum 1946-1947 í þeim tilgangi að halda Sovétríkjunum í skefjum á stjórnmála-, efnahags- og hernaðarsviðinu. En þótt Vestur-Evrópuríkin væru vanmáttug eftir seinni heimsstyrjöld taldi Kennan mun meiri þörf á því að sýna Vestur-Evrópu pólitíska samstöðu og efnahagsstuðning en hernaðaraðstoð. Auk þess óttaðist hann, að formlegt hernaðarbandalag kynni að spilla fyrir tilraunum Bandaríkjastjórnar til að tryggja þátttöku Þjóðverja í endurreisnarstarfinu í Evrópu.

Í ljósi þessa skoðanamunar urðu fyrstu viðbrögð Bandaríkjamanna við ræðu Bevins varfærnisleg. Hugmyndinni um varnarbandalag var vel tekið, en ekki vikið einu orði að hugsanlegri þátttöku Bandaríkjamanna. Bandarískir embættismenn fóru ekki leynt með að frumkvæðið yrði að koma frá Evrópumönnum sjálfum. Ekki væri unnt að taka afstöðu til þess hvort Bandaríkjamenn tengdust evrópsku öryggisbandalagi fyrr en Evrópuþjóðirnar hefðu sýnt að þeim væri full alvara með því að koma því á fót. Bevin var ekki skemmt: Hann taldi, að vonlaust væri að stofna bandalagið án þess að hafa hugmynd um hvort Bandaríkin yrðu aðili að því. Önnur Vestur-Evrópuríki sæju engan tilgang í því, enda öllum ljóst, að bandalagið yrði háð bandarískum hernaðarstuðningi. Hann ákvað samt að halda sínu striki og auka þrýstinginn á Bandaríkin með því að fá Evrópuríkin í formlegt hernaðarsamstarf.

Bandaríkjamenn taka af skarið
Í febrúarmánuði 1948 tókst kommúnistum að bola samráðherrum sínum úr stjórninni og koma á einræði í Tékkóslóvakíu. Valdaránið vakti mikla reiði í Bandaríkjunum og Evrópu. Bandaríkjamenn töldu reyndar, að það hefði ekki breytt valdajafnvæginu í Norðurálfu og drógu í efa, að Sovétmenn væru í innrásarhugleiðingum. Þeir höfðu meiri áhyggjur af áhrifum valdaránsins á stjórnmálabaráttuna í Frakklandi og Ítalíu, þar sem kommúnistar voru mjög öflugir. Hins vegar notuðu ráðamenn í Frakklandi, Bretlandi og Benelux-löndunum valdaránið til að knýja fastar á dyr stjórnvalda í Washington í þeim tilgangi að fá beina hernaðaraðstoð. Þrátt fyrir valdaránið og viðvaranir frá bandaríska landstjóranum í vesturhluta Þýskalands um að Sovétmenn kynnu að grípa til hernaðaraðgerða í Vestur-Evrópu var Bandaríkjastjórn ekki reiðbúin að stíga skrefið til fulls. Um miðjan mars undirrituðu Bretar, Frakkar, Belgar, Hollendingar og Lúxemborgarar hinn svokallaða Brüssel-samning, sem skuldbatt þær að koma hver annarri til hjálpar, ef á þær yrði ráðist. Frá hernaðarsjónarmiði var þetta samkomulag lítils virði vegna þess, að Evrópuríkin gátu ekki gert sér neinar vonir um að verjast árás án stuðnings Bandaríkjamanna. En það, sem vakti fyrir Bevin var að fá Bandaríkjamenn til liðs við Brüsselbandalagsríkin með stofnun víðara öryggisbandalags, sem tæki til alls Norður-Atlantshafssvæðisins með þátttöku Bandaríkjanna, Kanada, Bretlands, Frakklands, Íslands, Írlands, Noregs og Danmerkur.

