Karen Axelsdóttir - haus
24. ágúst 2010

Tour d'Islande - 2. Hluti

Hér er annar hluti af ferð Þóru Hrannar Njálsdóttur og Sigurjóns Péturssonar þar sem þau hjóluðu hringinn í kringum Ísland  á fjallahjóli núna í sumar. Ég þurfti því miður að stytta nokkra skemmtilega kafla úr ferðasögu Þóru Hrannar til að ná að birta áfangana í heild sinni.

Dagur 2. Stefnan var sett á Skóga.  Það var dásamlegt að hjóla austur suðurlandsundirlendið.  Við vorum í góðu formi og fundum ekki fyrir því að hafa hjólað daginn áður.  Hádegisverð snæddum við á Hellu, tókum eftirmiðdagskaffi við Markarfljót.  Þar byrjaði að rigna.  Hjóluðum í rigningu en hægum vindi að Skógum þar sem við dvöldum þá nótt.  103 km lágu eftir þennan dag.  Við höfðum búist við að sjá meiri ummerki á gróðri eftir eldgosið í Eyjafjallajökli en nú virtist allt grænt nema þegar betur að var gáð.  Dagur 3. Markmið dagsins var Kirkjubæjarklaustur.  Þegar komið var í Eldhraunið var hins vegar farið að draga af okkur.  Þriðji dagurinn er ávallt sá erfiðasti.  Þá koma fram þreytuáhrif fyrsta dagsins.  Til Kirkjubæjarklausturs komum við um kvöldmatarleytið.  106 km var árangur dagsins. 

20100712 Tour d´Islande 2010-46Dagur 4. Hingað til hafði veðrið í raun leikið við okkur en nú varð grundvallarbreyting á því.  Víðáttumikil og djúp lægð sem hafði mikil áhrif á ferðalag okkar næstu daga nálgaðist Ísland.  Áður en yfir lauk reyndist þetta vera versta lægð sem gengið hefur yfir landið að sumarlagi í 101 ár.  Hún átti sko eftir að bleyta oft í okkur.  Þegar kom í Skaftafell vorum við orðin vel blaut en héldum nú samt 15 km lengra að Litla Hofi í Öræfum.  86 km lágu þennan dag.  Dagur 5. Lögðum af stað frá Litla Hofi kl. 8 næsta morgun í roki og rigningu.  Um hádegisbil náðum við þó til Breiðamerkurlóns þar sem við fengum kakó og heita súpu.  Hitastigið var nú komið niður í 6 gráður þar sem vindurinn blés af sjónum.  Kl. 17:30 náðum við loks að Smyrlabjörgum í Suðursveit eftir 72 km ferðalag þar sem verulega þurfti að taka á því.  Við vorum köld og þreytt og gott að koma í bændagistinguna hjá Laufeyju Helgadóttur og Sigurbirni Karlssyni.  Sigurbjörn sagði að það yrði ekkert ferðaveður næsta dag.  Dagur 6. Þennan dag héldum við kyrru fyrir í vonda veðrinu og nutum þess að lesa og hvíla okkur. 

20100712 Tour d´Islande 2010-64Dagur 7. Næsta dag var komið betra veður og ferðin austur Mýrarnar í Hornafirði var eins og hún gerist fallegust.  Og svo fór auðvitað að rigna á nýjan leik.  Það stytti að sjálfsögðu upp þegar við komum inn í göngin undir Almannaskarðið en gamanið kárnaði nú heldur betur þegar komið var út úr þeim hinu megin.  Þykk rigning, þoka og vindurinn á móti.  Við komumst að Karlsstöðum í Lóni þar sem við fengum húsaskjól í sumarbústað í fallegu rjóðri.  74 km. Dagur 8. Nú hófst annar af tveimur verstu dögunum ferðarinnar hvað veður snertir.  Lögðum af stað í mikilli rigningu og mótvindi sem hélst fyrir Hvalsnes- og Þvottárskriður.  Hjóluðum síðan í 2 klst. í þurru veðri en skýjuðu en síðan hófst 4 klst. bardagi við Kára.  Haugarigning og rok út Álftafjörðinn, inn og út Hamarsfjörðinn og náðum síðan hundblaut og köld en sæl til Djúpavogs þar sem allt var þurrkað.  68 km lágu þennan dag.

Dagur 9. Lögðum af stað frá Djúpavogi þurr og heit. Hjóluðum inn Berufjörðin og hófst nú uppgangan á Exi, en það er 520 mys fjallvegur úr Berufirði áleiðis til Egilsstaða. Bröttustu brekkurnar voru 17°halli og teymdum við hjólin upp þær brekkur. Þegar upp var komið hófst ævintýraleg ferð niður Skriðdal og alla leið til Egilsstaða. 88 km lágu þennan daginn.

 Lokakaflinn og  umsögn Þóru Hrannar um ferðina kemur á morgun.