Karen Axelsdóttir - haus
17. ágúst 2010

Breska meistaramótið í ólympískri vegalengd

Meðan að félagar mínir voru í Kaupmannahöfn að keppa  í Ironman var ég að keppa hér í Bretlandi á breskameistaramótinu í ólympískri þríþraut (1500 m sund, 42,6 km hjól, 10 km hlaup). Það var mikið í húfi og eins og ég sagði um daginn en ég vann breska meistaramótið í hálfólympískri  þraut fyrr í sumar og því mikil pressa að standa sig líka á þessu móti. Þetta með erfiðari keppnum sem ég hef farið í og það gekk á ýmsu. Ég skal aðeins stikla á óvelkomnum hugsunum sem stundum brjótast fram í von um að hjálpa öðrum sem halda að þeir "einir"  detti í svoleiðis sveiflur.

Sundið

Það var keppt í á og þeir vöruðu keppendur við miklum gróðurvexti og slíii í ánni.... hmm en spennandi. Eins og venjulega var brjálaður hamagangur og við vorum strax um 10 manns sem brutum okkum frá öllum hinum. Þetta gekk svo vel fyrstu mínúturnar að ég var næstum farin að sjá fram á draumasund og að þetta  sundhlé á Íslandi hefði nú bara verið snilld. Ég gleymdi mér í einum slíbunkanum í 3-4 sek sem var nóg til þess að grúppan var allt í einu komin 2-3 metra fram úr mér. Ég gaf auðvitað í en sama hvað ég reyndi þá einhvern veginn fjarlægðist hópurinn bara meira og meira. Þvílík martröð...og með því að gefa í hef ég sennilega bara farið hægar því ef maður stirðnar eitthvað upp eða stressast í vatninu þá fer sundhraðinn út um þúfur. Mig minnti að endabaujan væri staðsett til vinstri og þegar hópurinn leitaði mikið til hægri þá hugsaði ég ..ok ég næ þeim þá við baujuna. Þetta var misreiknað og þegar ég kom nær þurfti ég að synda 70-80 metra hinum megin við ána að réttri bauju. Dýrkeypt mistök. Ég hélt samt haus og rifjaði upp öll trixin í viðhorfsbankanum til að halda mér á floti....þangað til einhver með gula húfu kom uppúr með mér. Sundhollinn starta alltaf í eins litum og ég vissi að gular húfur höfðu startað 5 mínútum á eftir mér. Sem sagt það var einhver þarna komin með 5 mínútna forskot á mig og það á National Championships móti þar sem ég hef bæði mannorð og titil að verja! Þetta var smá  sjokk og best að þurrka sundið úr minninu.         Hjólið  Gunni  náði að kalla til mín að ég væri sjöunda uppúr vatninu.   Þulurinn fékk mig til að hlæja þegar hann kallaði  "watch out for the Icelandic  viking, I´ve heard many  big guys crying  about the speed at which she passes you". Allir hafa sína styrkleika og það komast fáar konur nálægt mér á hjólinu þannig ég náði sem betur fer að halda mig frá  neikvæðum hugsunum...í bili....en um leið og hausinn byrjar að rugla þá er þetta oftast búið spil og erfitt að rífa sig upp. Á hjólinu pikkaði ég upp 1,2 og 3 en svo bara leið tíminn en enginn birtist. Hjólamælirinn datt út þannig ég hafði ekki hugmynd um hvað tímanum leið né á hvaða hraða ég var en ég get alveg sagt ykkur að þarna undir lokin hef ég sjaldan verið eins nálægt því að missa móðinn.  Það komu upp hugsanir eins og "til hvers er ég að þessu" og  "vá hvað þú ert að drulla í þig". Mér var óglatt á hjólinu (kanski bara drukkið smá af þessu slímvatni :-) og fór strax að búa mér til afsakanir í hausnum hvort mér væri nú ekki bara of illt í maganum til að halda áfram! Þetta er dæmi um afsakanbull sem maður getur lent í þegar illa gengur en þá leitar maður að öllum afsökunum í heiminum til að losna úr aðstæðunum og  sársaukanum.  Allavega þetta var ágætis tilfinningarússíbani og ég þurfti að taka sjálfa mig í gegn til að drepa niður þetta neikvæðnis og afsakanahjal.         Hlaupið 2010NationalCHampionships 016

Þegar ég kom af hjólinu staðfesti þulurinn í kallkerfinu að ég væri númer tvö og Gunni kallaði til mín að hún væri  60 sek á undan... ...ég hef greinilega náð hinum á skiptivæðinu þar sem ég náði besta skiptitímanum af öllum. Annar áhorfandi kallaði til mín eftir  ca 2 km ..50 sek í þá fyrstu. Það var ekkert annað í stöðunni en að bíta á jaxlinn og ná henni. Ótrúlegt hvað það venst einhvern veginn ekki að hlaupa eftir hjólalegginn  á 39 mín hraða fyrir 10 km. Lappirnar eru steiktar eftir hjólreiðarnar og mann langar bara að leggjast niður eða fela sig bak við tré. Það er á þessum tímapunkti sem keppnin byrjar fyrir alvöru. Eftir fyrsta hringinn sá ég  glitta í hana og efldist við það. Náði henni svo loksins eftir 7 km og þvílík sæla. Trixið er að taka ekki fram úr másandi og blásandi heldur hanga fyrir aftan í smá stund, safna kröftum og geysast svo framúr létt á fæti og halda því í amk 100 metra.  Ef þú rétt sligast frá úr þá ertu að bjóða upp  í dans. Gunni sagði mér að ég yrði að herða mig til að ná tveimur af þeim sem höfðu startað 5 mín á eftir  mér en þær voru á þeim punkti samkvæmt hans útreikningum komnar 20-30 sek á undan mér. Frábært að hafa svona góðan tímavörð en hann og sonur minn þurftu að vakna kl 3 um nóttina til að koma með mér og met ég það mikils. Önnur þeirra var sú sem vann 5 mín á mig í sundinu og hin er  35 mín 10 km hlaupari. Við skiptumst á að vinna hver aðra og þær höfðu á endanum betur í þetta skiptið. Suma daga gengur allt upp og aðra þarf maður að láta í minni pokann. Þriðja sætið á breska meistarmótinu í ólympískri vegalengd  er nú samt gríðarlegur heiður hér  og breskur meistari  í mínum aldurshóp ekki síðri  bónus. Með þennan árangur eru mér hreinlega allir vegir færir í íþróttinni. Nú eru tæpar 3 vikur í heimsmeistaramótið í Búdapest . Ég ætla ekki að gefa eftir þumlung í æfingum og ég skal uppá verðlaunapall fyrir Ísland  hvað sem það kostar. Ég er svo þakklát fyrir velgengnina og hvað ég á góða að. Öll sætu emailin og kveðjurnar, ég er hreinlega orðlaus og get lítið gert nema sagt við ykkur þarna úti TAKK FYRIR MIG.