Það var ekki síst vináttusamningur Finna og Sovétmanna í mars 1948, sem beindi sjónum manna að Norðurlöndunum. Upphaflega ætluðu Sovétmenn sér að gera sams konar samning við Finna og þeir höfðu gert við þær þjóðir, sem voru á áhrifasvæði þeirra í Austur-Evrópu. Finnar náðu hins vegar fram mörgum tilslökunum og tókst að koma í veg fyrir, að Sovétmenn knúðu fram þær þjóðfélagsbreytingar, sem þeir höfðu gert í Ungverjalandi, Rúmeníu, Póllandi og Tékkóslóvakíu. En Sovétmenn beittu Finna miklum þrýstingi, enda var vináttusamningurinn ekki hefðbundinn ríkjasamningur tveggja fullvalda ríkja. Hér var einnig um að ræða skýrt dæmi þess, hvernig aðgerðir stórveldis gagnvart einu Norðurlandanna höfðu áhrif á öryggistilfinningu ráðamanna í öðrum, ekki síst í Noregi. Vorið 1948 gengu þær sögusagnir fjöllunum hærra, að Sovétmenn ætluðu að gera Norðmönnum sams konar samningstilboð, sem þeir gætu ekki hafnað. Norðmönnum varð ekki um sel og upp frá þessu lögðu þeir mikla áherslu á beina öryggistryggingu Vesturveldanna. Í skjalasöfnum í Moskvu hefur ekkert komið fram, sem rennir stoðum undir, að Sovétmenn ætluðu að beita Norðmenn sams konar þrýstingi og Finna. En Bretar gerðu mikið úr þessum möguleika við Bandaríkjamenn og virðast hafa haft áhrif á afstöðu þeirra til evrópsks varnarbandalags.

Um miðjan mars ákváðu Bandaríkjamenn að ganga til viðræðna um hugsanlega stofnun Atlantshafsbandalags, án þess þó að skuldbinda sig. Í framhaldinu hófust leynilegir fundir Bandaríkjamanna, Breta og Kanadamanna í Pentagon-byggingunni í Washington. Á þessum tíma hafði Bandaríkjastjórn ekki fullmótaða stefnu í málinu. John Hickerson og George Butler, staðfengill Georges Kennans, vildu að Bandaríkjastjórn tæki fullan þátt í stofnun hernaðarbandalags með Vestur-Evrópuríkjunum. Þeir Kennan og Bohlen vildu hins vegar, að um óbein tengsl yrðu að ræða: Bandaríkjamenn og Kanadamenn hæfu víðtæka hernaðarsamvinnu vestanhafs og Vestur-Evrópuþjóðirnar í Evrópu. Fulltrúar Pentagon virðast hins vegar hafa haft lítil áhrif á gang viðræðnanna í Washington, enda hafði varnarmálaráðuneytisins ekki tekið skýra afstöðu til þess.

Sjónarmið Hickersons varð ofan á: Bandaríkjamenn ákváðu að stefna að fullri aðild að bandalaginu og komust að samkomulagi við Breta og Kanadamenn um að bjóða eftirfarandi ríkjum til samstarfsins: Frakklandi, Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Íslandi, Hollandi, Belgíu, Lúxemborg, Írlandi, Ítalíu og Portúgal. Eins og sjá má af þessari upptalningu var gert ráð fyrir þátttöku nokkurra hlutlausra ríkja. Bandaríkjamenn höfðu lítinn skilning á hlutleysisstefnunni á þessum árum og töldu, að vestrænt ríki eins og Svíþjóð ætti að sýna fulla samstöðu með Vesturveldunum. Á þessu stigi kom einnig til greina að fá Þjóðverja, Austurríkismanna og Spánverja inn í bandalagið, en engin samstaða var um það. Staða vesturhluta Þýskalands var mjög viðkvæmt mál í þessum viðræðum, enda var útþenslustefna Hitlers og grimmdarverk nasista enn í fersku minni. Bandaríkjamönnum og Bretum hafði með erfiðismunum tekist að fá Frakka til að láta af andstöðu sinni við stofnun vestur-þýsks ríkis á London-ráðstefnunar Vesturveldanna vorið 1948. En viðbrögð Sovétmanna við þeirri ákvörðun að loka samgöngum landleiðina til Vestur-Berlínar þjappaði Vesturveldunum enn frekar saman. Stalín urðu á mikil mistök með samgöngubanninu. Hann ætlaði ekki að stofna til stríðsátaka vegna þessa máls, en hann gerði sér vonir um að geta rekið Vesturveldin frá Berlín. Honum varð ekki kápan úr því klæðinu. Svar Vesturveldanna, loftbrúin til Berlínar, varð eitt besta áróðursvopn, sem þau gátu gripið til í kalda stríðinu. Eftir stofnun NATO lét Stalín undan og aflétti samgöngubanninu, enda hafði það ekki gert annað en skaðað ímynd Sovétríkjanna í augum Vesturlandabúa.

