Karen Axelsdóttir - haus
Þú ert hér: Karen Axels > Mig langar að...
29. september 2010

Mig langar að...

Það góða við markmiðasetningu og árangur í íþróttum eins og ég var að tala um í síðasta pistli er að það er svo auðveldlega hægt að heimfæra aðferðirnar uppá daglegt líf. Ég veit ég ætti bara að halda mig við það að rausa um þríþraut og hvernig maður nær árangri í íþróttum en það að detta inní þennan hugsunarhátt hefur eins og ég sagði síðast ekki bara hjálpað mér íþróttunum heldur líka í því að bæta sjálfa mig sem persónu og skipta um starfsvettvang.

Íþróttafólk sem nær langt  er með sín markmið 100% á hreinu. Hver einasta æfing  hefur sérstakan tilgang og það er stöðugt verið að endurskoða hvað þarf að bæta hverju sinni. Ég veit ekki hvort er gagnlegra þessi stífi fókus sem gefur manni drifkraft til að framkvæma eða það að vera opin fyrir stöðugum endurbætum. Ég veit bara að með því að blanda þessu tvennu saman þá hættirðu að vera eins og rekald og getur sest sjálf/ur í bílstjórasætið á eigin lífi.  Gerðu eitt fyrir mig núna, hvort sem þú ert þreytt húsmóðir eða stefnir á næstu ólympíuleika. Náðu í blað og penna og skrifaðu niður punkta við eftirfarandi þáttum.

 

1. Hvað viltu gera og hvar viltu vera? Auðvitað mismunandi eftir aldri og hvar við erum stödd í lífinu, en hvort sem þú ert í vinnu, komin á eftirlaun, atvinnulaus, heimavinnandi eða í skóla þá hefurðu væntanlega alltaf einhverjar hugmyndir um hvað þig dreymir um að gera eða hvernig þú villt verja þínum tíma.

2. Hvernig manneskja viltu vera og hvað geturðu bætt í eigin fari til að verða að betri manneskju? Við getum kanski ekki breytt öðrum en við getum alltaf breytt okkar eigin viðbrögðum gagnvart aðstæðum og öðru fólki.

3. Hvaða óskir hefur þú varðandi heilsu þína?

4. Hvernig viltu hafa  samskipti þín við fjölskyldumeðlimi, vini og aðra? Sumir  ákveða að eyða þessum stutta tíma sem við höfum í  öfund, hroka eða biturð út í aðra. Ég þekki t.d hjón sem skildu fyrir 30 árum síðan og geta enn ekki verið í sama herberginu.   5. Hvernig viltu hafa  fjármálin?          6. Hver eru áhugamál þín og hvernig viltu sjá þau þróast?      Hugsaðu hverja spurningu með eftirfarandi í huga.  

1. Hvernig viltu  hafa þetta eftir 3 mánuði?  Hér verðurðu að hafa væntingar í takt við raunveruleikann og meta hvað er raunhæft og hvað ekki en þetta snýst um að marka stefnu og byrja að finna leiðir til betri vega.

 

2.  Hvert er drauma langtímamarkmiðið þ.e hvernig langar þig að hafa þetta eftir 5 ár? Vertu ófeiminn að hafa stóra drauma og hugsa stórt.

goal-setting3Svörin þurfa alls ekki að vera formleg og geta verið bara örfáir punktar, en þau hjálpa þér að byrja og þau hjálpa þér við að finna leiðir til þess að breyta því sem þig langar til að hafa öðruvísi eða betra. Ekki spá í egóið eða hvernig þú vilt að aðrir sjái þig, heldur leyfðu hjartanu og þinni innri rödd að tala. Ég veit að sumt er óþægilegt að horfast í augu við t.d ef fjárhagurinn er slæmur eða ef samskiptin við fjölskylduna eru ekki góð...en einmitt þeim spurningum verðurðu að velta fyrir þér og taka í taumana. Sumir íþróttagarpar spyrja kanski ,,hvað í andskotanum koma spurningar um samskipti mín við aðra eða fjölskyldumálin því við hvort ég komist á verðlaunapall". Mundu að þú ert ekki Palli er einn í heiminum og með því að setja upp heildarmyndina þá geturðu stillt hvert og eitt markmið í takt við hvernig það passar inn í hana.