Tákn vefjar

Sagan
Aðdragandinn
Merkið frá Reykjavík
Farsæl saga
Hið nýja NATO
Dean Acheson
Bjarni Benediktsson
Stiklað á stóru

Ísland
Aðildin og varnarsáttmálinn
Hlutleysið kvatt
Árásin á Alþingi
Átök á Austurvelli
Varið land
Starf NATO hér

Viðtöl
Davíð Oddsson
Guðmundur H. Garðarsson
Halldór Ásgrímsson
Jón Hákon Magnússon
Ragnar Arnalds
Vladislav Zubok
Vojtech Mastny

Með eigin orðum
Bjarni Benediktsson 1949
Ólafur Thors 1949
Bjarni Benediktsson 1968
Emil Jónsson 1968

Samstarfið
Vísindasamstarf
Umhverfismál
Jarðvísindi
Tölvutækni
Styrkþegar NATO

 

„Hlutleysi óhugsandi í alþjóðamálum“

NATO hefur gengið í gegnum mikið breytingaskeið frá lokum kalda stríðsins. Ásgeir Sverrisson ræddi við Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra um hið nýja NATO, stöðu Íslands innan þess, frekari stækkun bandalagsins, samskiptin við Rússa og fleira.

Á 50 ára afmæli Atlantshafsbandalagsins (NATO) telur Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra að lofa beri þá framsýni Íslendinga að hafa ákveðið að gerast þátttakendur í þessu samstarfi lýðræðisríkjanna árið 1949. Hann leggur þunga áherslu á að Íslendingar eigi að taka fullan þátt í störfum á vettvangi þess sem nefnt hefur verið úhið nýja NATO“. Það beri landsmönnum að gera sem veitendur er séu tilbúnir til að leggja sitt af mörkum við breyttar aðstæður í alþjóðamálum. Utanríkisráðherra telur stækkun NATO til austurs fagnaðarefni og minnir á að skuldbinding liggi fyrir af hálfu bandalagsins um að fleiri ríki fái inngöngu. Taka beri tillit til sjónarmiða Rússa í því samhengi þótt ekki megi fá þeim í hendur úrslitavald hvað varðar framtíð NATO. Verkefni NATO verði hins vegar að gera Rússum grein fyrir að frekari stækkun þess reynist ekki ógnun við öryggishagsmuni þeirra:

„Á 50 ára afmælinu er mér efst í huga framsýni Íslendinga að gerast þátttakendur í þessu mikilvæga samstarfi og hversu vel hefur tekist að leiða íslenska þjóð í samvinnu við þessar mikilvægustu lýðræðisþjóðir í heiminum fram til þessara tímamóta. Við erum þó að tala um allt aðra stöðu í dag og allt önnur samtök enda eru tímarnir svo breyttir. Ég tel að það hafi verið mjög rétt af Íslendingum að kasta hlutleysisstefnunni vegna þess að í mínum huga hefur hún aldrei gengið upp. Það er ekkert til sem heitir hlutleysi í alþjóðamálum og mér finnst að þar sé að verða mikil breyting. Ég vísa t.d til landa á borð við Finnland, Svíþjóð og jafnvel Sviss, sem eru orðin samstarfsaðilar Atlantshafsbandalagsins á alþjóðavettvangi.“

Nú hafa þegar verið gerðar miklar breytingar á NATO. Þrjú ríki, Pólland, Ungverjaland og Tékkneska lýðveldið, hafa fengið aðild að samtökunum. Hvernig snerta þessar breytingar Íslendinga?

„Þær snerta okkur fyrst og fremst þannig að við höfum skyldur gagnvart þessum þjóðum eins og önnur aðildarríki Atlantshafsbandalagsins. Þjóðirnar voru hluti af hinni lýðræðislegu Evrópu fyrir seinni heimsstyrjöld. Þær voru á vissan hátt yfirgefnar og þær telja sig hafa verið settar til hliðar í valdatafli stórveldanna.