„Stikluríkin“ og Atlantshafsbandalagið
Hugmyndir um stofnun varnarbandalags voru ekki aðeins bundnar við Norður-Ameríku og Brüsselbandalagsríkin. Í maí 1948 lagði utanríkisráðherra Svía, Östen Unden, fram tillögu um stofnun skandinavísks varnarbandalag, sem mundi þiggja vopn af Vesturveldunum og aðstoð í stríði. Norsk stjórnvöld vildu leita samþykkis Bandaríkjamanna áður en slíku bandalagi yrði komið á fót til að fá tryggingu fyrir því, að þeir mundu veita hernaðarstuðning. Bandaríkjamenn voru hins vegar aðeins reiðubúnir að styðja öryggissamstarf Norðurlandanna, ef það kæmi ekki í veg fyrir að ríkin gætu gengið í stærri bandalög eða verið í sambandi við þau. Svíar þvertóku hins vegar með öllu að tengjast Vesturveldunum beinum hernaðarböndum á þeirri forsendu, að það samrýmdist ekki hlutleysisstefnu þeirra. Þessi ágreiningur Svía og Norðmanna kom að lokum í veg fyrir stofnun skandinavísks varnarbandalags árið 1949.

Eftir að Bandaríkjamenn hófu formlegar að viðræður við fulltrúa Kanada og Brüssel- bandalagsríkjanna um stofnun Atlantshafsbandalags lögðu þeir mikla áherslu á þátttöku hinna svokölluðu stikluríkja milli Norður-Ameríku og Vestur-Evrópu: Íslands, Danmerkur og Portúgals. Ástæða þess, að Danmörk og Portúgal voru í þessum í hópi, var sú, að Danmörk hafði yfirráðarétt yfir Grænlandi, en Portúgal Azoreyjum. Yfirmenn Bandaríkjahers vildu koma sér upp herstöðvum á Grænlandi, Íslandi og Azoreyjum til að styrkja varnir Bandaríkjanna, geta gert árásir á Sovétríkin, ef Rauði herinn réðist inn í Vestur-Evrópu og tryggja samgönguleiðir til Evrópu.

Repúblikaninn Arthur Vandenberg, formaður utanríkismálanefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings, taldi, að ekki yrði hjá því komist að hafa þessi ríki með í bandalaginu, ef uppfylla ætti skilyrði þingsályktunar, sem kennd var við hann sjálfan. Samkvæmt henni var forsendan fyrir þátttöku Bandaríkjanna í hernaðarsamstarfi við Evrópuríkin sú, að bandalagið efldi varnir Bandaríkjanna. Robert Lovett aðstoðarutanríkisráðherra, og einn helsti samningamaður Bandaríkjanna í viðræðunum um Atlantshafsbandalagið, var heldur ekki í vafa um, að Grænland og Ísland væru mun mikilvægari fyrir Bandaríkin en sum ríki í Vestur-Evrópu. Noregur skipti líka máli í þessu sambandi vegna Svalbarða, en Bandaríkjamenn vildu hindra að Sovétmenn færðu sér eyjuna í nyt hernaðarlega.

