Karen Axelsdóttir - haus
20. ágúst 2010

Á reiðhjóli hringinn í kring um Ísland

thoraeinÉg fékk um daginn skemmtilegan  tölvupóst frá Þóru Hrönn Njálsdóttur  sem núna í sumar  hjólaði ásamt manni sínum Sigurjóni Péturssyni hringinn í kringum Ísland á rúmum tveimur vikum.  Ég spurði Þóru Hrönn hvernig þetta hefði komið til og hvort undirbúningur hefði staði lengi.  Hún svaraði : ,,Ég spurði manninn minn hvort við ættum að hjóla hringinn og hann sagði já. Og svo lögðum við bara af stað". Þetta fannst mér alveg magnað. Þau hjónin eru reynslu mikið ferðafólk og bæði í góðu formi  en það að hafa enga reynslu af hjólreiðum og skella sér "bara hringinn" eða alls 1367 km finnst mér þrekvirki og greinilegt að hér er mikið ævintýra- og afreksfólk á ferð. Ég bið ungar sófakartöflur að halda sér fast  en  þau voru að fagna 60 ára afmæli bóndans! Þó ég hafi farið fjöldan allan af mörghundruð km ferðum þá þyrfti ég að hugsa mig tvisvar um áður en ég legði í svona ferð á fjallahjóli, sofandi í tjaldi og með íslenska veðrið eins og það getur orðið. Sem sagt þetta eru algjörir naglar. Ég  ætla að að leyfa ykkur að lesa frásögn Þóru Hrannar í tveimur hlutum en hér kemur sá fyrri:         Forsaga þessa máls er sú að í upphafi júní keypti ég reiðhjól handa eiginmanni mínum sem varð 60 ára 22. júní sl.  Auðvitað keypti ég einnig hjól handa mér.  Við fengum hjólin afhent í reiðhjólaversluninni Markinu þ. 1. júní og hjóluðum á þeim sæl og glöð í hauga rigningu heim til Hafnarfjarðar alls 10 km leið. Miðvikudaginn 2. júní fórum við síðan 7 km til að prófa hjólin betur og venja okkur við hjólaskóna sem læsast við pedalana.  Þetta var búnaður sem við höfðum ekki notað áður og reyndar ekki átt reiðhjól í um áratug.  Sigurjón hóf ferðina með því að detta á hliðina þar sem hann var ekki klár á því að losa skóinn. 

Sunnudaginn 6. júní var síðan haldið í alvöru reiðhjólaferð.  Fyrst var haldið að Kleifarvatni og þaðan að grunni Krýsuvíkurkirkju, en hún brann til grunna 2. janúar s.l. (27 km).  Þaðan héldum við síðan áleiðis til Grindavíkur en beygðum síðan inn á Vigdísarvallaveginn og hjóluðum hann allt norður í Vatnsskarð þar sem komið er á malbikið á Krýsuvíkurveginum og heim til Hafnarfjarðar.  Alls voru þetta 72 km og Vigdísarvallavegurinn var ójafn svo ekki sé meira sagt svona í upphafi sumars.

ÞETTA VAR UNDIRBÚNINGURINN ÞVÍ NÚ HÓFST ANNAR UNDIRBÚNINGUR NEFNILEGA UNDIRBÚNINGURINN FYRIR 60 ÁRA AFMÆLIÐ SEM FÓR FRAM 22. JÚNÍ.

þoraogsigurjonHjólin voru því ekki hreyfð fyrr en 26. júní að öðru leyti en því að Sigurjón fór þrjár 25 km æfingaferðir suður Krýsuvíkurmalbikið.  Laugardagsmorguninn 26. júní hlóðum við á hjólin svefnpokunum okkar, tjaldinu, príumusnum ofl. og lögðum við af stað í rigningu frá heimili okkar að Austurgötu 40 í Hafnarfirði í ferðalagið hring um Ísland sem við höfum kosið að kalla Tour d´Islande til aðgreiningar frá hinni frægu reiðhjólakeppni Tour d´France.  Í vikunni á undan höfðum við keypt töskur á hjólin, púðabuxur ofl. ásamt skærgulum reiðhjólajökkum sem við álítum okkar bestu slysavarnarfjárfestingu á reiðhjóli.  Leiðin lá að Litlu Kaffistofunni í Svínhrauni sem var fyrsta stopp og fengum við þar gott heitt kakó og heimasmurt brauð eins og það gerist best á þessum vinsæla veitingastað þar sem móttökur gestgjafa eru með því hlýjasta sem gerist.  Frá Litlu Kaffistofunni var síðan haldið austur Svínahraun og þar þrengir heldur betur að reiðhjólamönnum þar sem vegurinn er mjög mjór og umferðin gengur hratt fyrir sig.  Vorum við þarna líklega í einni mestri lífshættu alla ferðina.  Við fórum síðan Þrengslin og niður að Þorlákshöfn.  Yfir Ölfusá á brúnni og síðan upp á Selfoss.  Samtals 71 km fyrsta daginn.