Það var ólýsanlegt að vera viðstaddur inngöngu Póllands í NATO fyrir nokkrum dögum. Ég hafði aldrei gert mér grein fyrir því fyrr hvað þetta er Pólverjum mikið tilfinningamál og hvað aðildin er mikilvæg fyrir sjálfsöryggi og sjálfsímynd þjóðarinnar. Þessi þjóð hefur mátt búa við að landi hennar hefur oft verið skipt upp í gegnum aldirnar og hún hefur mótast af þessari sögu sem er saga mikilla hörmunga en er jafnframt uppspretta sterkrar menningar. Ég gerði mér ennþá betur ljóst við þennan atburð hvað aðildin að NATO er mikilvæg fyrir fólkið og hversu einlæg óskin er að vera með í samstarfinu.

Ég fór að bera saman andrúmsloftið hér á Íslandi þegar við gerðumst aðilar að NATO og það sem ríkti í Póllandi. Þar voru hátíðarhöld, flugeldasýningar, gleði og grátur og ég tel að þessi atburður sýni vel þær miklu breytingar sem orðið hafa og hvernig Evrópa er að sameinast í því að efla samstarf á þessu sviði og þar með trúna á að unnt sé að lifa án styrjalda og vopnaskaks.“

Minni viðbúnaður af hinu góða
En nú er stækkun NATO til austurs. Og því hlýtur sú spurning að vakna hvaða áhrif þetta ferli hefur á stöðu Íslands innan NATO. Þungamiðjan í þessu starfi hlýtur að færast í enn auknum mæli inn á meginlandið, til austurs og þar með frá Íslandi?

„Aðalbreytingin er sú að við stöndum ekki lengur saman andspænis einum sameiginlegum óvin. Athygli okkar beinist þess í stað að nýjum hættum og nýjum ógnunum ekki síst á sviði þjóðernisátaka, hryðjuverka, eiturlyfjasmygls og annarrar glæpastarfsemi. Þannig breytist staða allra þessara þjóða og ekki síður Íslendinga.

Það er ekki sama þörf á viðbúnaði hér á landi og áður var. Á þeim breytingum þurfum við að taka í samvinnu við okkar samstarfsmenn. Við verðum að horfa á umskiptin með jákvæðum hætti. Það skiptir okkur Íslendinga eins og alla aðra miklu að kalda stríðinu er lokið. Það er jákvætt fyrir okkur að það þurfi minni viðbúnað hér á landi en áður. Það getur ekki verið markmið í sjálfu sér að hafa sem mestan varnarviðbúnað hér á landi. Markmiðið hlýtur að vera að tryggja frið og öryggi okkar borgara og ef hægt er að gera það með minni viðbúnaði er það af hinu góða.

Við megum ekki láta eins og allar ógnanir séu úr sögunni og það sé ástæðulaust fyrir okkur að taka þátt í þessu samstarfi vegna þeirra breytinga sem orðið hafa með lyktum kalda stríðsins. Ég tel að svo sé alls ekki. Við getum lagt meira af mörkum og það erum við að gera. Íslendingar taka nú þátt með skipulegum hætti í starfsemi hermálanefndar NATO, við sendum fólk til Bosníu og til Kosovo. Við erum ekki aðeins þiggjendur heldur jafnframt veitendur í þessu samstarfi. Og við þurfum að horfa til breytinganna í Mið- og Austur-Evrópu í því ljósi að við getum verið þátttakendur vegna þess að friður og öryggi í Evrópu kemur okkur líka við. Þessi þróun stendur okkur svo nærri að það er ekki hægt að sitja hjá og láta sér fátt um finnast.“

Frekari stækkun spurning um tíma
Javier Solana, framkvæmdastjóri NATO, hefur sagt að dyr bandalagsins standi opnar þannig að fyrir liggur að stækkun bandalagsins verður ekki bundin við nýju ríkin þrjú. Hvernig sérð þú frekari stækkun NATO fyrir þér?

„Það liggur fyrir skýr skuldbinding af hálfu NATO í þessu efni. Ég tel að frekari stækkun sé fyrst og fremst spurning um tíma. Ég held að hún muni ganga eitthvað hægar fyrir sig en margir sáu fyrir í fyrstu. Það er stórt og mikið verkefni að veita nýju löndunum aðild að þessu samstarfi. Það er engum til góðs að veikja bandalagið eða að takast á við viðfangsefni sem menn ráða ekki nægilega vel við.