Ekki voru allir jafnhrifnir af hugmyndinni að fá „stikluríkin“ inn í bandalagið. Frakkar beittu sér fyrir því, að aðeins þau ríki, sem ættu aðild að Brüsselbandalaginu tækju upp öryggissamvinnu við Bandaríkin og Kanada. Þeir vildu sjálfir fá sem greiðastan aðgang að vopnabúri Bandaríkjanna og töldu, að það kynni að spilla fyrir möguleikum þeirra, ef aðildarríkjunum yrði fjölgað. Frönsk stjórnvöld gerðu sér þó fljótlega ljóst, að þau gætu ekki staðið á móti þátttöku stikluríkjanna vegna þess, hve þau voru mikilvæg Bandaríkjamönnum.

Haustið 1948 komust sjöveldin - Bandaríkjamenn, Kanadamenn og Brüsselbandalagsríkin - að samkomulagi um að fara þess á leit við stjórnvöld í Noregi, Danmörku, Íslandi, Írlandi og Portúgal, að þau yrðu stofnaðilar að bandalaginu. Svíþjóð var nú ekki lengur í þessum hópi, enda gerðu sjöveldin sér ekki vonir um, að Svíar gengju í bandalagið vegna hlutleysisstefnunnar. Öll þessi ríki ákváðu að lokum að taka þátt í bandalaginu að Írlandi undanskildu. Írar gátu ekki hugsað sér að taka þátt í bandalagi með Bretum vegna deilunnar um Norður-Írland.

Mikið vatn átti eftir að renna til sjávar áður en bandalagið tók á sig endanlega mynd. Það kom t.d. til greina, að Norðurlandaþjóðirnar yrðu ekki fullgildir aðilar að Atlantshafsbandalaginu vegna smæðar þeirra og hernaðarvanmáttar. Hickerson taldi, að Norðmenn, Danir og Íslendingar kynnu fremur að kjósa að tengjast öryggiskerfi á Atlantshafi, en Brüsselbandalaginu, sem tók til Vestur-Evrópu. Þessi ríki gætu fengið einhvers konar aukaaðild að Atlantshafs/ Brüsselbandalagi: Þau mundu njóta fullrar herverndar, en láta í staðinn landssvæði til hernaðarafnota. Engin botn fékkst þó í málið þegar líða tók á haustið 1948, enda lágu viðræðurnar niðri vegna forsetakosninganna í Bandaríkjunum.

Norðurlöndin og vestrænt samstarf

Harry S Truman Bandaríkjaforseti mótaði þá kenningu 1947 að Bandaríkjamönnum bæri að berjast kerfisbundið gegn kommúnisma í heiminum. Margir höfðu efasemdir um hæfni Trumans er hann varð forseti eftir andlát Roosevelts forseta en Truman reyndist farsæll í starfi og merkur leiðtogi. Myndin tengist einum af merkari atburðum seinni tíma í stjórnmálasögu í Bandaríkjunum er dagblaðið Chicago Daily Tribune skýrði frá því á forsíðu að Truman hefði tapað forsetakosningunum 1948 áður en atkvæði höfðu verið talin. Í ljós kom síðar að Truman hafði verið endurkjörinn og var myndin tekin er sú niðurstaða lá fyrir.

