Karen Axelsdóttir - haus
25. ágúst 2010

Tour d'Islande - Lokakafli

Hér er lokakafli um ferð Þóru Hrannar Njálsdóttur og Sigurjóns Péturssonar þar sem þau hjóluðu hringinn í kringum Ísland  á fjallahjóli núna í sumar. Ótrúlegt afrek  hjá þeim en eins og ég sagði um daginn þá  hafa þau enga reynslu af hjólreiðum og þau voru að fagna sextugs afmæli Sigurjóns. Nóg til að slá mig amk út af laginu. 

Dagur 10. Frá Egilsstöðum héldum við upp Fellaheiðina sem var rosalega löng og brött. Líklega var þreytan að koma fram eftir ferðina úr Lóninu til Djúpavogs. Á Jökuldalsheiði var mikil þoka. Við héldum því áfram til að koma okkur niður úr þokunni. Það tókst og fundum við fínan tjaldstað í Möðrudal. Þar tjölduðum við kl. 10 um kvöldið og skriðum ofan í jöklasvefnpokana okkar, settum á okkur heitu húfurnar okkar og steinsofnuðum þreytt og sæl. 104 km. Dagur 11. Vöknuðum þennan dag í tjaldinu okkar í Möðrudal vel úthvíld. Þurrt var í veðri og sólin braust fljótlega fram og stuttbuxum var skartað. Hjóluðum alla leið til Mývatns. Þar var farið beint í Jarðböðin og tekinn sveittur hamborgari á eftir. Þar sem veðurspá var ekki góð fyrir næsta dag einsettum við okkur að ná eins langt þennan dag og mögulegt væri. Hjóluðum því að Stóru Tjörnum í Ljósavatnsskarði og var  kl. 22:30 þegar við komum þangað. 130 km lágu þann daginn.

  20100712 Tour d´Islande 2010-49Dagur 12. Nú hófst versti dagur ferðalagsins.  Lögðum af stað frá Stóru Tjörnum í Ljósavatnsskarði kl. 12:00. Fljótlega jókst vindurinn og rigningin þar til komið var kolbrjálað óveður. Slagveðurs rigning og það beint í fangið. Áfram héldum við og teymdum hjólin að mestu upp Víkurskarðið þar til 320 m hæð yfir sjávarmál var náð. Þar skelltum við í okkur samloku og kóki og létum okkur síðan renna niður í Eyjafjörðinn og inn til Akureyrar. Aðeins 42 km lágu þennan daginn en þetta var erfiðasti dagur ferðarinnar.  Það þurfti að vinna mikið og lengi fyrir hverjum km. Dagur 13. Lögðum af stað frá Akureyri til Varmahlíðar. Vorum þar seint á ferð, en þreytt og sæl eftir 98 km ferð.  Nú vorum við farin að eygja lokamarkið, Hafnarfjörð.   Dagur 14.  Lögðum af stað úr Varmahlíð kl. 11:00. Stoppuðum við minnismerkið um Stephan G. í Vatnsskarðinu og tókum myndir. Leiðin lá um Blönduós og áfram að Laugabakka í Miðfirði eftir kvöldverð í Víðgerði í Víðidal. Vatnsskarðið var á sínum stað en þar er hækkunin 420 m. Bændagisting og heitur pottur á Laugabakka til að liðka sig fyrir næsta dag. Þetta varð 111 km dagur. Dagur 15. Lögðum af stað frá Laugabakka vel úthvíld  kl. 10:00.  Hjóluðum í Staðarskála og fengum þar æðislega kjötsúpu. Héldum áfram og upp á Holtavörðuheiðina sem er hækkun upp á 410 m Hún var síðasta heiði ferðarinnar. Flott rennsli allt niður í Sanddalskjaft þar sem við fengum okkur samlokur og nammi í fallegu rjóðri. Hvað annað? Síðusta nóttina gistum við á Farfuglaheimilinu í Borgarnesi, búin að hjóla tæplega 1300 km. Er hægt að vera annað en glaður? 

Dagur 16. Lögðum af stað frá Borgarnesi. Fengum skutl gegnum göngin. Hjóluðu síðan með allan farangurinn áfram Kjalarnesið - Mosfellssveitina og heim á Austurgötu 40 í Hafnarfirði.   20100712 Tour d´Islande 2010-78Í ferðinni hjóluðum við samtals í 100 klst og 27 mínútur og heildarvegalengdin var 1367 km. Við Sigurjón brostum hringinn þegar við skáluðum fyrir hvort öðru í kampavíni heima í garði í sólskini og hita enda var "Hringnum" lokið, hvílík ævintýraferð.  Að ferðast um landið okkar á reiðhjóli er alveg sérstök upplifun.  Þar sem þú ferð hægar yfir en í bíl þá gefst miklu betra tækifæri til að að njóta náttúrunnar og maður tekur eftir ýmsu sem hingað til hafa farið fram hjá manni.  Þú ert einn með sjálfum þér og samt ekki.  Þú átt samtal við nánast hverja einustu vegstiku allan hringveginn.  Og fólkið sem þú hittir er alveg meiri háttar.  Sérstaklega er þér vel tekið þegar í ljós kemur að þú ert Íslendingur og það á reiðhjóli.  Að vissu leyti upplifir þú þig sem útlending í eigin landi.  Þér gefst mikill tími til að hugsa.  Hugsar og hugsar um allt og ekkert.  Eignast innri frið. Engin truflun bara hjólað og hjólað.    Sjá myndir úr ferðinni hér http://picasaweb.google.com/sigurjonp/TourDIslande2010#      

Kveðja, Þóra Hrönn Njálsdóttir og Sigurjón Pétursson