Þess vegna er það að mínu mati mikilvægt að umsóknarríkin séu aðstoðuð við að uppfylla þau skilyrði sem sett hafa verið fyrir aðild að bandalaginu. Og það er enginn vafi á því að þau skilyrði hafa þegar haft mikil áhrif. Þannig er t.d. kveðið á um að útistandandi landamæradeilur skuli engar vera og að leysa beri deilumál vegna minnihlutahópa. Nú þegar hafa mörg deilumál í Evrópu verið leyst til þess að geta uppfyllt þau skilyrði sem sett hafa verið fyrir aðild að NATO. Með þessum hætti hefur umræðan um frekari stækkun nú þegar skilað miklum árangri og stuðlað að friði.“

Íslendingar hafa gerst sérstakir talsmenn þess að Eystrasaltsríkin þrjú fái aðild að Atlantshafsbandalaginu. Telur þú það raunhæft markmið í fyrirsjáanlegri framtíð?

„Ég tel að þeir möguleikar séu raunhæfir. Ég tel reyndar að geti stækkun NATO ekki náð til Eystrasaltsríkjanna sé ákveðin hætta á ferðum, sú að stækkun Atlantshafsbandalagsins stöðvist alveg. Þetta verður að gerast í anda jafnvægis, á grundvelli ákveðinna skilyrða og með málefnalegum hætti. Ef NATO er, svo dæmi sé tekið, tilbúið að veita Rúmeníu aðild en ekki Eistlandi hlýtur sú spurnig að vakna hver séu rökin fyrir því. Rökin væru þá fyrst og fremst þau að Eistland liggur að landamærum Rússlands og þar með værum við í reynd að segja að Rússar hefðu áhrif á stækkun NATO, sem þeir eiga ekki að gera.

Við eigum hins vegar að taka fullt tillit til Rússa með því að efla samstarfið við þá. Og hver veit nema að sá dagur komi að Rússar vilji eiga enn nánara samstarf við NATO og jafnvel að ganga í bandalagið. Það er ekki hægt að útiloka það.“

Viljum ekki einangra Rússland
Engu að síður hafa viðbrögð Rússa við stækkuninni verið hörð og um það ríkir eftir því sem best verður séð víðtæk pólitísk sátt í Rússlandi að hana beri að fordæma.

„Þarna er fortíðin ennþá að spilla fyrir mönnum. Í Rússlandi var gífurlega öflugum áróðri haldið uppi gegn NATO og áhrifa þessa gætir enn í rússneskri þjóðarsál. Það er okkar að sýna fram á að við viljum fyrst og fremst eiga vinsamlegt samband við þá eins og aðra Evrópubúa og að NATO sé ekki hugsað sem andstæðingur þeirra.

Við skulum taka sem dæmi umræðuna hér á landi, sem oft á tíðum hefur verið erfið. Nú er engin andstaða við Atlantshafsbandalagið, einu mennirnir sem um þetta tala eru nokkrir menn á Alþingi. Að öðru leyti heyri ég aldrei þegar ég hitti fólk að menn séu að lýsa andstöðu sinni við NATO og veru okkar í því. Þvert á móti telja allir sjálfsagt að við vinnum með þessum þjóðum. Þarna hefur átt sér stað gífurleg viðhorfsbreyting og sátt ríkir um málið í þjóðfélaginu. Einhverra hluta vegna hefur þetta allt farið öfugt í nokkra þingmenn sem ég tel að séu fastir í gömlu hjólfari sem þeir komist fljótlega upp úr.

Lýðræðisþróunin í Rússlandi kemur til með að skipta mjög miklu máli fyrir alla Evrópu og því kemur hún okkur við. Við þurfum að gera Rússum ljóst að við viljum ekki einangra Rússland. Við viljum að Rússland taki aukinn þátt í alþjóðlegu samstarfi.“

Megum ekki bregðast í Kosovo
50 ára afmælið ber upp á sama tíma og NATO hefur ákveðið að láta til skarar skríða gegn Serbum vegna óhæfuverka þeirra í Bosníu. Margir halda því fram að trúverðugleiki bandalagsins sé í húfi í þessu erfiða deilumáli. Telur þú þetta rétt mat?

„Bandalagið er búið að vekja vonir þessa fólks. Það treystir á að NATO sé heiðarlegur og öflugur bandamaður sem að ætli sér að standa við gefin fyrirheit. Milosevic Júgóslavíuforseti neitaði að gefa eftir og bandalagið átti engan annan kost en að standa við orð sín.