Öllum á óvörum var Harry Truman endurkjörinn forseti Bandaríkjanna í kosningunum í nóvember 1948. Allar skoðanakannanir höfðu bent til þess, að mótframbjóðandi hans, repúblikaninn Tómas Dewey, yrði hlutskarpari. Eftir kosningar komst skriður á samningaviðræður Bandaríkjamanna og Vestur-Evrópu-þjóðanna um stofnun Atlantshafsbandalagsins. Bandaríkjamenn lögðu nú mikið upp úr því að ná samkomulagi sem fyrst. Bandaríkjamenn vildu hagnýta sér þann meðbyr, sem þeir töldu sig hafa í kalda stríðinu. Með Marshall-áætluninni og þeirri ákvörðun að stofna vestur-þýskt ríki gæfist tækifæri til að hefta útbreiðslu kommúnismans og endurreisa efnahagslíf Vestur-Evrópu. Stjórnir þeirra ríkja, sem áttu aðild að Brüsselbandalaginu töldu ekkert því til fyrirstöðu að hraða stofnun Atlantshafsbandalagsins. Í lok 1948 var samþykkt að bjóða stikluríkjunum, Danmörku, Portúgal og Íslandi formlega þátttöku í bandalaginu. Að vísu voru mörg deilumál, sem enn biðu úrlausnar. Bandaríkjamenn knúðu t.d. fast á um, að Ítalar yrðu með í bandalaginu, þótt það teldist ekki til Atlantshafssvæðisins vegna stjórnmálaáhrifa kommúnista þar. Frakkar voru hins vegar tregir til þess að samþykkja aðild Ítalíu og töldu betra að stofna annað bandalag, sem tæki til Miðjarðarhafssvæðisins. Að lokum náðist samkomulag um þátttöku Ítalíu og Portúgal. Mestu máli skipti þó, að sjöveldin komu sér saman um grundvallarmarkmið bandalagsins: Tekin yrði upp náin hernaðarsamvinna til að tryggja varnir Vestur-Evrópu og koma í veg fyrir útbreiðslu kommúnismans. Um það varð heldur enginn ágreiningur, að forsenda varnarsamstarfsins yrði sú, að árás á eitt bandalagsríki jafngilti árás á þau öll. Þetta varð að kjarna Norður-Atlantshafsssáttmálans, 5. greininni.

Stofnun Atlantshafsbandalagsins
Dean Acheson, sem tekið hafði við utanríkisráðherraembættinu, af George Marshall í janúar 1949, átti mestan þátt í að reka smiðshöggið á verkið. Acheson þurfti að beita mikilli lagni til að fá leiðtoga öldungadeildarinnar til að fallast á Norður-Atlantshafssáttmálann. Demókratinn Tom Connally, sem tekið hafði við sem formaður utanríkismálanefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings, taldi, að 5. grein sáttmálans bryti í bága við rétt þingsins til að lýsa yfir stríði. Acheson lagði því mikla áherslu á þátttöku ,stikluríkjanna“ til að sýna þingmönnum fram á, að aðildin að Atlantshafsbandalaginu samrýmdist öryggishagsmunum Bandaríkjanna. Bandaríkjamenn voru ekkert áfjáðir í herstöðvar í Danmörku eða Noregi. Þeir litu svo á, að þær yrðu auðvelt skotmark vegna nálægðar við Sovétríkin. Öðru máli gegndi um Grænland og Ísland, sem skiptu höfuðmáli fyrir varnar- og sóknarmátt Bandaríkjanna í stríði ásamt Azoreyjum.

Það, sem flækti málið í janúar og febrúar 1949, var, að ekki var ljóst hvort af stofnun norræna varnarbandalagsins yrði. Norðmenn voru reiðubúnir að falla frá kröfu sinni um formleg tengsl bandalagsins við NATO, en með því skilyrði að Bandaríkjamenn sæju því fyrir vopnum. Svíar voru hins vegar ófáanlegir til að samþykkja óformlegt hernaðarsamband milli Norðurlandanna og Vesturveldanna. Þeir treystu á, að vestræn ríki kæmu Norðurlandaþjóðunum til aðstoðar í stríði vegna þess, að það þjónaði eigin hagsmunum þeirra. Norðmenn töldu, að þessi afstaða bæri vitni um of mikla óskhyggju: Eftir stæði, að skandinavískt varnarbandalag væri einskis nýtt án hernaðarstuðnings Bandaríkjanna, enda gátu Svíar ekki séð Norðmönnum og Dönum fyrir hernaðargögnum. Reynslan af hernámi Þjóðverja í seinni heimsstyrjöldinni hafði sannfært norska ráðamenn um að hverfa frá hlutleysistefnu á ný. Málið horfði öðru vísi við Svíum: Þeir höfðu ekki aðeins mun öflugri her en Danir og Norðmenn, heldur gátu þeir gert sér vonir um að forðast að dragast inn í styrjaldarátök vegna legu Svíþjóðar.

