Karen Axelsdóttir - haus
5. október 2010

Skipta tækni og viðhorf máli?

Margir áhugamenn í minni íþrótt fókusa nánast eingöngu á styrk og þol og maður sér fólk svoleiðis pína sig allt árið um kring og stæra sig af löngum erfiðum sundsettum og erfiðum brautaræfingum. Það er í lagi ef tæknin er góð, ef þú hefur endalausan tíma eða  ef þú ert genetískt viðundur og jafnar þig alltaf fljótt á milli æfinga. Oftast er það samt ekki raunin og þetta sama fólk brennur út eftir 1-2 tímabil eða er krónískt með sömu meiðslin.  Styrkur og þol skipta auðvitað miklu máli í úthaldsíþróttum en góð tækni gerir kraftaverk og minnkar hættuna á meiðslum. Haldið að það sé tilviljun að 12 ára krakkar sem ég syndi með hreinlega syndi yfir mig þó ég hafi miklu meira úthald og sé helmingi  sterkari en þau? Þau hafa einfaldlega miklu betri tækni og flæði. Þið mynduð hlæja ef þið sæuð mig í tækjasal. Ég get varla gert hnébeygjur, hvað þá axlapressu. Hvernig má það þá vera að ég hjóla hraðar en flestir karlmenn sem ég æfi með þó þeir séu nánast allir með tvöfalt meiri styrk í fótleggjunum en ég? Hvernig fer ég að því að synda 3000 metra án þess að finna fyrir því í axlarvöðvum? Hvernig má það vera að ég kemst upp með að æfa 5-6 klst minna á viku en helstu keppinautar mínir? Ég er alls ekki með hærri súrefnisupptöku og ég er 8-15 árum eldri en flestar þessar stelpur. Svarið við þessum spurningum liggur að mínu mati sennilega í tækninni og almennu viðhorfi.

Mér finnst best að hugsa um hverja æfingu þetta æfingatímabil í eftirfarandi röð 1. Viðhorf 2. Tækni  3. Flæði 4. Styrkur  5. Þol. Þ.e ef einbeitning er ekki í lagi, ég illa fyrir kölluð eða annars hugar þá tek ég frekar létta hjólaæfingu fremur en tækniæfingu í lauginni. Sama á svo við styrk og þol.  Hjólastyrkur og aukið þol skilar þér bara brot að því sem það myndi ella ef þú heldur áfram að hafa rykkjótta hjólastroku og lítið upptog.  Möo hafðu grunninn í lagi.

visualizing-technique01.jpg

Visualization tækni hjálpar mikið við það að tileinka sér góða tækni. Horfðu t.d aftur og aftur á you tube myndband af einhverjum sem sýnir frábæra tækni í þinni íþróttagrein. Hugsaðu um bara 1-2 atriði  á hverri æfingu og reyndu að sjá fyrir þér hvernig "modelið" þitt framkvæmdi hreyfinguna.   Brostu, talaðu vel til þín og ekki detta í uppgjöf. Reyndu að ímynda þér hvernig þér mundi líða ef þú værir nú þegar búin að ná þessu og hagaðu þér eins og þú myndir gera ef það væri raunin. Til að festa hverja hreyfingu í vöðvaminni þarf svo að framkvæma hana 1000 sinnum.  Ekki reyna að stytta þér  leið heldur hugsaðu frekar um hvað þú ert á skemmtilegri leið og hvað þú ætlar að njóta þín í botn alla leiðina. Þeim betra sem viðhorf þitt er þeim fyrr lærirðu....er svo ekki hægt að heimfæra þessar síðustu setningar  á fleiri aðstæður og annað í lífinu sem þú vilt tileinka þér?