Rússar eru mjög mikilvægir í þessu sambandi því aðgerðirnar geta haft mikil áhrif á framtíð friðarferlisins á þessu svæði og samskipti við Rússa í framtíðinni. Þetta er afar vandasamt en við getum ekki svikið þetta fólk. Ég tel hins vegar að breyting í Júgóslavíu, að þar komi til valda ný og lýðræðislega sinnuð kynslóð, sé forsenda þess að unnt verði að tryggja frið og stöðugleika á þessu svæði þegar til lengri tíma er litið“

Menn velta mjög fyrir sér framtíð NATO á þessum tímamótum. Sumir halda því fram að bandalagið muni þróast í að verða hnattrænt bandalag lýðræðisríkja. Ert þú sammála þeirri framtíðarsýn?

„Nei, ég hef ekki trú á því. Ég held að NATO muni einskorðast við Evrópu og Norður-Ameríku. Það er ekkert sem bendir til annars. Hvort að bandalagið geti eflt með margvíslegum hætti samstarf við ýmsar aðrar þjóðir má vel vera. Ég tel að NATO eigi ekki að blanda sér inn í erfiðar deilur út um allan heim.

Við skulum taka sem dæmi Afríku. Þó að staðan í fyrrum Júgóslavíu sé slæm er ástandið ennþá skelfilegra víða í Afríku. Það er útilokað fyrir bandalagið að fara blanda sér inn í deilur þar við þær aðstæður sem þar ríkja. Því verkefni verðum við að halda á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, sem eru mikilvægustu alþjóðasamtök í heiminum og starf þeirra á að efla.

Ég hef ekki skilið Bandaríkjamenn þannig að þeir hafi áhuga á því að gera NATO að einhvers konar heimslögreglu. Slíkar fullyrðingar eru að mínu mati útúrsnúningur þeirra sem eru andvígir Atlantshafsbandalaginu.“

Nú eru Pólland, Ungverjaland og Tékkneska lýðveldið orðin aðildarríki NATO og breytingar á starfsemi þess verða staðfestar á leiðtogafundinum í Washington í lok apríl. Er þessu breytingaferli innan bandalagsins að ljúka?

„Það er að komast ákveðin mynd á hið „nýja NATO“ eins og það er stundum orðað. Samtökin halda áfram að þróast eins og allt annað í heiminum. Það er t.d. alveg ljóst að hinir skelfilegu atburðir í fyrrum Júgóslavíu hafa haft mikil áhrif á starfsemi NATO og samstarf Evrópuþjóðanna um frið og öryggi. Við hliðina á þessu er jafnfram í mótun Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu og starfið á þeim vettvangi er sífellt að verða mikilvægara. Á þeim vettvangi eru allar þessar þjóðir starfandi og þar með taldir Rússar. Þeir leggja mikla áherslu á framtíð þess samstarfs og við megum á engan hátt gera lítið úr því.“

Einstakt samstarf
Atlantshafsstrengurinn svonefndi, samstarf Evrópuríkja og Norður-Ameríku í öryggismálum, hefur frá upphafi legið um Ísland. Þú telur ekki ástæðu til að ætla að breyting verði þar á?

„Ég er sannfærður um að svo verður áfram. Varnarsamningurinn við Bandaríkin verður 50 ára gamall árið 2001. Hann er einstæður í því ferli sem orðið hefur á síðustu áratugum. Ég finn ekkert annað hjá Bandaríkjamönnum en að áhugi sé fyrir því að viðhalda þessu einstaka samstarfi milli heimsveldis og lítillar þjóðar hér í Norður-Atlantshafi. Sá samningur tryggir ekki síst Atlantshafstengslin og svo lengi sem hann verður við lýði tel ég að þeim tengslum sé borgið.

Atlantshafstengslin eru ekki einvörðungu herfræðilegt fyrirbrigði. Umferðin í lofti fer að mjög miklu leyti yfir Ísland og þar færist í vöxt að tveggja hreyfla flugvélar séu notaðar. Að þessu leyti hefur enn aukist mikilvægi þess að Keflavíkuflugvöllur lokist ekki. Þessi einfalda staðreynd sýnir afar vel hvaða þýðingu lega Íslands hefur, ekki endilega í hernaðarlegu tilliti, heldur fyrst og fremst í samskiptalegu tilliti. Og það sem mestu skiptir eru samskipti fólks og öryggi þess.“


Morgunblaðið

                                                                                                  NATO