Eftir að ljóst varð, að ekki væri unnt að leysa ágreining Norðmanna og Svía runnu viðræðurnar um norræna varnarbandalagið út í sandinn. Bandaríkjamenn höfðu gert norskum stjórnvöldum ljóst, að þeir gætu ekki skuldbundið sig til að sjá norrænu varnarbandalagi fyrir vopnum, ef skilyrðinu um formleg tengsl væri ekki fullnægt. Norsk stjórnvöld með Halvard Lange, utanríkisráðherra Noregs í fararbroddi, ákváðu í framhaldinu að hefja viðræður við Vesturveldin um þátttöku í NATO. Leiðtogar norska verkamannaflokksins vildu með þessu styðja frumkvæði breska verkamannaflokksins, enda höfðu verið góð tengsl verið milli þessara flokka. Þeir voru einnig í mun sterkari stöðu en áður gagnvart almenningsálitinu vegna þess, að skandinavíska leiðin hafði verið reynd til þrautar áður en NATO-aðild komst á dagskrá. Bandaríkjamenn vissu vel, að aðild Noregs var forsenda þess, að Íslendingar og Danir gengju í bandalagið. Svíar höfðu hvorki bolmagn né vilja til að láta Dönum í té öryggistryggingu. Þótt Danir færu ekki leynt með vonbrigði sín með lyktir viðræðnanna um skandinavískt varnarbandalag gátu þeir ekki staðið einir og ákváðu því að fylgja Norðmönnum. Aðild Íslands verður líka að skoða í þessu ljósi. Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra, hafði þegar í janúar tjáð Bandaríkjamönnum, að afstaða Íslands til bandalagsaðildar réðist að miklu leyti af því, hvort Danir og einkum Norðmenn tækju þátt í því. Afstaða Norðmanna skipti því sköpum fyrir ákvörðun Íslendinga og Dana.

Frá stofnun NATO 4. apríl 1949 er utanríkisráðherrar 12 ríkja undirrituðu stofnsáttmálann í Constitution Hall í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna.

Eftir að Norðurlöndin þrjú höfðu ákveðið að ganga til liðs við Bandaríkin, Kanada og Brüsselbandalagsríkin auk Ítalíu og Portúgal var síðustu hindruninni rutt úr veginum. Hér var um gagnkvæma hagsmuni að ræða: Bretum og öðrum Brüsselbandalags-þjóðum tókst það ætlunarverk sitt að fá Bandaríkin til samábyrgðar á vörnum Vestur-Evrópu. Bandaríkjamenn studdu ekki NATO af ótta við yfirvofandi innrás Sovétmanna. Þeir töldu, að Atlantshafsbandalagið þjónaði þeim tilgangi að tryggja pólitískan og efnahagslegan stöðugleika í Evrópu. NATO mundi draga úr ótta Frakka við Þýskaland, sem átti eftir að gegna lykilhlutverki í viðreisn Evrópu. Auk þess höfðu Bandaríkjamenn náð því markmiði að tryggja bandalagsaðild þeirra ríkja, sem mestu máli skiptu fyrir öryggi þeirra sjálfra: Íslands, Danmörku og Portúgals. Atlantshafsbandalagið var stofnað 4. apríl 1949 og var samningurinn undirritaður við hátíðlega athöfn í Constitution Hall í Washington. Evrópuþjóðir áttu frumkvæði að stofnun NATO, en Bandaríkjamenn hafa farið með forræði í því frá upphafi í krafti hernaðaryfirburða sinna.


Morgunblaðið

                                                                                                  NATO