Tákn vefjar

Sagan
Aðdragandinn
Merkið frá Reykjavík
Farsæl saga
Hið nýja NATO
Dean Acheson
Bjarni Benediktsson
Stiklað á stóru

Ísland
Aðildin og varnarsáttmálinn
Hlutleysið kvatt
Árásin á Alþingi
Átök á Austurvelli
Varið land
Starf NATO hér

Viðtöl
Davíð Oddsson
Guðmundur H. Garðarsson
Halldór Ásgrímsson
Jón Hákon Magnússon
Ragnar Arnalds
Vladislav Zubok
Vojtech Mastny

Með eigin orðum
Bjarni Benediktsson 1949
Ólafur Thors 1949
Bjarni Benediktsson 1968
Emil Jónsson 1968

Samstarfið
Vísindasamstarf
Umhverfismál
Jarðvísindi
Tölvutækni
Styrkþegar NATO

 

Samstarfsverkefni á sviði jarðvísinda

Alfred R. Geptner við störf á Austurlandi sumarið 1997.

ALFRED R. Geptner, jarðfræðingur hjá Rússnesku jarðvísindastofnuninni í Moskvu og Hrefna Kristmannsdóttir hjá Orkustofnun hafa á liðnum árum átt í samstarfi um rannsóknir á ummyndun íslensks bergs. Í þeim tilgangi hefur Geptner komið hingað til lands, safnað gögnum og gert tilraunaverkefni ásamt Hrefnu. Auk hennar hafa þeir Jakob K. Kristjánsson, Svein Jakobsson og Viggó Þór Marteinsson, líffræðingar, komið að verkefninu. Geptner fékk úthlutaðan vísindastyrk NATO frá Rannsóknarráði Íslands (RANNÍS) og rannsóknaraðstöðu hjá Orkustofnun, sem gerði Geptner kleift að ferðast til Íslands ásamt eiginkonu sinni, dveljast hér eitt sumar og safna og kanna bergsýni sem hann hefur síðan rannsakað á tilraunastofu sinni í Moskvu.

Að sögn Hrefnu hafa hugmyndir manna verið að breytast um hvernig ummyndun bergs fer fram. Í því skyni hefur jarðhiti og efnaskipti vatns og bergs verið rannsökuð. Í rannsóknum Geptners og Hrefnu var sjónum beint að ummyndun frumbergs og hvernig það gæti - á löngum tíma - breyst í berg sem er ólíkt upprunanum, að efni og uppbyggingu. Geptner hafi haft sambandi við sig upp úr 1990 og verið að velta fyrir sér hvort að um væri að ræða örverur sem þátt ættu í slíkum efnahvörfum. Um talsvert nýja hugmynd hafi verið að ræða þar sem menn hafi, til skamms tíma, ekki grunað að um bakteríur væri að ræða, heldur endurkristöllun í heitu vatni.

Geptner kom hingað til lands alls átta sinnum á árunum 1970-1983, í vísindaleiðöngrum rússneskra jarðfræðinga. Hér safnaði hann sýnum sem hann bar við bergsýni frá virkum og útkulnuðum eldsvæðum í Kákasus og Kamtsjatka. Í rannsóknum sínum á bergsýnum fann Geptner leifar steingervðra bakteríuleifa og hafði hann því samband við Hrefnu og lýsti yfir áhuga á að koma aftur til Íslands og afla frekari gagna til að rannsaka orsakasamhengi baktería og ummyndunar frumbergs. Í kjölfar styrkveitinganna, 1996 og 1997, dvöldust Geptner-hjónin hér á landi sumarlangt og við sýnatöku og rannsóknir, aðallega í Eyjafirði og á Austurlandi. Var m.a. tekið sýni úr hverastrýtunni á botni Eyjafjarðar.

Tengsl hitaþolinna örvera og uppruna lífs
Stofnun sú sem Geptner starfar við í Moskvu er vel tækjum búin en að sama skapi er fjárskortur mikill. Með íslensku bergsýnunum gafst Geptner því einstakt tækifæri til að prófa tilgátur sínar og hafa þær rannsóknir vakið athygli. Hafa greinar byggðar á grunnrannsóknum verið birtar í alþjóðlegum vísindaritum og eru fleiri slíkar í bígerð.

Að sögn Geptners er nú ljóst að örverur, djúpt í iðrum jarðar, geti aðlagast og varðveist við mjög erfið skilyrði. Fyrir slíkar rannsóknir sé Ísland einstakt að öllu leyti vegna eldvirkni og ungs aldurs bergsins. Telur hann að rannsóknirnar velti upp mjög áhugaverðum spurningum um uppruna lífs, þ.e. hvernig vistfræðilegri dreifingu frumstæðra lífvera á jörðinni hafi verið háttað í tíma og rúmi. Frekari rannsóknir hér á landi gæti því orðið vísir að gagnabanka um steingervðar leifar örvera sem gætu jafnvel sett líf hér á jörðu í samhengi við hugsanleg lífsskilyrði á öðrum hnöttum.


Morgunblaðið

                                                                                                  NATO